Um jarðskjálftana austur af Grímsey
Sniðgengi og siggengi
Skjálfti að stærð 4,7 varð kl 08:56 í morgun með upptök um 13,5 km austnorðaustur af Grímsey. Upptökin voru 7,5 km norðvestan við upptök stærri skjálfta frá því um nóttina (stærð 5,5 kl. 00:59). Einnig hafa mælst nokkur hundruð eftirskjálfta. Upptök skjálftanna eru á brotabelti sem liggur frá Öxarfirði norður fyrir Grímsey, svonefndu Grímseyjarbelti.
Upptök tveggja stærstu skjálftanna eru sýnd með svörtum stjörnum á meðfylgjandi korti.
Nokkrir aðrir skjálftar í skjálftaröðinni eru sýndir með rauðleitum hringjum.
Meginskjálftinn er á norðlægu vinstrihandar sniðgengi, samanber svarthvíta táknið á kortinu. Það þýðir að vinstri brún misgengisins fer til suðurs en sú hægri til norðurs (sjá teikningu t.h.). Næst- stærsti skjálftinn, sem varð um kl. 9, er um 7,5 km norðvestan við meginskjálftann og er á siggengi (sjá teikningu t.v.) sem bendir til spennubreytinga í nágrenni stóra skjálftans.
Skjálftahrinur eru mjög algengar á þessu svæði. Ekki er hægt að spá fyrir um framhaldið og ekki er hægt að útiloka að hrinan hafi frekari áhrif á nærliggjandi sprungukerfi með aukinnni virkni suðaustan og norðvestan við meginskjálftann. Fleiri stórir skjálftar geta því fylgt í kjölfarið en ómögulegt er að segja fyrir um það.