Fréttir

Nýr vefur fyrir veðurspár í loftið í dag

Fyrsta skrefið í endurnýjun á vef Veðurstofunnar

3.2.2025

Fyrsti hluti af nýjum vef Veðurstofunnar fór í loftið í dag. Þetta er fyrsta skrefið í umfangsmiklu verkefni sem snýr að endurnýjun á vefnum og öllu tækniumhverfi vefsins.

Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni https://gottvedur.is/. Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is.

Í þessum fyrsta áfanga er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað. Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá verið fjölgað verulega og smám saman mun þeim stöðum fjölga enn frekar.

RadherraOpnarVef_03022025

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur nýjan vef í loftið í dag ásamt Hildigunni H.H. Thorsteinsson, forstjóra Veðurstofu Íslands. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson).

„Það er mér sérstök ánægja að fá að opna nýjan vef Veðurstofu Íslands. Þessi fyrsti áfangi að endurbættri heimasíðu er stórt skref fram á við í aðgengi að grundvallargögnum og upplýsingum um veður og náttúröfl.  Vefurinn mun koma að gagni í daglegu lífi fólks og nýtast sem tæki til að safna og miðla upplýsingum um veðurfar. Það er viðeigandi að opna vefinn í íslensku vetrarveðri“, sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þegar hann opnaði nýjan vef Veðurstofunnar í dag.

Forsida_Mobile"Núverandi vefur hefur þjónað okkur dyggilega í næstum 20 ár og því eru þetta mikil tímamót í dag“, segir Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum".

"Það sem birtist í dag má segja að sé toppurinn á ísjakanum í algjörri endurnýjun á vefumhverfinu".

"Mestu breytingarnar sem notendur taka sennilega eftir er að það er miklu betra að nota nýja vefinn í farsíma“, segir Hildigunnur.




Sömu gögn og spár og á núverandi vef en bætt framsetning

Nýr vefur hefur að geyma samskonar gögn og spár og fyrri vefur. En upplýsingarnar eru settar fram á svolítið öðru formi svo notendur sjái betur hvað veðurspáin er að segja hverju sinni.

Þó er rétt að benda á að sumarið 2024 var tekið í notkun nýtt spálíkan í samstarfi við Danmörku, Holland og Írland og þá breyttist aðalveðurspá Veðurstofunnar fyrir fyrstu spátímana.  Má lesa nánar um það hér:  https://www.vedur.is/um-vi/frettir/vedurstofan-tekur-i-notkun-nytt-spalikan

Miklar kröfur gerðar til rekstraröryggis vefsins

„Þetta er verulega umfangsmikið verkefni og nú þegar höfum við fjárfest um 250 milljónum í verkefninu og reiknum með að fjárfesta um 100 milljónum á næstu árum. Við gerum miklar kröfur til rekstraröryggis, uppitíma og að vefurinn þoli mikið álag, fyrir utan það að framsetning á upplýsingum sé skýr, vefurinn notendavænn og komi til með að þjónusta okkar notendur enn betur en eldri útgáfan gerir í dag“, segir Hildigunnur.

Vinnan við nýjan vef Veðurstofunnar hófst formlega með útboði á vegum Ríkiskaupa í byrjun árs 2022 þar sem Origo varð hlutskarpast. „Við rekum vef sem er vinsæll og samfélagslega mikilvægur og honum fylgir hátt tæknilegt flækjustig. Við viljum vanda til verka og fengum til samstarfs öflugt teymi frá Origo sem hefur staðið undir þeim kröfum sem við gerum hvað varðar hönnun, notendaviðmót og tæknilegar lausnir fyrir vefinn en margar af þeim lausnum eru mjög sértækar“, segir Hildigunnur.

„Það hefur verið bæði áhugavert og ánægjulegt fyrir Origo að fá að taka þátt í þessu mikilvæga og umfangsmikla verkefni með starfsfólki Veðurstofunnar“, segir Ari Daníelsson, forstjóri Origo. „Við höfum nálgast verkefnið af metnaði og finnum til ábyrgðar, enda er hér um að ræða eina af mikilvægum öryggisinnviðum samfélagsins. Fjölmargir sérfræðingar okkar hafa komið að þessari vinnu á síðustu misserum , s.s. á sviði hönnunar og notendaviðmóts, gagnavinnslu, skýjainnviða, og kerfisreksturs og öryggismála“, segir Ari.

HonnunaCombo

Hluti af verkefninu er að bæta aðgengi að gögnum

Hluti af endurnýjun á tækniumhverfi tengt vefnum er að bæta aðgengi að gögnum Veðurstofunnar. Samhliða að nýjar vefsíður birtist notendum er unnið að uppsetningu á vefþjónustum og ýmsum gagnagáttum til að bæta aðgengi og notagildi þeirra gagna sem Veðurstofan safnar.

Verkefnið hefur kallað á heildstæða nálgun þar sem hver þáttur upplýsingatækni umhverfisins var endurhugsaður frá grunni. „Innviðir upplýsingatækni sem standast tæknikröfur hvers tíma þurfa að vera til staðar til að styðja við hlutverk Veðurstofunnar“, segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugana- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofunnar. „Kröfur um aðgengi að gögnum og upplýsingum á stafrænu formi hafa aukist og Veðurstofan hefur á síðustu árum verið að endurnýja og þróa upplýsingakerfi sín í takt við þarfir samfélagsins, en kannski ekki síst til að standast ýmsar ógnir eins og netárásir og slíkt. Nú erum við komin vel á veg að byggja umhverfi sem gerir okkur betur í stakk búin til að þróa áfram lausnir í takti við þarfir samfélagsins og þannig bæta þjónustu Veðurstofunnar“, segir Ingvar.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica