Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2013

Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2013

20.9.2013

Tæplega 1250 jarðskjálftar mældust í mánuðinum. Mesta virknin var í Tjörnesbrotabeltinu, um 500 skjálftar. Skjálftahrinur voru á Reykjaneshrygg og í Öxarfirði þar sem stærsti skjálfti vikunnar varð 1. ágúst, 3,8 að stærð. Lítið jökulhlaup varð í Vestari Jökulsá í Skagafirði.

Suðurland  

Á Hengilssvæðinu mældust rúmlega 50 jarðskjálftar, allir innan við 1,5 að stærð. Smáhrina var norður af Húsmúla aðfaranótt 12. ágúst. Um 30 smáskjálftar voru staðsettir þar. Í kringum Ölkelduháls áttu um 20 skjálftar upptök. Talsverð virkni var í Ölfusi, tæplega 60 skjálftar voru staðsettir á jarðskjálftasprungum milli Þrengsla og Ingólfsfjalls. Stærsti skjálftinn mældist sunnan Hveragerðis þann 9. ágúst kl. 20:11 og var hann 2,6 að stærð.

Á Suðurlandsundirlendinu mældust rúmlega 80 jarðskjálftar á þekktum sprungum milli Ölfuss og Selsunds. Flestir voru staðsettir á Hestfjallssprungu og á Minnivallasprungu, sá stærsti var 2,2 að stærð þann 5. ágúst kl. 12:02.

Reykjanes

Um 150 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesi, þar af flestir eða um 70% á Reykjaneshrygg. Skjálftahrina var suðvestur af Geirfugladrangi þann 13. ágúst, stærsti skjálftinn varð kl. 07:05, 3,0 að stærð. Á Reykjanesskaga urðu tæplega 50 smáskjálftar með upptök á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum milli Svartsengis og Bláfjalla, um helmingur við Kleifarvatn og Brennisteinsfjöll. Stærstu skjálftarnir á Reykjanesskaga voru um tvö stig.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust um 470 jarðskjálftar. Tæplega 70 prósent þeirra áttu upptök í Öxarfirði. Um 200 jarðskjálftar mældust í skjálftahrinu þar fyrstu fjóra daga mánaðarins. Mesta virknin var 1. ágúst og þá mældust tveir jarðskjálftar yfir 3 að stærð. Sá fyrri var 3,8 að stærð kl. 07:09 og sá seinni 3,1 kl. 07:28. Um 60 jarðskjálftar voru í Skjálfandadjúpi og voru stærstu skjálftarnir þar um 2 að stærð. Um 40 jarðskjálftar áttu upptök í Skjálfanda og voru flestir þeirra í námunda við Flatey; sá stærsti um 2 að stærð. Úti fyrir mynni Eyjafjarðar og í Eyjafjarðarál mældust einnig um 40 skjálftar og voru þeir allir undir 1,7 að stærð. Fáeinir skjálftar áttu upptök á Tröllaskaga, sá stærsti 1,7 að stærð. Við Þeistareyki voru 10 smáskjálftar og við Kröflu um 15 og voru þeir allir minni en 0,5 að stærð.

Hálendið

Tæplega 60 skjálftar mældust undir Vatnajökli, heldur fleiri en mánuðinn á undan. Um 20 skjálftar mældust við Kistufell, flestir dagana 6. - 8. ágúst, allir undir tveimur að stærð. Um miðjan mánuð mældust nokkrir skjálftar við Kverkfjöll, hugsanlega í tengslum við lítið hlaup úr Gengissigi sem hófst að kvöldi 15. ágúst. Stærsti skjálftinn þar var um 2,5 og var það jafnframt stærsti skjálftinn í jöklinum í ágúst. Rúmlega 10 skjálftar mældust við Hamarinn og vestari Skaftárketil. Nokkrir skjálftar áttu upptök í norðanverðri Bárðarbungu, við Grímsvötn og í Öræfajökli. Svipuð virkni var á svæðinu norðan Vatnajökuls og í síðasta mánuði, um 100 skjálftar. Flestir áttu upptök á svæðinu við Herðubreið og Herðubreiðartögl, tæplega 60 að tölu, og um 30 við austurbarm Öskju.

Vestara gosbeltið

Í vestara gosbeltinu bar það helst til tíðinda að Veðurstofunni barst tilkynning 21. ágúst um óvenjulegan grágruggugan lit á Vestari Jökulsá í Skagafirði (sem á upptök í norðvestanverðum Hofsjökli) og að væg brennisteinslykt væri af ánni. Rennslismælir Veðurstofunnar við Goðdalabrú staðfesti aukið rennsli í ánni, þó það væri ekki mikið. Við nánari skoðun vatnamælingamanna kom í ljós að leiðni vatnsins við upptök árinnar við Sátujökul var yfir eðlilegum mörkum. Sterk brennisteinslykt var á svæðinu. Bentu athuganir til þess að jarðhitavatn hafi blandast jökulvatni og að um lítið jökulhlaup væri að ræða.

Lítil jökulhlaup á þessum slóðum eru þekkt. Upptök jarðhitavatnsins voru í Hofsjökli. Engir skjálftar mældust samfara þessum atburðum. Smáhrina varð í mánaðarlok undir Geitlandsjökli, syðst í Langjökli og nokkrir austar í jöklinum. Þrír skjálftar, um 1,5 að stærð, voru staðsettir milli Langjökuls og Húnafjarðar.

Mýrdalsjökull

Í Mýrdalsjökli mældust um 250 skjálftar, heldur fleiri en í júlí. Álíka mikil virkni var við Goðabungu í vestanverðum jöklinum og við Hafursárjökul sem er skriðjökull í sunnanverðum Mýrdalsjökli, rúmlega 80 á hvoru svæði. Um 50 skjálftar mældust innan Kötluöskjunnar, flestir í sunnan- og austanverðri öskjunni. Stærsti skjálftinn við Goðabungu var 2,7 en 2,3 innan Kötluöskjunnar. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir í Eyjafjallajökli. Í mánaðarlok varð smáhrina við Hrafntinnuhraun á Torfajökulssvæðinu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica