Fréttir

GPS - mælingar sýna að vísbendingar eru um að landris sé hafið að nýju - 4.4.2025

Uppfært 4. apríl kl. 14:25

GPS-mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Líklegast er það áframhaldandi kvikusöfnun undir Svartsengi sem veldur landrisinu en hluti þess er vegna áhrifa frá myndun kvikugangsins þann 1. apríl. Það er vegna þess að þegar kvikugangar myndast þrýsta þeir jarðskorpunni frá sér til beggja hliða. Að svo stöddu er því erfitt að meta hraða kvikusöfnunar og mögulega þarf að bíða í allt að viku til að meta frekari þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi.

Aflögunarmælingar sýna einnig að enn mælast hreyfingar á GPS-stöðvum í kringum norðurhluta kvikugangsins, m.a. í Vogum og við Keili. Gervitunglamyndir sem sýna breytingar á milli 2. og 3. apríl kl. 16 staðfesta hreyfingar á þessu svæði. Sömu gögn sýna einnig mælanlegar sprunguhreyfingar, um nokkra millimetra, í austurhluta Grindavíkur.

Lesa meira

Bætt þjónusta Veðurstofu Íslands við útvarpshlustendur - 3.4.2025

Þann 1. apríl 2025 voru gerðar smávægilegar en gagnlegar breytingar á útvarpslestri veðurfrétta frá Veðurstofu Íslands á RÁS 1. Tímasetningar veðurfregna haldast óbreyttar, en innihaldið hefur verið tilsniðið til að veita hlustendum betri og markvissari þjónustu.

Lesa meira

Tíðarfar í mars 2025 - 3.4.2025

Mars var hlýr og hægviðrasamur um allt land. Úrkomulítið var norðaustanlands en úrkomusamara á vestanverðu landinu. Nokkuð sólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hvassviðri í upphafi og lok mánaðar ollu vandræðum. Veðrinu þ. 3. og 4. fylgdu sjávarflóð á suðvesturhorni landsins, en þ.30 varð mikið þrumuveður á sunnanverðu landinu.

Lesa meira

Hvernig munu loftslagsbreytingar hafa áhrif á þitt nærsamfélag? - 2.4.2025

Loftslagsbreytingar hafa margvísleg áhrif á umhverfi og samfélög. Mikilvægt er að almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um þróunina og hvað hún gæti þýtt fyrir nærumhverfi og lífsskilyrði.

Lesa meira

Áfram þarf að reikna með nýju eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni - 25.3.2025

Uppfært 25. mars kl. 14:15

Aflögunarmælingar (GPS) sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram, þó svo að hraði landriss hafi minnkað lítillega síðustu vikur. Þrátt fyrir hægara landris er áfram talið líklegt að kvikuhlaup og/eða eldgos verði á Sundhnúksgígaröðinni.

Lesa meira

Erfitt að fá skýra mynd af þróun virkninnar til næstu ára á Reykjanesskaganum - 21.3.2025

Miðað við tiltæk vöktunargögn og túlkun þeirra (þann 21.03.2025) bendir allt til þess að rúmmál kviku sem safnast hefur nú undir Svartsengi nái á endanum að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Hér er hlekkur á samantekt á við hverju má búast í næstaeldgos.

Lesa meira

Jöklar á hverfanda hveli - Ákall um aðgerðir til þess að takmarka hlýnun - 20.3.2025

Alls staðar í heiminum bera jöklar þess merki að loftslag er að hlýna vegna athafna mannkyns. Mælingar á magni koltvísýrings í lofti hafa verið gerðar á Mauna Loa á Hawaii síðan 1958 og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum frá árinu 1992 og eykst styrkur hans jafnt og þétt. Gildin sem nú mælast eru þau hæstu í að minnsta kosti tvær milljónir ára. Yfirstandandi loftslagsbreytingar eru fordæmalausar og ískjarnarannsóknir á ísbreiðum Suðurskautslandsins og Grænlands sýna það vel.

Lesa meira

Jarðskjálftahrina í gangi við Reykjanestá - 13.3.2025

Um kl. 14:30 í gær hófst nokkuð áköf jarðskjálftahrina nærri Reykjanestá. Mestur ákafi var í hrinunni í upphafi þegar um 50 – 60 jarðskjálftar mældust fyrstu klukkustundirnar. Þegar leið á daginn dró úr virkninni, en jókst síðan aftur skömmu fyrir miðnætti þegar jarðskjálfti af stærð 3,5 varð. Eftir að virknin jókst aftur í gærkvöldi færðist virknin aðeins vestar eins og meðfylgjandi mynd sýnir, þar sem bláir hringir sýna staðsetningu skjálfta sem urðu í upphafi hrinunnar í gærdag en gulir og rauðir skjálftar sem síðan urðu seint í gærkvöldi og nótt.

Lesa meira

Tíðarfar í febrúar 2025 - 5.3.2025

Febrúar var óvenjulega hlýr, úrkomusamur og snjóléttur. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Töluvert var um illviðri, sérstaklega í byrjun mánaðar. Verst var veðrið dagana 5. og 6. febrúar þegar mikið sunnan hvassviðri gekk yfir landið. Veðrið bættist í hóp verstu óveðra síðustu ára. Samgöngur lágu niðri og veðrið olli töluverðu tjóni víða um land.

Lesa meira

Ný rannsókn sýnir að rýrnun jökla á jörðinni herðir á sér - 20.2.2025

Samkvæmt rannsókn,sem birt er í dag í vísindaritinu Nature, hafa jöklar jarðar, að frátöldum stóru ísbreiðunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu, að meðaltali rýrnað um 273 milljarða tonna af ís árlega frá síðustu aldamótum. Rýrnunin samsvarar 273 rúmkílómetrum vatns. Lesa meira

Óveðrið 5.- 6. febrúar eitt öflugasta sunnan illviðrið síðustu ár - 7.2.2025

Mikið sunnan illviðri gekk yfir landið dagana 5.–6. febrúar 2025 og bætist það í hóp verstu óveðra síðustu ára. Slík veður eru þó ekki óalgeng hér á landi og koma á 2–5 ára fresti. Hins vegar hafa síðustu vetur verið fremur hægviðrasamir og því hafa illviðri verið sjaldgæf.

Lesa meira

Óveðrið gengur niður – enn viðvaranir á austanverðu landinu - 6.2.2025

Uppfært 6. febrúar kl. 16:45

Lægð fór yfir vestanvert landið í dag og olli óveðri víða um sunnan-, austan og norðanvert landið.

Rauðar viðvaranir vegna sunnan illviðrisins eru enn í gildi á austanverðu landinu fram til kvölds.  Spáð er sunnan 23-30 m/s og rigningu um austanvert landið með staðbundnum vindhviðum yfir  50 m/s.  Má búast við foktjóni og hættulegum aðstæðum utandyra og ferðalög eru ekki ráðlögð. Á Austfjörðum mun veðrið lægja síðast, um kvöldmatarleytið.

Lesa meira

Tíðarfar í janúar 2025 - 4.2.2025

Janúar var tiltölulega kaldur, sérstaklega á Norðausturlandi. Mánuðurinn var hægviðrasamur miðað við árstíma.  Hlýindi og miklar rigningar um miðjan mánuð ollu miklum leysingum og flæddu ár og lækir víða yfir vegi og tún. Töluverð snjóþyngsli voru á Austurlandi í mánuðinum. Þar snjóaði óvenjumikið þ. 20. og mældist snjódýptin á Austfjörðum með því mesta sem vitað er um í janúarmánuði. Síðasta dag mánaðarins skall stormur á landinu sem olli bæði fok- og vatnstjóni, auk ofanflóða og mikilla samgöngutruflana.

Lesa meira

Nýr vefur fyrir veðurspár í loftið í dag - 3.2.2025

Fyrsti hluti af nýjum vef Veðurstofunnar fór í loftið í dag. Þetta er fyrsta skrefið í umfangsmiklu verkefni sem snýr að endurnýjun á vefnum og öllu tækniumhverfi vefsins.

Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni https://gottvedur.is/. Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef líkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is.

Í þessum fyrsta áfanga er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað.

Lesa meira

Viðvaranir vegna hvassviðris og úrkomu næstu daga - 30.1.2025

Hvöss suðaustanátt verður fram til kvölds með hríðarveðri víða um land. Á láglendi suðvestantil má búast við slyddu eða rigningu. Það hlýnar í veðri, hiti verður á bilinu 0-5 stig síðdegis. Undir kvöld snýst í mun hægari vestanátt með stöku éljum vestantil, og kólnar tímabundið.

Á morgun, föstudag, má búast við suðaustanstormi eða jafnvel roki, auk hláku um allt land. Seinnipartinn eykst vindhraðinn í 18-25 m/s með talsverðri rigningu. Hvassast verður norðvestantil, en úrhellisrigning á Suðausturlandi. Austantil verður veðrið rólegra og þurrt fram til kvölds. Hiti verður á bilinu 5-10 stig annað kvöld.

Lesa meira

Alþjóðaár jökla hafið - 21.1.2025

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfandahveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum. Lesa meira

Tíðarfar ársins 2024 - 20.1.2025

Árið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti síðan 1998. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en hlýrra við suðurströndina. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir. Árið í heild var þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu, en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var einna mest. Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst og einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Á öðrum árstímum var tiltölulega hægviðrasamt og loftþrýstingur og vindhraði voru í kringum meðallag þegar litið er á árið í heild.

