Jarðskjálftar í september 2013
Hátt í 1700 jarðskjálftar mældust í september. Mesta virknin var í Tjörnesbrotabeltinu eins og undanfarna mánuði.
Skjálftahrina hófst úti fyrir mynni Eyjafjarðar, á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, síðustu viku mánaðarins og hélt áfram fyrstu viku október. Stærstu skjálftar mánaðarins voru tæplega þrír að stærð.
Suðurland
Rúmlega 70 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, þar af helmingurinn á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar við Húsmúla. Nánast öll sú virkni var síðari hluta mánaðarins og mest í síðustu vikunni. Allir voru skjálftarnir um og innan við einn að stærð.
Smáhrina varð snemma morguns þann 19. september vestan Hengilsins með um tug skjálfta og var sá stærsti rúm tvö stig. Í fyrstu viku mánaðarins urðu nokkrir skjálftar suðvestur af Ölkelduhálsi í Hengli og var sá stærsti 2,4 að stærð. Tæplega 20 skjálftar mældust á Kross-sprungunni og nokkrir í Þrengslum og Hjallahverfi. Um 40 skjálftar mældust á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi, allir um og innan við einn að stærð. Einn lítill og grunnur skjálfti varð undir Heklu og tveir skjálftar í Vatnafjöllum, um átta kílómetrum sunnan Heklu, og var sá stærri tvö stig.
Reykjanes
Um 20 skjálftar, allir litlir, mældust við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, flestir í smáhrinu þann 8. september. Nokkrir skjálftar urðu vestar á Reykjanesskaganum en rólegt á Reykjaneshrygg. Tæplega 30 skjálftar voru staðsettir við Kleifarvatn, stærstu rúmt stig. Nokkrir skjálftar mældust í Brennisteinsfjöllum sunnan Helgafells, stærsti 2,8, auk þess mældust nokkrir litlir skammt sunnan við skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Norðurland
Yfir helmingur skjálfta mánaðarins átti upptök í Tjörnesbrotabeltinu norður af landinu. Skjálftarnir voru þó allir innan við þrjú stig að stærð. Mesta virknin var úti fyrir mynni Eyjafjarðar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Dagana 21. - 22. mældust þar nokkrir tugir skjálfta en aðalvirknin hófst 25. september. Yfir 700 skjálftar urðu í september en hrinan hélt áfram af meira krafti fyrstu viku októbermánaðar. Í september var stærsti skjálftinn 2,9 en nokkrir skjálftar stærri en þrjú stig mældust fyrstu daga október. Sá stærsti varð 2. október, 3,8 að stærð. Þessi virkni er austsuðaustan við aðalskjálftavirknina fyrir ári.
Á annað hundrað skjálftar mældust í Öxarfirði og um 60 á Grímseyjarbeltinu. Nokkrir smáskjálftar mældust við Flatey á Skjálfanda. Smáskjálftar mældust af og til á Þeistareykja- og Kröflusvæðum.
Hálendi
Innan við hundrað skjálftar áttu upptök undir Vatnajökli. Lítil jarðskjálftahrina varð undir Lokahrygg, í nágrenni Skaftárkatla, dagana 6. og 7. september. Rúmlega 20 skjálftar voru staðsettir, sá stærsti 2,1. Hátt í 20 skjálftar, stærsti 1,8, mældust undir Öræfajökli fyrstu vikur september. Dreifðir skjálftar mældust við Bárðarbungu, Kistufell, Kverkfjöll, Grímsvötn, Þórðarhyrnu og Skeiðarárjökul. Nokkrir ísskjálftar mældust í Breiðamerkurjökli. Flestir urðu 4. september, en mikil kelfing íss í Jökulsárlón fylgdi í kjölfarið. Einn skjálfti átti upptök undir Tungnafellsjökli, norðvestan Vatnajökuls, 1,5 að stærð.
Á Dyngjufjallasvæðinu mældust rúmlega 80 skjálftar, stærsti 2,0. Flestir áttu upptök við Herðubreiðartögl.
Vestara gosbeltið
Engir skjálftar mældust í Langjökli eða nærliggjandi jöklum þennan mánuðinn. Hins vegar urðu nokkrir við Hagafell, sem er í kverkinni milli Vestri- og Eystri Hagafellsjökla í sunnanverðum Langjökli. Dagana 23. og 24. varð smáhrina við Tindaskaga, milli Hrafnabjarga og Skjaldbreiðar. Þar mældust 11 jarðskjálftar, allir undir einum að stærð. Engir skjálftar mældust undir Hofsjökli.
Mýrdalsjökull
Tæplega 200 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, heldur færri en mánuðinn á undan. Mesta virknin var, eins og oft áður, í vestanverðum jöklinum í nágrenni Goðabungu, tæplega 80. Allir skjálftarnir voru undir tveimur stigum. Á fimmta tug skjálfta mældist innan Kötluöskjunnar, flestir undir henni austanverðri. Stærsti skjálftinn, 2,4, varð undir lok mánaðar í norðaustanverðri öskjunni og var það jafnframt stærsti skjálftinn í jöklinum í september. Rúmlega 50 smáskjálftar voru staðsettir við Hafursárjökul, skriðjökli í sunnanverðum Mýrdalsjökli, og fáeinir í Eyjafjallajökli. Um 40 skjálftar, stærsti um tvö stig, mældust á Torfajökulssvæðinu, flestir í hrinu í fyrstu viku mánaðarins.