Fyrsti hluti af nýjum vef Veðurstofunnar fór í loftið í dag. Þetta er fyrsta skrefið í umfangsmiklu verkefni sem snýr að endurnýjun á vefnum og öllu tækniumhverfi vefsins.
Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni https://gottvedur.is/. Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef líkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is.
Í þessum fyrsta áfanga er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað.
Lesa meiraSlæmt veður
var á öllum Reykjanesskaganum í gær. Miðað við veðurspár mun veðrið næstu daga hafa
áhrif á vöktun jarðhræringa og viðbragðstíma ef kvikuhlaup eða eldgos verður.
Sterkur vindur, slydda og snjókoma geta truflað jarðskjálftamælingar og dregið
úr nákvæmni GPS-mælinga á landrisi.
Hvöss suðaustanátt verður fram til kvölds með hríðarveðri
víða um land. Á láglendi suðvestantil má búast við slyddu eða rigningu. Það hlýnar
í veðri, hiti verður á bilinu 0-5 stig síðdegis. Undir kvöld snýst í mun hægari
vestanátt með stöku éljum vestantil, og kólnar tímabundið.
Á morgun, föstudag, má búast við suðaustanstormi eða jafnvel roki, auk hláku um allt land. Seinnipartinn eykst vindhraðinn í 18-25 m/s með talsverðri rigningu. Hvassast verður norðvestantil, en úrhellisrigning á Suðausturlandi. Austantil verður veðrið rólegra og þurrt fram til kvölds. Hiti verður á bilinu 5-10 stig annað kvöld.
Lesa meiraÁrið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti síðan 1998. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en hlýrra við suðurströndina. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir. Árið í heild var þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu, en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var einna mest. Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst og einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Á öðrum árstímum var tiltölulega hægviðrasamt og loftþrýstingur og vindhraði voru í kringum meðallag þegar litið er á árið í heild.
Lesa meiraUppfært 20. janúar kl. 14:50
Órói sem mældist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli og vatnshæð í Gígjukvísl hafa aftur náð svipuðum gildum og voru fyrir hlaup. Þar með er Grímsvatnahlaupinu, sem hófst fyrir um það bil 10 dögum, lokið. Skjálftavirkni í Grímsvötnum jókst ekki á meðan hlaupinu stóð en nokkrir skjálftar undir M2 mældust í síðustu viku. Þrýstiléttir vegna jökulhlaupsins hafði ekki í för með sér aukna virkni í Grímsvötnum meðan á hlaupinu stóð. Þess vegna hefur fluglitakóði fyrir Grímsvötn verið lækkaður aftur í grænan, eftir að hafa tímabundið verið hækkaður í gulan þegar hlaupið náði hámarki. Þótt jökulhlaupinu sé lokið heldur Veðurstofa Íslands áfram að fylgjast náið með virkni á svæðinu.
Lesa meiraUppfært 17. janúar kl: 11:20
Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.
Lesa meiraUppfært 14. janúar kl. 16:30
Eftir kl. 9 í morgun dró verulega úr ákafa jarðskjálftahrinunnar í Bárðarbungu og hafa fáir jarðskjálftar mælst síðan þá. Töluverður ákafi var í skjálftahrinunni. Þrátt fyrir minni virkni mælast enn skjálftar, og náið verður fylgst með áframhaldandi þróun.
Jarðskjálftahrinan hófst rétt upp úr klukkan 6 í morgun og náði hámarki klukkan 8:05 þegar stærsti skjálftinn, að stærð M5,1 mældist. Að auki hafa 17 skjálftar yfir M3 að stærð verið skráðir, þar af tveir um eða yfir M4 að stærð.
Lesa meiraÁrið 2024 er hlýjasta ár síðan mælingar hófust og fyrsta
árið þar sem meðalhiti er 1.5 °C hærri en hann var fyrir iðnbyltingu.
Losun gróðurhúsalofttegunda er megin orsök mikils loft-
og sjávarhita, en aðrir þættir, s.s. El Nino veðurfarsveiflan lagði einnig til
óvenjumikils hita á síðasta ári.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu veðurfarsþjónustu Kópernikus (C3S) sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins en er rekin af Reiknisetri
evrópskra veðurstofa (ECMWF). Vísindamenn á vegum stofnunarinnar hafa vaktað
veðurfarstengdar breytingar á árinu, m.a. óvenjulega mikla hita, sem birtust
m.a. í dægurhitametum, mánaðar- og ársmetum.
Gefnar voru út samtals 333 viðvaranir vegna veðurs árið 2024, þar af 29 appelsínugular en engin rauð. Sá fjöldi er svipaður og árið áður, en frá 2018 hafa að meðaltali 373 viðvaranir verið gefnar út á ári. Árið 2024 var því heldur undir meðallagi síðustu ára.
Lesa meiraFrá 30. desember hefur ísstífla verið að byggjast upp í Hvítá í Árnessýslu. Ísstíflan er nærri Brúnastöðum og Flóaáveituskurðinum. Vegna ísstíflunnar hækkar vatnsborð í ánni á svæðinu og síðdegis í gær 2. janúar byrjaði að flæða vatn upp úr árfarveginum. Vatnið flæðir yfir inntak Flóaáveituskurðarins og fram hjá því báðum megin. Lögreglan á Suðurlandi var á svæðinu fyrir hádegi í dag og kannaði aðstæður. Hluti vatnsins rennur yfir Brúnastaðaflatir en hluti þess rennur ofan í Flóaáveituskurðinn.
Lesa meiraDesember var tiltölulega kaldur um allt land. Úrkoma var um eða yfir meðallag á sunnan- og vestanverðu landinu, en það var þurrara á Norður- og Austurlandi. Það var hvasst og umhleypingasamt veður yfir jólahátíðina og töluvert var um samgöngutruflanir.
Lesa meira