Lesa meira

Grímsvatnahlaupi lokið - 20.1.2025

Uppfært 20. janúar kl. 14:50

Órói sem mældist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli og vatnshæð í Gígjukvísl hafa aftur náð svipuðum gildum og voru fyrir hlaup. Þar með er Grímsvatnahlaupinu, sem hófst fyrir um það bil 10 dögum, lokið. Skjálftavirkni í Grímsvötnum jókst ekki á meðan hlaupinu stóð en nokkrir skjálftar undir M2 mældust í síðustu viku. Þrýstiléttir vegna jökulhlaupsins hafði ekki í för með sér aukna virkni  í Grímsvötnum  meðan á hlaupinu stóð. Þess vegna  hefur fluglitakóði fyrir Grímsvötn verið lækkaður aftur í grænan, eftir að hafa tímabundið verið hækkaður í gulan þegar hlaupið náði hámarki. Þótt jökulhlaupinu sé lokið heldur Veðurstofa Íslands áfram að fylgjast náið með virkni á svæðinu.

Lesa meira

Áfram mælast skjálftar á miklu dýpi við Grjótárvatn - 17.1.2025

Uppfært 17. janúar kl: 11:20

Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.

Lesa meira

Lítil jarðskjálftavirkni hefur mælst í Bárðarbungu síðan í gærmorgun - 15.1.2025

Uppfært 14. janúar kl. 16:30

Eftir kl. 9 í morgun dró verulega úr ákafa jarðskjálftahrinunnar í Bárðarbungu og hafa fáir jarðskjálftar mælst síðan þá.  Töluverður ákafi var í skjálftahrinunni. Þrátt fyrir minni virkni mælast enn skjálftar, og náið verður fylgst með áframhaldandi þróun.

Jarðskjálftahrinan hófst rétt upp úr klukkan 6 í morgun og náði hámarki klukkan 8:05 þegar stærsti skjálftinn, að stærð M5,1 mældist. Að auki hafa 17 skjálftar yfir M3 að stærð verið skráðir, þar af tveir um eða yfir M4 að stærð.

Lesa meira

Árið 2024 var heitasta ár sögunnar og fyrsta árið með meðalhita yfir 1,5°C - 10.1.2025

Árið 2024 er hlýjasta ár síðan mælingar hófust og fyrsta árið þar sem meðalhiti er 1.5 °C hærri en hann var fyrir iðnbyltingu.

Losun gróðurhúsalofttegunda er megin orsök mikils loft- og sjávarhita, en aðrir þættir, s.s. El Nino veðurfarsveiflan lagði einnig til óvenjumikils hita á síðasta ári.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu veðurfarsþjónustu Kópernikus (C3S) sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins en er rekin af Reiknisetri evrópskra veðurstofa (ECMWF). Vísindamenn á vegum stofnunarinnar hafa vaktað veðurfarstengdar breytingar á árinu, m.a. óvenjulega mikla hita, sem birtust m.a. í dægurhitametum, mánaðar- og ársmetum.


Lesa meira

333 viðvaranir gefnar út árið 2024 - 8.1.2025

Gefnar voru út samtals 333 viðvaranir vegna veðurs árið 2024, þar af 29 appelsínugular en engin rauð. Sá fjöldi er svipaður og árið áður, en frá 2018 hafa að meðaltali 373 viðvaranir verið gefnar út á ári. Árið 2024 var því heldur undir meðallagi síðustu ára.

Lesa meira

Hvítá flæðir yfir bakka sína vegna ísstíflu - 3.1.2025

Frá 30. desember hefur ísstífla verið að byggjast upp í Hvítá í Árnessýslu. Ísstíflan er nærri Brúnastöðum og Flóaáveituskurðinum. Vegna ísstíflunnar hækkar vatnsborð í ánni á svæðinu og síðdegis í gær 2. janúar byrjaði að flæða vatn upp úr árfarveginum. Vatnið flæðir yfir inntak Flóaáveituskurðarins og fram hjá því báðum megin. Lögreglan á Suðurlandi var á svæðinu fyrir hádegi í dag og kannaði aðstæður. Hluti vatnsins rennur yfir Brúnastaðaflatir en hluti þess rennur ofan í Flóaáveituskurðinn.

Lesa meira

Tíðarfar í desember 2024 - 2.1.2025

Desember var tiltölulega kaldur um allt land. Úrkoma var um eða yfir meðallag á sunnan- og vestanverðu landinu, en það var þurrara á Norður- og Austurlandi. Það var hvasst og umhleypingasamt veður yfir jólahátíðina og töluvert var um samgöngutruflanir.

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica