Snjóflóð úr Skollahvilft
Að morgni 20. mars barst tilkynning frá Vegagerðinni um að snjóflóð hefði fallið úr Skollahvilft við Flateyri yfir veginn skammt austan eyrarinnar. Starfsmaður Vegagerðarinnar var á ferðinni klukkan 4:55 og sá þá flóð á veginum sem hann taldi að væri mjög nýlegt. Flóðið var um 30-40 m breitt en fremur þunnt og var hægt að keyra í gegnum það.
Þegar gögn úr Doppler radar Veðurstofunnar voru könnuð kom í ljós að flóð hafði mælst kl. 04:44 um morguninn (sjá stækkað línurit). Radarinn mældi annað flóð kl. 07:20 en það náði ekki niður á veg og ummerki um það sjást ekki frá byggðinni.
Radarinn sýnir fyrst kóf sem ferðast á allt að 50-60 m hraða á sekúndu (um 200 km/klst) niður hlíðina. Á eftir því kemur snjóflóðið sjálft á 15-20 m hraða á sekúndu (um 60 km/klst). Það er fremur lítill hraði af snjóflóði að vera. Kófhlaupið stóð aðeins í nokkrar sekúndur við radarinn en snjóflóðið mældist í tæpa mínútu.
Telja má líklegt að snjóflóðið hafi fallið á varnargarðinn og runnið meðfram honum. Síðan varnargarðarnir ofan Flateyrar voru reistir 1998 hafa lent á þeim 6 snjóflóð og beindu garðarnir þeim öllum frá byggðinni án þess að tjón hlytist af. Ekkert þessara flóða var eins stórt og hamfaraflóðið sem féll í október 1995 og kostaði 20 mannslíf.