Fréttir

Tíðarfar ársins 2013 - 30.12.2013

Bráðabirgðayfirlit í lok ársins: Tíð var almennt talin lakari heldur en hin síðustu ár. Sumarið var óhagstætt um landið sunnan- og vestanvert en fyrstu tveir mánuðirnir voru óvenjuhlýir um land allt.

Lesa meira

Um snjóflóðaspá og snjóflóðatilkynningar - 19.12.2013

Snjóflóðaspá er nú gefin út á vefnum þrisvar í viku; svæðakort ásamt textaspá sem á við til fjalla en gildir ekki í byggð. Á forsíðu eru tilkynningar um fallin snjóflóð og sú framför hefur átt sér stað að nú birtist þysjanlegt kort með nánari upplýsingum um hvert tilkynnt snjóflóð. Einnig má finna sérstakar fréttir sem varða snjóflóð. Þeir sem eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að fylgjast með þessum vefsíðum og jafnframt er fólk hvatt til að senda inn upplýsingar um fallin flóð og myndir af þeim.

Lesa meira

Jarðskjálftar í nóvember 2013 - 16.12.2013

Í nóvember mældust tæplega 1200 jarðskjálftar með SIL jarðskjálfta-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Helsti viðburður var mikil jarðskjálftavirkni við Vífilsfell í þriðju viku mánaðar. Hátt í 400 skjálftar mældust, stærsti 2,9 að stærð.

Lesa meira
Forsíða Vedráttu-taflna

Vedráttu-töflur Sveins Pálssonar frá 1792 - 6.12.2013

Áhugasamir geta keypt veðurlýsingar frá 18. öld hjá Veðurstofu Íslands: Vedráttu-töflur Sveins Pálssonar (1762-1840) með töflum og veðurlýsingum frá árinu 1792. Handritið var myndað og gefið út með prentaðri uppskrift í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands. Um er að ræða 300 tölusett eintök.

Lesa meira

Tíðarfar í nóvember 2013 - 2.12.2013

Tíð var rysjótt í nóvember. Venju fremur kalt var í kringum miðjan mánuð en síðasta vikan var mjög hlý. Úrkoma var yfir meðallagi um meginhluta landsins, en náði þó ekki meðallagi sums staðar fyrir norðan.

Lesa meira

Niðurstöður fyrir Veðurstofu Íslands í úttekt um opinbera vefi 2013 - 29.11.2013

Nú í haust stóð innanríkisráðuneytið fyrir úttektinni Hvað er spunnið í opinbera vefi og voru niðurstöðurnar birtar í gær. Þetta er í fimmta skipti sem sambærileg úttekt er gerð; áður hafa þær verið gerðar 2005, 2007, 2009 og 2011. Veðurstofa Íslands kemur vel út í könnuninni og var fjórða hæst í flokki ríkisvefja.

Lesa meira
Jarðskjálftayfirlit í október 2013

Jarðskjálftar í október 2013 - 15.11.2013

Um 2.640 jarðskjálftar voru staðsettir í október. Mikill fjöldi skjálfta mældist í skjálftaröðum í Tjörnesbrotabeltinu og við Reykjanestá. Sú nýbreytni er í mánaðaryfirlitinu að sérstök kort fylgja af hvoru svæði um sig. Stærsti skjálfti mánaðarins, 4,8 stig, varð 13. október með upptök austan við Reykjanestá.

Lesa meira

Heimskautaröst norðurhvels og tengsl hennar við veðurfarsbreytingar á norðurslóðum - 13.11.2013

Dagana 13.-15. nóvember er haldinn fjölþjóðlegur fundur á Veðurstofu Íslands. Málefni fundarins eru mjög athyglisverð og fágætt að fá hingað til lands jafnmarga vísindamenn í fremstu röð á sviði aflveðurfarsfræði. Á fundinum verður lagt mat á stöðu þekkingar á norrænu háloftaröstinni og breytingum á henni með aðaláherslu á tengsl við veðuröfgar í tempraða beltinu.

Lesa meira
Hengill í janúar 2006

Endurheimt gagna frá norðurslóðum, fjöldavísindi og rannsóknasamvinna - 11.11.2013

Fjölþjóðlegur vinnufundur IASC var haldinn 11. - 12. nóvember í Forgarði á Veðurstofu Íslands. Fundurinn snerist um endurheimt gagna frá norðurslóðum, fjöldavísindi og rannsóknasamvinnu. Heiti hans var Arctic data rescue, citizen-science, and collaborative research. Meðal annars var rætt um það hvernig megi sjá til þess að eldri gögn Veðurstofunnar komi að sem mestu gagni á alþjóðlegum vettvangi.

Lesa meira

Alþjóðleg ráðstefna 2014 um aðlögun að breytingum á veðurfari - 5.11.2013

Veðurstofan vekur athygli á þriðju norrænu alþjóðlegu ráðstefnunni um veðurfarsbreytingar og aðlögun að þeim, sem haldin verður í Kaupmannahöfn næsta sumar. Tímabært er að skilgreina og innleiða ferli sem miða að því að hámarka aðlögun að breytilegu veðurfari á sveigjanlegan og sjálfbæran hátt.

Lesa meira

Tíðarfar í október 2013 - 1.11.2013

Hiti var í meðallagi áranna 1961 til 1990 á landinu í október, eða rétt undir því. Lítillega kaldara var á landinu í október í fyrra. Mánuðurinn var mjög þurr um landið suðvestanvert og er ekki vitað um jafnþurran eða þurrari október á þeim slóðum. Aftur á móti var úrkoma með meira móti um landið norðaustanvert. Vindar voru hægir og mánuðurinn var lengst af snjóléttur í byggð. Þó snjóaði nokkuð á fáeinum stöðum undir lok mánaðarins.

Lesa meira
göngumenn í snævi

Skafsnjór og slæm veðurspá - 31.10.2013

Þar sem næsta helgi er rjúpnaveiðihelgi telur Veðurstofan rétt að vara veiðimenn og aðra ferðamenn við snjóflóðahættu til fjalla. Snjór hefur safnast í gil undan NA-áttinni og snjóflóð gætu farið af stað. Veðurspá fyrir laugardag er ekki hagstæð fyrir ferðafólk, einkum á norðan- og austanverðu landinu, en þá mun bæta enn í snjóinn. Veðurstofan hvetur alla sem eru á ferð utan alfaraleiða að huga vel að veðurspám.

Lesa meira

Jarðskjálftar í september 2013 - 22.10.2013

Hátt í 1700 jarðskjálftar mældust í september. Mesta virknin var í Tjörnesbrotabeltinu eins og undanfarna mánuði. Skjálftahrina hófst úti fyrir mynni Eyjafjarðar, á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, síðustu viku mánaðarins og hélt áfram fyrstu viku október. Stærstu skjálftar mánaðarins voru tæplega þrír að stærð.

Lesa meira

Fjölmenn ráðstefna fagaðila um snjóflóðamál - 17.10.2013

Í tengslum við árlegan samráðsfund snjóflóðavaktar og snjóathugunarmanna hélt Veðurstofan ráðstefnu og samráðsfund þar sem öðrum fagaðilum var boðið að vera með. Er það í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin hér á landi. Góð þátttaka var á ráðstefnunni en þar voru á milli 80 og 90 manns sem auk Veðurstofu komu frá Almannavörnum, Landsbjörgu, skíðasvæðum landsins, orku­fyrirtækjum, Vegagerðinni, ýmsum hagsmunasamtökum og  fjölmörgum ferða- og fjallaleið­sögumanna fyrirtækjum.

Lesa meira

Hlaup úr Hofsjökli í ágúst 2013 - 11.10.2013

Haustmælingaferð Veðurstofunnar 2013 staðfesti sigketil í Hofsjökli en vísbendingar á gervihnattamynd í september ásamt óvenjulegum brennisteinsþef úr Vestari-Jökulsá í ágúst renndu stoðum undir þennan grun. Rétt er fyrir alla ferðamenn á Hofsjökli að hafa varann á ef farið er um þessar slóðir enda eru miklar sprungur umhverfis sigketilinn.

Lesa meira

Ráðstefna í Portúgal um loftslagsbreytingar, vatn og viðbrögð - 7.10.2013

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, er nú staddur í Lissabon á ráðstefnu um loftslagsbreytingar, vatn og viðbrögð, sem er haldin í samvinnu Íslands, Lichtenstein, Noregs og Portúgal á vegum EEA. Hann verður með yfirlitserindi um áhrif loftlags á hringrás vatns. Hjá portúgölsku veðurstofunni er mikill áhugi á samstarfi við Veðurstofu Íslands en sú portúgalska er ábyrg fyrir jarðvárvöktun eins og sú íslenska og auk þess hafrannsóknum. Vefstreymi er í boði beint frá ráðstefnunni.

Lesa meira

Loftslagsvísindin og loftslagsumræðan - 4.10.2013

Opið málþing HÍ með nokkrum þekktustu sérfræðingum samtímans á sviði loftslagsrannsókna verður haldið laugardaginn 5. október kl. 13:00 á Háskólatorgi, stofu 105. Ræðumenn eru með þekktustu sérfræðingum á þessu sviði. Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, stýrir umræðum. Málþingið er meðal annars haldið í tengslum við námskeiðið Loftslagsbreytingar – orðræða og aðgerðastefna hjá Háskóla Íslands.

Lesa meira

Jarðskjálftahrina úti fyrir mynni Eyjafjarðar - 3.10.2013

Jarðskjálftahrina hófst úti fyrir mynni Eyjafjarðar að kvöldi 24. september og stendur hún enn. Um 1000 skjálftar höfðu mælst á hádegi 3. október. Flestir hafa verið innan við þrjú stig en nokkrir stærri sem hafa fundist á Siglufirði og Ólafsfirði.

Lesa meira

Tíðarfar í september 2013 - 1.10.2013

Hiti í september var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990, en víðast hvar rúmlega 1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Úrkomusamt var á landinu og þurrkar víða daufir. Mikið norðanillviðri með nokkrum sköðum gerði um miðjan mánuðinn og setti niður talsverðan snjó á heiðar og í fjöll.

Lesa meira

Úttektarskýrsla IPCC: Áhrif mannkyns á loftslag eru skýr - 27.9.2013

Á fundi í Stokkhólmi 23. - 26. sept. 2013 samþykktu aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna samantekt nýjustu skýrslu milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC). Vinnuhópur-I hefur lagt mat á tiltæk gögn auk útreikninga á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar. Niðurstöður þessarar ítarlegu könnunar gefa hugmynd um hvernig loftslag á jörðinni kann að breytast á næstu áratugum.

Lesa meira

Veðurstofan á Vísindavöku - 27.9.2013

Á Vísindavöku Rannís, sem haldin er í Háskólabíói í kvöld kl. 17-22, verður Veðurstofan með kynningu á viðfangsefninu snjór í víðu samhengi. Gestir fá að handleika tæki sem fáir hafa séð og vandað myndskeið sýnir jöklakortlagningu, eftirlit með snjóþekju, snjóspár, snjóflóðasprengingar til rannsókna, mat á snjóflóðahættu og samantekt um snjóflóð.

Lesa meira
tveir stórir gufubólstrar

Ársfundur Future Volc - 23.9.2013

Dagana 23.-27. september stendur yfir fyrsti ársfundur FutureVolc. Jarðvísinda-stofnun Háskóla Íslands og Veðurstofan leiða þetta samevrópska verkefni. Meginmarkmið þess eru að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, að þróa nýjar aðferðir til að meta hættuna af einstökum viðburðum, að efla skilning vísindamanna á kvikuferlum í jarðskorpunni og að bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda.

Lesa meira

Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2013 - 20.9.2013

Tæplega 1250 jarðskjálftar mældust í mánuðinum. Mesta virknin var í Tjörnesbrotabeltinu, um 500 skjálftar. Skjálftahrinur voru á Reykjaneshrygg og í Öxarfirði þar sem stærsti skjálfti vikunnar varð 1. ágúst, 3,8 að stærð. Lítið jökulhlaup varð í Vestari Jökulsá í Skagafirði.

Lesa meira

Framhaldsskólar heimsóttir - 18.9.2013

Sérfræðingar Veðurstofunnar heimsækja nú hátt á annan tug framhaldsskóla víða um land í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, þeir segja frá starfi sínu og svara spurningum nemenda. Veðurstofan hefur verið kynnt með glærum og stuttu erindi og í sumum tilvikum hafa tæki hafa verið sýnd á staðnum.

Lesa meira

Jarðvegsfok af Suðurlandi - 17.9.2013

Jarðvegsfok er mjög algengt á jökulsöndum og við suðurströnd landsins. Stíf norðanátt leiðir oft á tíðum til áhugaverðra gervitunglamynda en svifagnirnar geta hæglega borist mörg hundruð kílómetra suður af landinu.

Lesa meira
skúraflókar speglast í haffletinum

Veðurstofan og Dagur íslenskrar náttúru - 13.9.2013

Veðurstofan hefur boðið framhalds-skólum um land allt að fá sérfræðing í heimsókn á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2013. Viðbrögð skólanna við þessu boði voru mjög góð og í vikunni 16.-20. september verða átján skólar heimsóttir, allt frá Laugarvatni til Húsavíkur. Ýmist verður Veðurstofan kynnt með glærum og stuttu erindi eða tæki sýnd á staðnum.

Lesa meira

Veðurappið - 10.9.2013

Veðurstofan hefur nú fyrir nokkru sent frá sér snjallsímaforrit, svokallað app, sem gerir notendum kleift að skoða veðurspár í snjallsíma á auðveldan hátt. Ýmis virkni er í boði, meðal annars kortaspá sem birtir staðaspár allra stöðva á einu gagnvirku korti en auðvelt er að draga kortið til og þysja inn og út. Hægt er að biðja um tilkynningu í símann ef veðurspáin uppfyllir skilyrði sem notandinn stillir sjálfur varðandi hitastig, vind og/eða úrkomu.

Lesa meira

Fundur norrænna veðurstofustjóra - 5.9.2013

Veðurstofustjórar frá öllum Norðurlöndunum héldu fund á Ísafirði dagana 26. - 28. ágúst 2013. Um var að ræða árlegan samráðsfund sem að þessu sinni er haldinn á Íslandi. Forstjóri Veðurstofu Íslands, Árni Snorrason, ákvað að fundurinn skyldi haldinn á Ísafirði og undirbjuggu starfsmenn Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar dagskrána.

Lesa meira

Tíðarfar í ágúst 2013 - 2.9.2013

 Tíð var lengst af óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert með þrálátri úrkomu og þungbúnu veðri. Mun hagstæðara tíðarfar ríkti um landið norðan- og austanvert.

Lesa meira

Full aðild að evrópsku veðurtunglastofnuninni - 30.8.2013

Ísland fær fulla aðild að evrópsku veðurtunglastofnuninni EUMETSAT en ferlið fór í endanlegan farveg þegar Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Alain Ratier forstjóri undirrituðu aðildarsamning í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í dag. Sem aðildarríki mun Ísland hafa óheftan aðgang að gögnum sem varða fjölmarga þætti náttúrufars og taka fullan þátt í stefnumarkandi ákvörðunum stofnunarinnar.

Lesa meira

Uppfærðar fréttir af væntanlegu óveðri - 29.8.2013

Dálitlar breytingar hafa orðið. Gert er ráð fyrir að lægðin verði 8 til 12 hPa grynnri. Eins eru nýjustu spárnar 1 til 3 gráðum kaldari, en á móti verður ekki veðurhæðin eins mikil, þannig að heildaráhrifin verða svipuð með tilliti til slyddu og snjókomu til fjalla. NA-land sleppur líklega sæmilega þar sem vindátt verður úr vestri og því ekki líkur á mikilli úrkomu, nema þá tímabundið seinnipart nætur aðfaranótt laugardags. Gera má ráð fyrir að mesta úrkoman verði á Vestfjörðum á föstudagskvöld, en færist síðan yfir á Strandir og Húnavatnssýslur ásamt Skagafirði og vestanverðum Tröllaskaga.

Lesa meira

Frekari fréttir af væntanlegu illviðri - 28.8.2013

Veðurstofunni 28. ágúst 2013 kl. 11:00

Hér fyrir neðan er uppfærð spá fyrir næstu daga. Enn er vakin sérstök athygli á mjög slæmri veðurspá í lok þessarar viku.

Lesa meira

Enn útlit fyrir norðan illviðri - 27.8.2013

Enn er vakin sérstök athygli á mjög slæmri veðurspá í lok þessarar viku. Dálítilar breytingar hafa orðið á þessari spá miðað við sams konar spár gærdagsins. Helst er að það hefur hlýnað um 1-2°C og við það færist snjólínan ofar. Einnig er útlit fyrir að versta veðrið (mesta úrkoman og mesti vindurinn) færist af NA-landi yfir á NV-land.

Lesa meira

Ábending vegna væntanlegs norðan illviðris - 26.8.2013

Vakthafandi veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands vilja vekja sérstaka athygli á mjög slæmri veðurspá í lok þessarar viku. Norðan illviðri er væntanlegt föstudaginn 30. ágúst og laugardaginn 31. ágúst.

Lesa meira

Yfirvofandi Skaftárhlaup og möguleikar á hlaupi í Hverfisfljóti - 14.8.2013

Breytingar á Vatnajökli valda því að hluti hlaups undan Skaftárkötlum getur komið fram í Hverfisfljóti en brúarmannvirki í Fljótshverfi eru ekki gerð fyrir Skaftárhlaup. Ef rennsli Hverfisfljóts yrði meira en 500 m³/s yxi verulega í Öðulbrúará, Þverárvatni og Fossálum. Nú sendir vatnshæðarmælir í Hverfisfljóti aðvaranir sjálfvirkt til Veðurstofunnar.

Lesa meira

Jarðskjálftar í júlí 2013 - 9.8.2013

Júlímánuður var fremur tíðindalítill. Rúmlega 900 jarðskjálftar voru staðsettir, flestir í Tjörnesbrotabeltinu og við Mýrdalsjökul.

Lesa meira

Tíðarfar í júlí 2013 - 1.8.2013

Tíð var óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert lengi fram eftir mánuðinum, með úrkomu og sólarleysi, en batnaði þá og varð síðasti þriðjungur mánaðarins hagstæður. Um landið norðaustan- og austanvert var tíð lengst af hagstæð.

Lesa meira

Jarðskjálftar í júní 2013 - 17.7.2013

Um 1030 jarðskjálftar voru staðsettir í mánuðinum. Mesta skjálftavirknin var úti fyrir Norðurlandi og þar mældist stærsti skjálftinn í mánuðinum 2,8 að stærð með upptök um 5 kílómetra suðaustur af Flatey á Skjálfanda.

Lesa meira

Tíðarfar í júní 2013 - 1.7.2013

Hlýtt var í júní og tíðarfar telst hagstætt að því undanskildu að sólarlítið var um landið suðvestanvert og úrkoma þar yfir meðallagi. Þurrt var um landið norðan- og austanvert.

Lesa meira

Heimsókn umhverfis- og auðlindaráðherra - 1.7.2013

Nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, heimsótti Veðurstofu Íslands í morgun. Forstjóri Veðurstofunnar reifaði helstu viðfangsefni stofnunarinnar og síðan skoðaði ráðherra nokkra þætti í starfseminni.

Lesa meira

Safetravel - 15.6.2013

Vefsíðan Safetravel er rekin af Slysavarnafélaginu Landsbjörg og er hluti af stærra verkefni, sem fjöldi aðila stendur að í því augnamiði að bæta forvarnir og minnka slys í ferðamennsku og ferðaþjónustu hér á landi.

Snjallsímaforritið 112 Iceland er í boði en hefðbundin ferðaáætlun er mikilvægust.

Lesa meira

Jarðskjálftar í maí 2013 - 12.6.2013

Hátt í 1600 hundruð jarðskjálftar voru staðsettir í mánuðinum. Skjálftahrina með tæplega 800 skjálftum varð við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg fyrri hluta mánaðarins og voru stærstu skjálftarnir yfir fjórum stigum og fundust víða á suðvestan- og sunnanverðu landinu.

Lesa meira

Tíðarfar í maí 2013 - 3.6.2013

Tíðarfar í maí var nærri meðallagi á landinu að slepptum fyrstu dögunum sem voru óvenjukaldir. Snjó leysti venju fremur seint um landið norðaustanvert. Hlýjast var að tiltölu á Austfjörðum. Úrkoma var yfir meðallagi á landinu.

Lesa meira

Notendavæn virkni - 31.5.2013

Veðurstofan hvetur notendur vefsins til þess að láta aðra vita af efni sem þeim þykir áhugavert. Veðurstofan minnir einnig á RSS þjónustuna á vedur.is. Áhugasamir geta gerst áskrifendur að fróðleiksgreinum og fréttum. Hægt er að velja úr málaflokkum sem endurspegla viðfangsefni Veðurstofunnar.

Lesa meira

Maí 2013 - 31.5.2013

Tíðarfar í maí var nærri meðallagi á landinu að slepptum fyrstu dögunum sem voru óvenjukaldir. Snjó leysti venju fremur seint um landið norðaustanvert.

Lesa meira

Jöklakort af Íslandi - 28.5.2013

Fyrir ári síðan kom út Jöklakort af Íslandi þar sem settar eru saman á eitt kort útlínur allra jökla á landinu. Kortið sýnir mestu útbreiðslu jöklanna við hámark litlu ísaldar um 1890 og einnig hvernig þeir voru um aldamótin 2000. Hægt er að panta kortið beint frá Iðnú. Kortið nýtist ferðafólki jafnt og fræðimönnum og er bæði til sölu í almennum bókaverslunum og á helstu ferðamannastöðum.

Lesa meira
Jarðskjálftar í apríl 2013

Jarðskjálftar í apríl 2013 - 24.5.2013

Tæplega 2500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir. Helsti atburður mánaðarins var snörp skjálftaröð vestan við Grímsey, sem hófst með jarðskjálfta af stærð 5,5 þann 2. apríl. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi. Nokkur þúsund eftirskjálftar mældust, og er úrvinnslu ekki lokið.

Lesa meira

Tíðarfar í apríl 2013 - 30.4.2013

Aprílmánuður var kaldur á landinu. Kaldast var inn til landsins á norðaustan- og austanverðu landinu. Snjór var til ama víða norðan- og austanlands og norðantil á Vestfjörðum. Úrkoma var víðast hvar innan við meðallag. Sólskinsstundir voru óvenjumargar suðvestanlands.

Lesa meira

Meðalhiti íslenska vetrarins - 26.4.2013

Veturinn 2012 til 2013 var hlýr um landið sunnan- og vestanvert. Sérlega hlýtt var um miðbik hans, en þá náðu hlýindin um nær allt land. Kaldara var til beggja handa og um landið norðan- og austanvert. Snjór kom snemma í byggðir þar um slóðir og fer seint og telja menn tíðarfar hafa verið erfitt. Syðra var veður mjög hagstætt lengst af.

Lesa meira
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2013

Jarðskjálftar í mars 2013 - 10.4.2013

Rúmlega 1000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í mars. Stærsti skjálftinn var 3,8 stig með upptök í Eyjafjarðarál. Hann fannst á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Húsavík.

Lesa meira

Veðurstofa Íslands - rannsóknastofnunin - 5.4.2013

Opinn ársfundur Veðurstofu Íslands var haldinn að Bústaðavegi 7 hinn 4. apríl. Dagskráin hófst með ávarpi ráðherra og kynningu forstjóra. Þrjú erindi voru flutt: Um rannsóknainnviði Veðurstofunnar, um snjó og samgöngur á norðurslóðum og um rannsóknir á vindauðlindinni. Fundurinn var vel sóttur.

Lesa meira

Tíðarfar í mars 2013 - 3.4.2013

Tíðarfar telst fremur hagstætt að undanskildum nokkrum dögum snemma í mánuðinum; þá gerði talsverða frosthörku og slæm hríð gekk yfir meginhluta landsins. Síðari hluti mánaðarins var hagstæður, vindur lengst af hægur og úrkoma lítil. Loftþrýstingur var með hæsta móti í mánuðinum. Norðurljós sáust einkar vel á SV-landi um miðjan mánuðinn.

Lesa meira
Jarðskjálftahrina austan Grímseyjar

Jarðskjálftahrinan við Grímsey heldur áfram - 3.4.2013

Skjálftavirknin í Skjálfandadjúpi hefur færst bæði til norðvesturs og suðausturs af meginskjálftanum sem var af stærð 5,5 um eittleytið aðfaranótt 2. apríl. Tveir allsnarpir skjálftar fundust á Norðurlandi í gærkvöldi. Í nótt hafa margir skjálftar mælst milli 3 og 4 að stærð. Áfram má búast við skjálftum af svipaðri stærð á svæðinu.

Lesa meira

Um jarðskjálftana austur af Grímsey - 2.4.2013

Meginskjálftinn varð á norðlægu vinstrihandar sniðgengi. Það þýðir að vinstri brún misgengisins fer til suðurs en sú hægri til norðurs. Næststærsti skjálftinn, sem varð um kl. 9, er um 7,5 km norðvestan við meginskjálftann og er á siggengi, sem bendir til spennu-breytinga í nágrenni stóra skjálftans.

Lesa meira
Jarðskjálfti austur af Grímsey

Jarðskjálfti austur af Grímsey - 2.4.2013

Snarpur jarðskjálfti, af stærð 5,5, varð kl. 00:59 þann 2. apríl með upptök í Skjálfandadjúpi eða um 15 km austur af Grímsey. Upptökin eru á brotabelti sem liggur frá Öxarfirði og norður fyrir Grímsey. Skjálftahrinur eru mjög algengar á þessu svæði. Vel verður fylgst með virkninni áfram.

Lesa meira
Þyrla og skýli á tindi Heklu.

Síritandi gasmælingar á Heklu - 26.3.2013

Gasmælingastöð á tindi Heklu hefur verið endurhönnuð af tæknimönnum Veðurstofunnar og ítölsku jarðváreftirlits-stofnunarinnar INGV svo að hægt sé að mæla þar allan ársins hring. Búnaðurinn og rafgeymar eru í sérsmíðuðum kofa og sólarljós og hiti úr eldfjallinu nýtt til að halda stöðinni gangandi. Verkefnið hófst snemma árs 2012 í samstarfi Veðurstofunnar, ÍSOR og INGV.

Lesa meira

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2013 - 25.3.2013

Stofnskrá Alþjóðaveðurfræði-stofnunarinnar gekk í gildi 23. mars 1950. Er þess minnst árlega á alþjóðlega veðurdeginum, fyrst 1960. Kjörorð dagsins í ár er „Watching the weather to protect life and property“ eða Vöktum veðrið til verndar lífi og eigum.

Lesa meira

Snjóflóð úr Skollahvilft - 21.3.2013

Flóð féll úr Skollahvilft við Flateyri að morgni 20. mars skammt austan eyrarinnar, um 30-40 m breitt en fremur þunnt. Flóðið féll kl. 04:44 og annað kl. 07:20 en ummerki um það sjást ekki úr byggð. Telja má líklegt að fyrra snjóflóðið hafi fallið á varnargarðinn og runnið meðfram honum. Síðan varnargarðarnir ofan Flateyrar voru reistir 1998 hafa lent á þeim 6 snjóflóð sem garðarnir beindu frá byggðinni án þess að tjón hlytist af.

Lesa meira

Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands - 19.3.2013

Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands verður haldin í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, föstudaginn 22. mars 2013. Meðal annars verður fjallað um samfelldar GPS mælingar á Íslandi og gefið yfirlit um jarðskjálfta á Íslandi árið 2012.

Kristín S. Vogfjörð, rannsóknastjóri Veðurstofu Íslands, kynnir samevrópskt net jarðvísindalegra innviða sem nefnist EPOS, European Plate Observing System.

Lesa meira

Ofanflóðakortasjá - 13.3.2013

Veðurstofan hefur með tilstyrk Ofanflóðasjóðs þróað kortasjá með það að markmiði að auðvelda aðgengi að ofanflóðagögnum. Kortasjánni fylgja leiðbeiningar á formi notendahandbókar. Ábendingar um það hvað vantar eða hvað mætti betur fara eru vel þegnar.

Lesa meira
Jarðskjálftar í febrúar 2013

Jarðskjálftar í febrúar 2013 - 11.3.2013

Rúmlega 800 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í febrúar. Allir voru innan við þrjá að stærð.

Lesa meira

Óvenjulegt hríðarveður - 7.3.2013

7.3.2013 Óveðrið hinn 6. mars var óvenjulegt fyrir þær sakir að snjókoma og hvasst var í öllum landshlutum á sama tíma. Samgöngur röskuðust mjög, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Daginn eftir var veður rysjótt víðast hvar. Áfram var búist við slæmu ferðaveðri vegna slyddu, snjókomu og skafrennings og fólk hvatt til að fylgjast vel með veðurspá.

Lesa meira

Snjóbylur - 6.3.2013

6.3.2013 Eins og landsmenn vita, þá er  austanvonskuveður á öllu landinu, stormur og blindbylur, jafnvel rok allra syðst. Búist við að veður fari smám saman að ganga niður síðdegis og dragi þá jafnframt úr ofankomu og skafrenningi. Ekki dregur úr veðurhæð syðst á landinu fyrr en í nótt. Á höfuðborgarsvæðinu dregur fljótlega úr ofankomu en áfram verður hvasst og skafrenningur til fyrramáls.

Lesa meira
Ölfusá og Ingólfsfjall

Tíðarfar í febrúar 2013 - 1.3.2013

Mánuðurinn var sérlega hlýr, annar til fjórði hlýjasti febrúar frá upphafi mælinga á 19. öld. Úrkomusamt var um landið sunnanvert og var mánuðurinn sums staðar sá úrkomusamasti frá upphafi mælinga. Samgöngur voru lengst af greiðar en vegir spilltust af þíðu. Talsverð flóð gerði í ám sunnanlands undir lok mánaðarins.

Lesa meira

Flóð í rénun - 27.2.2013

Rennsli á efra vatnasviði Hvítár (við Fremstaver) lækkar hratt. Klukkan tvö, miðvikudaginn 27. febrúar, var rennsli við Fremstaver um 264 rúmmetrar á sekúndu, um 50 prósent minna en daginn áður. Aðrir mælar á vatnasviði Hvítár og Ölfusár sýna að vatnshæð fer ört lækkandi. Þrátt fyrir að ekki sé spáð mikilli úrkomu á svæðinu næstu daga mun það taka flóðið einn til tvo daga að sjatna.

Lesa meira

Flóðaviðvörun fyrir Hvítá og Ölfusá - 26.2.2013

Klukkan eitt, þriðjudaginn 26. febrúar, var rennsli Hvítár við Fremstaver yfir 520 rúmmetrar á sekúndu en það fór hæst í rúmlega 600 rúmmetra á sekúndu daginn áður. Það tekur vatnið um sólarhring að renna frá Fremstaveri niður í Ölfusá við Selfoss. Því var gert ráð fyrir að hámarksrennsli í Ölfusá yrði náð seinna sama dag eða um kvöldið og þá viðbúið að það héldist hátt vel fram á miðvikudaginn. Spáð var rigningu fram á þriðjudagskvöld en kaldara og þurrara veðri er liði á vikuna þannig að búast má við að vatnavextir minnki á næstu dögum.

Lesa meira

Flóðaviðvörun fyrir Hvítá og Ölfusá - 25.2.2013

Vatnavextir eru á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðausturlandi vegna mikilla rigninga og hlýinda undanfarna daga. Flóð mun koma fram í Auðholtshverfi, vestan við Flúðir, síðan á Skeiðum og svo á Dagmálahólma, norðan Selfoss. Einnig má búast við flóði við Kaldaðarnes, sunnan Selfoss. Bændum er ráðlagt að koma búfénaði úr hættu. Jafnframt er flóðahætta á Suðurlandi og Suðausturlandi í Hverfisfljóti og Djúpá. Ferðafólki og öðrum er ráðlagt að halda sig fjarri ánum. Frekari upplýsingar munu berast ef aðstæður breytast.

Lesa meira

Vindmyllur gangsettar við Búrfell - 14.2.2013

Landsvirkjun hefur gangsett tvær vindmyllur norðan við Búrfell, á hraunsléttu sem kölluð er Hafið. Þrátt fyrir nafnið, er Hafið sjötíu kílómetra frá sjó en þar hafa verið reistar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Þetta eru langstærstu vindmyllur sem reistar hafa verið á Íslandi. Í fyrsta sinn verður hagkvæmni raforkuframleiðslu með vindorku könnuð á Íslandi.

Lesa meira
Jarðskjálftar í janúar 2013

Jarðskjálftar í janúar 2013 - 12.2.2013

Rúmlega 700 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í  mánuðinum. Það er nokkuð minni virkni en undanfarna mánuði og þarf að fara aftur til mars 2012 til að finna svipaðan fjölda skjálfta. Mesta virknin var úti fyrir Norðurlandi og nokkrar smáhrinur mældust bæði norðanlands og sunnan. Stærsti skjálftinn var 3,2 og varð hann 29. janúar um sjö kílómetrum vestan Flateyjar á Skjálfanda.

Lesa meira
Lagnaðarís rekur upp að strönd

Þorraþing Veðurfræðifélagsins 2013 - 11.2.2013

Þorraþing Veðurfræðifélagsins verður haldið 12. febrúar 2013 í húsnæði Veðurstofunnar að Bústaðavegi 7. Þingið hefst kl. 13:30. Erindin eru fimm að þessu sinni og í framhaldi af þinginu heldur félagið aðalfund sinn. Veðurfræðifélagið og þing þess eru opin öllum sem hafa áhuga á veðri og veðurfari.

Lesa meira

Tíðarfar í janúar 2013 - 1.2.2013

Mjög hlýtt var í janúar og var hann í hópi þeirra tíu hlýjustu sem mælst hafa á flestum veðurstöðvum landsins. Úrkomusamt var um meginhluta landsins nema á sumum stöðvum norðvestan- og norðanlands. Tíð var lengst af hagstæð en nokkurra daga hríðar- og krapaveður gekk yfir hluta Vestfjarða, Norður- og Austurlands seint í mánuðinum. Fokskaðar urðu þá á stöku stað.

Lesa meira

Um óvissustig og hættustig - 30.1.2013

Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggð en óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði. Árétta þarf, að umtalsverð snjóflóðahætta samkvæmt svæðisspá fyrir stóran landshluta þarf ekki að fela í sér hættu á snjóflóðum í byggð á viðkomandi svæði.

Lesa meira
hús og gangstétt

Breytingar á vef - 22.1.2013

22.1.2013 Breytingar verða gerðar á vef Veðurstofu Íslands í dag. Breytingarnar ná til veðurþátta- og staðaspáa, auk þess sem snjóflóðaspár verða birtar fyrir valin svæði. Búast má við tímabundnum hnökrum á meðan uppfærslan stendur yfir. Beðist er velvirðingar á þessu.

Lesa meira
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2012

Jarðskjálftar í desember 2012 - 11.1.2013

Rúmlega 1000 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í desember, nokkru minni virkni en næstu þrjá mánuði á undan en svipuð og í ágúst. Dregið hefur úr skjálftahrinunni í Eyjafjarðarál sem hefur verið viðvarandi frá 21. október. Tveir skjálftar náðu stærðinni 3,3, annar við Kistufell í Vatnajökli og hinn á Reykjaneshrygg.

Lesa meira

Versta snjóflóðahrina á Vestfjörðum síðan 2005 - 3.1.2013

Snjóflóðahrinan sem valdið hefur vandræðum á Vestfjörðum og Norðurlandi undanfarna daga er líklega versta hrina sem orðið hefur á Vestfjörðum síðan 2005. Mörg snjóflóð féllu yfir vegi og nokkur nærri byggð á norðanverðum Vestfjörðum. Snjóflóðahrinan olli einnig miklum truflunum á samgöngum á Norðurlandi þó ekki kæmi þar til rýmingar á húsum. Hlýnandi veður í lok hrinunnar olli svo hættu á snjóflóðum í meira en sólarhring eftir að veðrið gekk niður.

Lesa meira

Tíðarfar í desember 2012 - 2.1.2013

Veður í desember var fremur hagstætt framan af en óhagstætt undir lokin. Síðustu dagar ársins voru snjóa- og illviðrasamir, einkum um norðan- og norðvestanvert landið. Hiti var vel ofan meðallags í flestum landshlutum, en þó aðeins í rétt rúmu meðallagi inn til landsins á Austurlandi.

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica