Fréttir
Norðurljós séð frá Rauðhólum í nágrenni höfuðborgarinnar 17. mars 2013 kl. 22:13.

Tíðarfar í mars 2013

Stutt yfirlit

3.4.2013

Tíðarfar telst fremur hagstætt að undanskildum nokkrum dögum snemma í mánuðinum. Þá gerði talsverða frosthörku og slæm hríð gekk yfir meginhluta landsins. Verst var hún þann 6. þegar segja mátti að samgöngur á landi og í lofti legðust af. Eftir þetta batnaði tíð og síðari hluti mánaðarins var hagstæður, vindur lengst af hægur og úrkoma lítil. Loftþrýstingur var með hæsta móti í mánuðinum.

Hiti

Hiti var lítillega yfir meðallagi um landið sunnan- og vestanvert og á vestanverðu hálendinu en rétt um eða undir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi. Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stig sem er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalhiti á Akureyri var -1,4 stig og er það um -0,2 stigum undir meðallagi sömu ára. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 1,2 0,8 46 143
Stykkishólmur 0,1 0,9 168
Bolungarvík -0,9 0,7 53 116
Akureyri -1,4 -0,2 69 132
Egilsstaðir -1,8 -0,3 38 58
Dalatangi -0,1 -0,2 63 74
Teigarhorn 0,0 -0,4 70 141
Höfn í Hornafirði 0,8
Kirkjubæjarklaustur 0,9 0,2 44 til 45 88
Stórhöfði 1,9 0,2 63 136
Hveravellir  -5,0 1,0 19 47
Árnes 0,2 0,9 [42] [133]

Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 3,0 stig, en lægstur á Brúarjökli, -7,7 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -4,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Dalatanga þann 25., 15,7 stig, á mönnuðu stöðinni á sama stað mældust þá 14,5 stig og mældist hvergi meiri á kvikasilfursmæli í mánuðinum. Lægsti hiti mánaðarins mældist -18,1 stig. Það var við Gæsafjöll þann 5. Lægsti hiti í byggð mældist í Möðrudal þann 26., -17,4 stig. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -15,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 26.

Þann 5. fór hiti ekki upp fyrir frostmark á nokkurri veðurstöð á landinu. Það gerðist síðast 9. desember 2011. Hámarkshiti landsins mældist að þessu sinni í Önundarhorni undir Eyjafjöllum -0,9 stig.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 41,3 mm og er það um helmingur meðalúrkomu í mars. Síðast var mars ámóta þurr 2005. Á Akureyri mældist úrkoman 46,6 mm og er það í rétt rúmu meðallagi. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 43,1 mm og er það um 60% meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoma 65,4 mm og 77,1 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Úrkomudagar voru færri en í meðalári.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 162,5 og er það 51 stund umfram meðallag. Svo sólríkt hefur ekki verið í mars í Reykjavík síðan 1999. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 80,3 og er það í rétt rúmu meðallagi.

Snjólag

Snjólétt var á landinu sunnan- og vestanverðu en töluverður snjór norðaustanlands. Alhvítir dagar voru aðeins tveir í Reykjavík, um 10 dögum undir meðallagi áranna 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 25 í mánuðinum og er það 6 dögum yfir meðallagi sama tímabils.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var um 0,4 m/s undir meðallagi síðustu 15 ára á mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum. Mikið hríðarveður með verulegum samgöngutruflunum gerði um mikinn hluta landsins dagana 6. og 7.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1019,7 hPa og er það 16,6 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalþrýstingur hefur ekki verið svo hár í mars síðan 1962. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist 1038,2 hPa þann 23. á Skjaldþingsstöðum. Lægsti þrýstingur mánaðarins mældist 994,9 hPa þann 6. á Stórhöfða. Lægsti þrýstingur marsmánaðar hefur aldrei áður verið jafnhár.

Skýjaklakkur
Skúra- eða éljaklakkur handan Keilis 28. mars 2013 kl. 10:22.  Ljósmynd: Þórður Arason.

Veturinn (desember 2012 til mars 2013)

Veturinn var hlýr. Meðalhiti í Reykjavík var 2,3 stig og hefur aðeins þrisvar verið hærri á sama tíma árs. Það var 1964, 1929 og 2003. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 2,5 stig; hefur veturinn verið hlýrri fjórum sinnum, 1964, 1929, 2003 og 1847. Veturinn 2005 til 2006 var jafnhlýr og nú og 1941 til 1942 var ómarktækt kaldari. Á Akureyri eru hlýindin nú í 18. sæti.

Úrkoma í Reykjavík var um 18 prósent ofan meðallags en um 10 prósent undir því á Akureyri.

Hiti fyrstu þrjá mánuði ársins

Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið mjög hlýir. Í Reykjavík eru þeir í þriðja sæti frá upphafi samfelldra mælinga (1871), nokkru hlýrra var á sama tíma 1929 og 1964.

Í Stykkishólmi eru mánuðirnir þrír fjórðu í röð þeirra hlýjustu, mæliröðin þar nær aftur til 1846. Hlýjast var 1964, síðan 1929 og 1847.

Á Akureyri eru hlýindi fyrstu þriggja mánaðanna í 14. sæti (frá 1882), á Teigarhorni í 10. sæti (frá 1873) og í því fjórða í Vestmannaeyjum (frá 1878).

 Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í mars 2013.



Þessa grein, Tíðarfar í mars 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica