Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2012
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2012

Jarðskjálftar í desember 2012

11.1.2013

Rúmlega 1000 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í desember, nokkru minni virkni en næstu þrjá mánuði á undan en svipuð og í ágúst. Dregið hefur úr skjálftahrinunni í Eyjafjarðaráli sem hefur verið viðvarandi frá 21. október. Tveir skjálftar náðu stærðinni 3,3, annar við Kistufell í Vatnajökli og hinn á Reykjaneshrygg.

Á Suðurlandsundirlendinu mældust 114 jarðskjálftar og var það um tíundi hluti allrar virkni á landinu. Stærð skjálftanna var á bilinu -0,4 til 2,5. Sá stærsti varð kl. 07:58 þann 8. desember með upptök um 3,7 km SV af Hrómundartindi og fannst hann í Hveragerði. Flestir mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar, við Húsmúla á Hellisheiði, á um fimm
kílómetra dýpi og allir innan við 2,2 að stærð. Einn skjálfti af stærð Ml 0,7 varð í vesturhlíð Heklu kl. 04:00:21 þann 26. desember.

Um 26 jarðskjálftar mældust nyrst á Reykjaneshrygg á stærðarbilinu Ml 1,3 til 2,5. Sá stærsti varð á ríflega 8,6 km dýpi með upptök 10,3 km NV af Geirfugladrangi. Einn skjálfti 3,3 að stærð varð við 60°N. Á Reykjanesskaga var fremur lítil skjálftavirkni í desember. Við Reykjanestána mældust einungis tveir jarðskjálftar. Nokkrir urðu við sunnanvert Kleifarvatn, við Fagradalsfjall og Bláfjöll. Þeir voru allir undir 1,4 að stærð.

Í Mýrdalsjökli mældust rúmlega 100 skjálftar, þar af á sjötta tug innan Kötluöskjunnar. Mesta virknin, innan öskjunnar, var í austurhluta hennar nærri Austmannsbungu þar sem varð smáhrina föstudagskvöldið 14. desember og stærsti skjálftinn í jöklinum mældist, sá var 2,2 að stærð. Í vesturjöklinum mældust rúmlega 30 skjálftar og voru þeir stærstu rétt undir tveimur stigum. Á Torfajökulssvæðinu mældust um 40 skjálftar sem dreifðust yfir allan mánuðinn og voru allir innan við tvö stig. Einn skjálfti mældist í Langjökli og fjórir á svæðinu suður af, allir litlir.

Á fimmta tug skjálfta voru staðsettir undir Vatnajökli í desember, talsvert færri en næstu tvo mánuði á undan en álíka fjöldi og í september. Mesta virknin var við Kistufell, einkum síðari hluta mánaðarins, tæplega 20 skjálftar. Stærsti skjálftinn í jöklinum og raunar á landinu öllu, 3,3 að stærð, varð við Kistufell aðfaranótt 18. desember. Undir Kverkfjöllum mældist rúmlega tugur skjálfta, sá stærsti um tvö stig, og litlu færri við Bárðarbungu, allir innan við tvö stig. Tveir skjálftar mældust við Vestari Skaftárketil og einn við þann austari, sá stærsti tæp tvö stig. Þrír smáskjálftar mældust við Grímsvötn og tveir upp af Skeiðarárjökli.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust alls rúmlega 70 skjálftar sem er svipuð virkni og mánuðinn á undan. Við austurbarm Öskju voru staðsettir 10 skjálftar, allir litlir. Á svæðinu þar austur af,  þ.e. á milli Vaðöldu og Herðubreiðartagla, mældust rétt tæpir 30 skjálftar, flestir í skjálftahrinu sem hófst upp úr klukkan 11 þann 14. desember, stóð í rúman hálftíma og var stærsti skjálftinn 2,4 stig. Skjálftarnir voru á um 20 - 25 kílómetra dýpi og tengjast líklega kvikuhreyfingum sem er ekki óvenjulegt á þessu svæði. Um 20 skjálftar mældust við Herðubreið og vestur af Herðubreiðartöglum auk nokkurra smáskjálfta austar á svæðinu.

Á Norðurlandi mældust yfir 540 skjálftar þar af yfir 400 við Eyjafjarðarál. Í fyrstu viku desember mældust 220 skjálftar við Eyjafjörð. Þar af fundust tveir, annar 13,8 km ANA af Siglufirði þann 5. desember kl. 11:12 sem mældist Ml 3,1 að stærð. Skjálftinn fannst á Siglufirði og í Fljótum. Þann 4. desember kl. 13:09 mældist skjálfti Ml 2,9 að stærð sem einnig fannst á Siglufirði. Síðan hefur virknin farið hratt minnkandi. Í annarri viku desember mældust um 100 skjálftar við Eyjafjörð og innan við 80 síðustu tvær vikurnar. Um 100 skjálftar mældust í Öxarfirði, flestir undir einum en nokkrir náðu yfir tveimur að stærð. Seinni hluta mánaðarins fór að bera á nokkurri virkni um 10 km NNA af Grímsey, sem hefur farið nokkuð vaxandi. Rólegt var á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki. 






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica