Vindmyllur gangsettar við Búrfell
Tvær vindmyllur Landsvirkjunar
Í dag, 14. febrúar, gangsetur Landsvirkjun tvær vindmyllur norðan við Búrfell, á hraunsléttu sem kölluð er Hafið. Hafið er sjötíu kílómetra frá sjó, þrátt fyrir nafnið, en þar hafa verið reistar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Rannsóknirnar snúast ekki síst um rekstur vindmylla við séríslenskar aðstæður, svo sem ísingu, skafrenning, öskufok og sandfok.
Vindmyllurnar eru þær langstærstu sem reistar hafa verið á Íslandi og þetta er í fyrsta sinn sem hagkvæmni raforkuframleiðslu með vindorku er könnuð á Íslandi. Ef vel gengur er markmiðið að vindorkuframleiðsla verði í framtíðinni mikilvæg viðbót við framleiðslu raforku með vatnsafli og jarðvarma.
Nánar má lesa um þetta þróunarverkefni á vef Landsvirkjunar og frétt um gangsetninguna.
Einnig er fróðleikur um vind og vindorku á vef Veðurstofunnar, sjá m.a. rannsóknarverkefni þar undir.