Heimskautaröst norðurhvels og tengsl hennar við veðurfarsbreytingar á norðurslóðum
Fjölþjóðlegur fundur á Veðurstofu Íslands
Dagana 13.-15. nóvember er haldinn fjölþjóðlegur fundur á Veðurstofu Íslands. Málefnin eru athyglisverð í meira lagi og fágætt að fá hingað til lands jafnmarga vísindamenn í fremstu röð á sviði aflveðurfarsfræði (dynamic climatology).
Á fundinum verður lagt mat á stöðu þekkingar á norrænu háloftaröstinni og breytingum á henni með aðaláherslu á tengsl við veðuröfgar í tempraða beltinu. Heiti fundarins er Northern Hemisphere Polar Jet Stream and Links with Arctic Climate Change.
Óvenjulegir atburðir síðustu ára í tempraða beltinu tengjast e.t.v. þeim breytingum sem hlýnandi Norðuríshaf hefur á vindafar á vetrarköldum meginlöndunum með því að bæta í lengdarbundið flæði, draga úr afli rastarinnar og ýta undir tilhneigingu til neikvæðrar AO [norðurslóða-] hringrásar.
Fjallað verður um áhrif aukins varmaflæðis í norðurhöfum á bylgju- og þykktarmynstur norðurhvels vegna rýrari íss og minni snjóhulu á meginlöndunum að vori og snemmsumars.
Fundurinn er kostaður af IASC, CliC, IMO og NOAA.
Dagskrá fundarins (pdf 340 kb) er í stöku skjali.
Glærur með erindum fundarins má nálgast á vef verkefnisins.