Fréttir
Horft út Héðinsfjörð hinn 9. júlí 2013.

Tíðarfar í júlí 2013

Stutt yfirlit

1.8.2013

Tíð var óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert lengi fram eftir mánuðinum, með úrkomu og sólarleysi, en batnaði þá og varð síðasti þriðjungur mánaðarins hagstæður. Um landið norðaustan- og austanvert var tíð lengst af hagstæð.

Hiti

Meðalhiti mældist 10,9 stig í Reykjavík. Það er 0,3 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990, en 1,4 undir meðallagi síðustu 10 ára. Þetta er kaldasti júlímánuður í Reykjavík síðan 2002. Meðalhitinn á Akureyri var 11,2 stig. Það er 0,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu 10 ára. Það gerðist síðast 2005 að meðalhiti í júlí var hærri á Akureyri en í Reykjavík.

Hlýjast að tiltölu var um landið austanvert. Aðeins tveir júlímánuðir hafa verið hlýrri en þessi á Dalatanga, 1955 og 1984. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði mældist 10,4 stig. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 10,9 0,3 74 til 76 143
Stykkishólmur 10,3 0,4 67 til 74 168
Bolungarvík 10,4 1,4 32 116
Akureyri 11,2 0,7 47 132
Egilsstaðir 11,7 1,5 10 59
Dalatangi 9,8 1,8 3 75
Teigarhorn 9,6 0,9 18 141
Höfn í Hornaf. 10,4 0,0
Stórhöfði 9,6 0,0 102 136
Hveravellir  8,6 1,6 12 til 14 48
Árnes 11,4 0,6 56 [133]
Byggð 10,3 0,7 48 til 49 142

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Hallormsstað, 12,2 stig, og 11,4 á Egilsstaðaflugvelli. Langlægstur var hann á Brúarjökli, 3,7 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 8,2 stig í Seley.

Hæsti hiti mánaðarins mældist í Ásbyrgi þann 21., 26,4 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist sama dag á Skjaldþingsstöðum, 26,2 stig. Hiti komst í 20 stig 18 daga mánaðarins, þar af 14 í röð frá og með 18. til og með 30.

Eitt dægurhámarksmet var sett í mánuðinum. Það gerðist þegar hitinn á Egilsstaðaflugvelli fór í 26,1 stig þann 10. Gamla dægurmetið var sett á Hallormsstað 1977 og var 25,3 stig.

Lægstur mældist hitinn -3,9 stig þann 2. Í byggð mældist hitinn lægstur á Þingvöllum, -0,2 stig þann 1. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3., 1,6 stig.

Eitt dægurlágmarksmet var sett í mánuðinum. Það var þegar hitinn fór niður í -3,9 stig á Brúarjökli þann 2. Gamla metið var -2,9 stig sett á Staðarhóli í Aðaldal 1964. Heildarlágmarksmet júlímánaðar var ekki langt undan, það er -4,1 stig sem mældust í Möðrudal 21. júlí 1986.

Úrkoma

Úrkoma mældist 72,2 mm í Reykjavík og er það nærri 40% umfram meðallag og það mesta í júlí síðan 2001. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 57,5 mm, það mesta í júlí síðan 1984, og er um 40% umfram meðallag eins og í Reykjavík. Á Akureyri mældist úrkoman 31,3 mm og er það í rétt tæpu meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 170,3 mm sem er það mesta í júlí frá 1990. Uppgjör hefur ekki borist að austan en á Dalatanga var úrkoman þó innan við þriðjungur af meðallagi og hefur ekki verið jafnlítil í júlí síðan árið 2000.

 Bráðabirgðauppgjör virðist benda til þess að úrkoma í júlí hafi aldrei mælst meiri en nú í Stafholtsey og á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi. Báðar stöðvarnar hafa athugað í rúm 20 ár. Fleiri stöðvar settu einnig mánaðamet í magni – en hafa ekki athugað lengi.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 12 í Reykjavík, tveimur fleiri en í meðaljúlí 1961 til 1990. Á Akureyri voru slíkir dagar einnig 2 fleiri en í meðalári.

Sólskin

Sólarlítið var í Reykjavík framan af mánuðinum en síðari hlutinn bætti það upp þannig að heildarsólskinsstundafjöldi mánaðarins varð 164, það er 7 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en aftur á móti 37 stundum færri en að meðaltali síðustu tíu júlímánuði. Sólskinsstundir voru færri í júlí 2003 heldur en nú. Mjög sólarlítið var á Akureyri. Þar mældust sólskinsstundirnar aðeins 101, 57 stundum færri en í meðaljúlí og hafa ekki verið jafnfáar síðan 1998.

Elliðavatn 
Séð austur yfir Elliðavatn að Vífilsfelli kl. 7:30 að morgni 23. júlí. Þokuslæða hjúpar fellið og hæðirnar. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var lítillega undir meðallagi. Loftþrýstingur í Reykjavík var 1,0 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1027,0 hPa í Önundarhorni þann 9 en lægstur mældist hann 980,9 hPa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 6. 

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Hlýtt hefur verið fyrstu sjö mánuði ársins, meðalhiti í Reykjavík er 5,2 stig og er það 1,1 stigi yfir meðaltali áranna 1961 til 1990 en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Tímabilið er í 21. til 22. sæti meðalhita í Reykjavík. Upphaf mælinga er talið 1871. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu sjö mánaða ársins 4,3 stig, 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,1 stigi undir meðalhita síðustu tíu ára. Þessir sjö fyrstu mánuðir eru í 18. til 19. sæti meðalhita. Upphaf mælinga er talið 1881.

Í Reykjavík er úrkoma það sem af er ári um 12% yfir meðallagi, en í meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir það sem af er ári eru um 100 umfram meðallag í Reykjavík, en í meðallagi á Akureyri.

Skjöl fyrir júlímánuð

Þessa grein, Tíðarfar í júlí 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb)

Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í júlí 2013.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica