Fréttir

Veðurstofan á Vísindavöku

Þema Veðurstofunnar 2013 er snjór

27.9.2013

Nú á Vísindavöku Rannís 2013 verður Veðurstofan með kynningu á viðfangsefninu snjór í víðu samhengi. Allir eru velkomnir í Háskólabíó frá kl. 17:00. Gestir fá að handleika tæki sem fáir hafa séð og vandað myndskeið sýnir jöklakortlagningu, eftirlit með snjóþekju, snjóspár og samantekt um snjóflóð.

Sýndur er langur stafur sem mælir hita með 20 cm bili í snjóþekju og lofti næst ofan hennar, og gefur meira en 3 m lóðrétt hitasnið. Hiti mældur af þeim nemum sem eru á kafi í snjó breytist hægar en hiti nemanna sem loft leikur um og með þessu er unnt að meta snjódýpt. Reynt er að líkja eftir þessum aðstæðum á Vísindavökunni og það er ekki auðvelt!

Fleiri tæki verður hægt að handleika. Hvernig er vindátt mæld og hvernig vindhraði? Vonandi hafa gestir einnig tíma til að dvelja stutta stund og þiggja fræðslu af stórum skjá:

  • víðtækt eftirlit Veðurstofunnar hvað varðar snjó
  • magnaðar myndir af snjógrindum hátt uppi í snarbröttum hlíðum
  • hvernig íbúar geta kosið viðvaranir í smáskilaboðum
  • upptaka af snjóflóðasprengingum til rannsókna
  • hvernig jöklar eru mældir með leysigeislum úr flugvél
  • lifandi Íslandskort sem sýnir snjóþekjuna breytast frá janúar til júlí

Um snjóstafinn

Súðavíkurhlíð
SM4 hitamælistafur frá POLS Engineering sem rekinn er af Vegagerðinni í um 400 m h.y.s. á upptakasvæði snjóflóða í Súðavíkurhlíð. Í baksýn má sjá Álftafjörð, Seyðisfjörð, Eyrarfjall og Hest. Ljósmynd: Örn Ingólfsson.

Veðurstofan sýnir á Vísindavöku snjódýptarmæli sem þróaður hefur verið af POLS Engineering á Ísafirði í samstarfi við Veðurstofuna. Mælirinn, sem nefnist SM4, mælir hita með 20 cm bili í snjóþekjunni og lofti næst ofan hennar, alls 320 cm langt lóðrétt hitasnið. Unnt er að meta snjódýpt með því að greina sveiflur hitanemanna með tíma. Hiti mældur af þeim nemum sem eru á kafi í snjó breytist hægar en hiti nemanna sem loft leikur um.

Veðurstofan og Vegagerðin reka 9 slíka snjódýptarmæla í fjallshlíðum í grennd við Bolungarvík, Ísafjörð, Siglufjörð, Ólafsfjörð, Seyðisfjörð og Neskaupstað og í Súðavíkurhlíð. Norska vegagerðin hefur jafnframt sett upp þrettán slíka mæla og tveir mælar eru reknir í Svíþjóð.

Mælarnir hafa reynst áreiðanlegasta mælitæki sem völ er á til þess að mæla snjódýpt á upptaka-svæðum snjóflóða hér á landi. Erfitt er að reka aðrar tegundir mælitækja á upptakasvæðunum vegna hvassviðris og ísingar og vegna örðugleika á því að framleiða nægt rafmagn til þess að reka nema og fjarskiptabúnað.

Á vefsíðu SM4 mælanna, Snowsense, er unnt að skoða niðurstöður allra mælanna, bæði einstök hitasnið og mat á snjódýpt á mismunandi tímum. Nánari upplýsingar er að finna í skýrslu frá 2010.

Eldri fréttir um Vísindavöku

2007
2008
2008
2009
2009
2010
2010
2011
2011
2012
2012







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica