Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2013
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2013

Jarðskjálftar í mars 2013

10.4.2013

Rúmlega 1000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í mars. Stærsti skjálftinn var 3,8 stig með upptök í Eyjafjarðarál. Hann fannst á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Húsavík.

Á Reykjaneshrygg mældust yfir 10 jarðskjálftar, um helmingur dagana 26. og 27. mars við Eldey. Þeir voru innan við tvö stig, en stærri skjálftar, milli tvö og þrjú stig, mældust lengra suður á hrygg.

Hátt í 50 smáskjálftar mældust á Reykjanesskaga. Flestir voru á Krýsuvíkursvæðinu. Um tugur skjálfta átti upptök við Fagradalsfjall, aðallega 4. og 20. mars. Þeir voru allir innan við 1,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust við Bláfjöll og Brennisteinsfjöll.

Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi mældust um 100 smáskjálftar. Um 30 áttu upptök við Húsmúla á Hellisheiði, flestir dagana 12. og 29. mars. Nokkur smáskjálftavirkni var á suðurhluta Krosssprungu og við Raufarhólshelli.

Á Suðurlandsundirlendinu mældust um 35 jarðskjálftar á þekktum sprungum, þeir stærstu voru um 1,5 stig og flestir áttu upptök á Hestvatnssprungu. Sjö skjálftar mældust norðaustan í Heklu. Upptökin voru á um 11 kílómetra dýpi og stærðir um og innan við eitt stig.

Í vesturgosbeltinu urðu tvær skjálftahrinur. Önnur var suðvestan í Þórisjökli um miðjan mánuðinn. Um 30 skjálftar mældust, stærsti 2,0 stig. Í lok mánaðarins varð hrina suðaustan Langjökuls, við Jarlhettur. Stærsti skjálftinn varð 29. mars, 3,5 stig. Um 40 skjálftar mældust fram að mánaðamótum. Nokkrir skjálftar, um einn að stærð, mældust við Hítarvatn.

Undir Mýrdalsjökli mældust um 100 skjálftar, allir innan við tvö stig. Langflestir áttu upptök undir vestanverðum jöklinum. Aðeins á annan tug skjálfta varð innan Kötluöskjunnar. Nokkur smáskjálftavirkni var við Hafursárjökul. Tveir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli. Á Torfajökulssvæðinu mældust um 30 skjálftar, stærsti 2,2 stig. Upptök flestra var norðan Laufafells, vestast á svæðinu.

Á Vatnajökulssvæðinu mældust yfir 100 skjálftar, sá stærsti var 2,2 stig með upptök við Kverkfjöll, en þar mældust um 20 skjálftar í mars. Um 90 skjálftar mældust við Bárðarbungu og Kistufell og um 20 á Lokahrygg austan Hamarsins. Nokkrir smáskjálftar mældust við Esjufjöll og ísskjálftar í Síðujökli og Dyngjujökli. Vestan við Tungnafellsjökul, við Nýjadal, mældust 10 djúpir skjálftar í byrjun mánaðar. Þeir voru um og innan við einn að stærð.

Mesta skjálftavirknin norðan Vatnajökuls var milli Vikrafells og Svörtudyngju, vestan Herðubreiðartagla. Virknin var viðvarandi allan mánuðinn, en mest var hún þó 9. mars með yfir 30 skjálfta. Alls mældust um 65 skjálftar á þessu svæði, sá stærsti 2,5. Skjálftar í kringum Öskju voru flestir austan við vatnið. Nokkur virkni var við Herðubreið, Herðubreiðartögl og nokkrir skjálftar mældust norðan Upptyppinga, við Hlaupfell. Tveir skjálftar áttu upptök við ytri Dyngjufjöll 3. mars, 1,9 og 2,6 að stærð.

Við Kröflu mældust 18 skjálftar, allir innan við einn að stærð. Tveir smáskjálftar mældust við Mývatn. Við Þeistareyki mældust níu skjálftar, um og innan við einn að stærð.

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust um 300 jarðskjálftar. Í Eyjafjarðarál mældist skjálfti 3,8 stig þann 10. mars, en á sama svæði urðu tveir skjálftar yfir fimm stigum í október. Yfir 60 skjálftar mældust á þessu svæði í mánuðinum, um helmingur 10. - 12. mars. Fyrstu daga mars var mesta virknin austan Grímseyjar, en þann 28. febrúar hófst þar hrina. Skjálftavirkni var viðvarandi á þessu svæði allan mánuðinn. Dagana 10. - 12. mars jókst þar virkni og einnig virkni á svæði þar suður af. Þann 31. mars hófst þar aftur hrina (85 skjálftar mældust þann daginn), sem varð mjög kröftug fyrstu daga aprílmánaðar. Allir skjálftar á svæðinu í mars voru innan við þrjá að stærð, en í apríl varð þar skjálfti 5,5 stig og fjöldi skjálfta yfir fjóra mældust. Af öðrum svæðum í Tjörnesbrotabeltinu mældust nokkrir tugir skjálftar í Öxarfirði, nokkrir á Skjálfanda og við Grenivík. Þeir voru um og innan við tvö stig að stærð.

pdf-skjal 0,1 Mb





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica