Fréttir

Jarðskjálftar í maí 2013

12.6.2013

Hátt í 1600 hundruð jarðskjálftar voru staðsettir í mánuðinum. Skjálftahrina með tæplega 800 skjálftum varð við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg fyrri hluta mánaðarins og voru stærstu skjálftarnir yfir fjórum stigum og fundust víða á suðvestan- og sunnanverðu landinu.

Reykjanes og Reykjaneshryggur

Líflegt var á Reykjaneshrygg þennan mánuðinn en hátt í 800 skjálftar mældust. Þann 2. maí var jarðskjálftahrina við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg og smáhrina 4. maí við Eldeyjarboða. Aðfaranótt miðvikudagsins 8. maí hófst aftur skjálftahrina við Geirfuglasker og var hún mun kröftugri en sú í upphafi mánaðar. Mesta virknin var næstu tvo daga á eftir, þ.e. fimmtudaginn 9. maí og föstudaginn 10. maí en eftir það dró verulega úr hrinunni. Sjö skjálftar voru stærri en fjögur stig og á þriðja tug milli þrjú og fjögur stig. Stærsti skjálftinn var Mb 4,7 samkvæmt European-Mediterranean Seismological Centre (EMSC). Allir skjálftar um og yfir fjórum að stærð fundust á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi og þeir stærstu einnig í Borgarfirði og á Suðurlandi. Upptök jarðskjálftahrinunnar var á flekaskilunum sem liggja um Reykjaneshrygginn. 
Rúmur tugur skjálfta mældist við Reykjanes (vestast á Reykjanesskaga) í smáhrinu sem stóð í um tvo tíma miðvikudagsmorguninn 8. maí. Stærsti skjálftinn var rúmt stig. Hátt í 30 skjálftar mældust í nágrenni Kleifarvatns, stærstu rúmt stig, auk nokkurra vestar og austar á Reykjanesskaganum. 

Suðurland

Rúmlega 60 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu. Við Húsmúla á Hellisheiði mældust milli 20 og 30 skjálftar, flestir undir lok mánaðarins. Stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð. Aðrir skjálftar dreifðust um svæðið og var stærsti skjálftinn 2,5 stig um fjóra kílómetra VSV af Hrómundartindi. Yfir 40 skjálftar mældust í Ölfusi, um helmingur voru smáskjálftar á Krosssprungunni sem hrökk í maí 2008. Nokkrir skjálftar mældust í Þrengslum og undir Ingólfsfjalli. Á Suðurlandsundirlendi mældust rúmlega 20 skjálftar á þekktum sprungum og einn skjálfti átti upptök tæpa fimm kílómetra suður af Heklu. Enginn skjálfti náði tveimur stigum.

Mýrdalsjökull og nágrenni

Álíka margir skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli og i síðasta mánuði þ.e. um 70. Um 30 skjálftar urðu innan Kötluöskjunnar, rúmlega 20 í vesturjöklinum, nokkrir við Hafursárjökul og aðrir dreifðust um sunnanverðan jökulinn. Allir voru skjálftarnir um og innan við eitt stig.
Einn smáskjálfti varð undir suðvestanverðum öskjubarmi Eyjafjallajökuls og á annan tug skjálfta á Torfajökulssvæðinu, stærsti tæp tvö stig.

Hálendið

Undir Vatnajökli mældist á fjórða tug skjálfta, allir innan við tvö stig að stærð. Við Kistufell voru rúmlega 10, litlu færri undir Bárðarbungu og Lokahrygg. Tveir smáskjálftar röðuðu sér við sinn hvorn Skaftárketilinn og nokkrir skjálftar voru skammt sunnan við Grímsvötn. Rólegt var undir Kverkfjöllum.
Á Dyngjufjallasvæðinu var mesta virknin undir austurbarmi Öskju og á svæðinu vestan Herðubreiðartagla. Einn grunnur skjálfti mældist á óvenjulegum stað austan í Kerlingardyngju í Ódáðahrauni.
Skjálftar mældust við Jarlhettur, sunnan Langjökuls, allan mánuðinn. Nokkrir skjálftar mældust auk þess í Langjökli  og einn í Hofsjökli, stærstu rúmt stig. 

Norðurland

Mun rólegra var í Tjörnesbrotabeltinu þennan mánuð miðað við mánuðinn á undan þegar hátt í 2000 skjálftar voru staðsettir, en þennan mánuð voru þeir tæplega 400. Mest var virknin í Grímseyjarbeltinu, um 200 skjálftar, og er það eftirskjálftavirkni frá hrinunni sem stóð yfir meira og minna allan aprílmánuð. Stærstu skjálftarnir voru rúm þrjú stig. Um 70 eftirskjálftar mældust syðst í Eyjafjarðarál þar sem mikil skjálftahrina hófst síðari hluta október í fyrra. Hátt í 50 skjálftar mældust undir Skjálfandaflóa og ríflega 30 í Öxarfirði. Stærstu skjálftar á báðum þessum svæðum voru rúmlega tvö stig. Nokkrir smáskjálftar voru á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

pdf-skjal (0,1 Mb)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica