Fréttir
Vindhana ber í vindskafin ský í ágúst 2013.

Tíðarfar ársins 2013

Bráðabirgðayfirlit 30. desember

30.12.2013

Sumarið var talið óhagstætt um landið sunnan- og vestanvert. Óvenjuleg hlýindi voru fyrstu tvo mánuði ársins en í öðrum mánuðum var hiti nærri meðallaginu 1961 til 1990, einna kaldast að tiltölu í apríl en þá var mikill og þrálátur snjór til ama víða um landið norðanvert. Óvenjusnarpt kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí og þá mældist meira frost en áður hefur mælst hér á landi í maímánuði.

Júnímánuður var mjög hlýr um landið norðaustanvert en syðra var dauf tíð og úrkomusöm. Síðasti þriðjungur júlímánaðar var mjög hlýr og hagstæður og þá mældist mesti hiti sem vitað er um á hálendi landsins. Að öðru leyti var tíð óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert. Þungbúið veður og þrálát úrkoma hélt áfram syðra í ágúst en hagstæðari tíð var á landinu norðaustanverðu. Kalt var í september og tíð óhagstæð. Um miðjan mánuð gerði mikið norðanveður með snjóum nyrðra og nokkrum sköðum.

Október var óvenjuþurr um landið vestanvert, vindar voru lengst af hægir og snjólétt var á landinu meginhluta mánaðarins. Nóvember var umhleypingasamur með meira móti. Kalt var framan af en hlýtt síðustu dagana. Desember var óvenjuúrkomusamur um landið austanvert.

Hiti

Árið var hlýtt, hiti var á bilinu 0,4 til 1,0 stigum yfir meðallaginu 1961 til 1990. Hlýjast að tiltölu var austanlands en kaldast suðvestanlands. Þótt hlýtt hafi verið var árið í flokki þeirra kaldari á nýrri öld. Suðvestanlands það kaldasta frá árinu 2000 en í öðrum landshlutum var lítillega kaldara eða mjög svipaður hiti á árunum 2005 og 2011. Vik má sjá í töflu.

Í Reykjavík var árið það 18. í óslitinni röð ára þar sem árshitinn er yfir meðallagi og það 15. á Akureyri.

Tafla: Meðalhiti ársins 2013 og vik frá meðaltalinu 1961 til 1990. Athugið að árinu er ekki alveg lokið þegar þetta er skrifað og endanlegar tölur verða ekki endilega nákvæmlega eins.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 4,9 0,6 37 til 38 143
Stykkishólmur 4,4 0,9 26 168
Bolungarvík 3,7 0,8 30 116
Akureyri 4,1 0,8 35 132
Egilsstaðir 3,8 0,9 19 59
Dalatangi 4,5 1,0 18 75
Teigarhorn 4,6 0,9 25 141
Höfn í Hornafirði 5,1 0,6
Stórhöfði 5,2 0,4 44 til 45 136
Hveravellir  -0,1 1,0 17 48
Árnes 4,2 0,6 34 134

Rauðasandur
Melanesrif á Rauðasandi 12. júlí 2013. Skúraský, líklega skallaklakkur (cumulonimbus calvus), myndast yfir fjöllunum og speglast í blautum sandinum. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík var í rétt rúmu meðallagi. Úrkoma var langt yfir meðallagi í janúar og febrúar og í öllum mánuðunum frá júní til og með september. Úrkoma var langt undir meðallagi í mars og nóvember. Á Akureyri var úrkoman um 20% umfram meðallag og er þetta 12. árið í röð á Akureyri með úrkomu yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Sérlega úrkomusamt var á Akureyri í maí, október og desember.

Sólskin

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 82 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en 32 færri á Akureyri. Sólskinsstundafjöldinn í Reykjavík hefur nú verið yfir meðallaginu 1961 til 1990 í 14 ár í röð.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var um 1,0 hPa undir meðallagi í Reykjavík.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica