Ofanflóðakortasjá
Veðurstofan hefur með tilstyrk Ofanflóðasjóðs þróað ofanflóðakortasjá með það að markmiði að auðvelda aðgengi að ofanflóðagögnum sem hún aflar og varðveitir. Varanlegur tengill á hana er bæði á vefsíðu ofanflóða og á snjóflóðaforsíðu.
Kortasjáin er þróuð af starfmönnum Veðurstofunnar og er afrakstur samstarfs sérfræðinga í landupplýsingakerfum, ofanflóðamálum og tölvurekstri. Fyrsta útgáfa kortasjárinnar var opnuð í október 2012. Hún er enn á tilraunastigi en áætlanir eru um að bæta hana og þróa frekar.
Í því umhverfi sem Veðurstofan starfar er lögð rík áhersla á miðlun hverskonar upplýsinga. Á meðal þeirra gagna sem nálgast má í kortasjánni má nefna upplýsingar um þekkt snjóflóð, hættumat, rýmingarreiti og upplýsingar um snjóalög.
Kortasjánni fylgja leiðbeiningar á formi notendahandbókar sem notendur eru hvattir til að kynna sér. Ábendingar um það hvað vantar eða hvað mætti betur fara eru vel þegnar og öllum spurningum varðandi kortasjána verður beint til réttra aðila.