Ábending vegna væntanlegs norðan illviðris
Væntanlegt norðan illviðri föstudaginn 30. ágúst og laugardaginn 31. ágúst
Vakthafandi veðurfræðingar á Veðurstofunni vilja vekja sérstaka athygli á mjög slæmri veðurspá í lok þessarar viku. Veður er meinlaust frá mánudegi og út fimmtudag. Síðan er spáin eftirfarandi:
Á föstudag
Gengur í norðan og norðvestan 15-23 m/s. Mikil rigning á N-verðu landinu, en slydda eða snjókoma síðdegis í meira en 150-250 m hæð yfir sjávarmáli. Úrkomulítið S-lands. Hiti frá 1 stigi á Norðurlandi upp í 10 stig syðst.
Á laugardag
Norðvestan 18-25 m/s á Norður- og Austurlandi um morguninn og mikil rigning neðan við 100-200 metra yfir sjávarmáli, annars slydda eða snjókoma. Þurrt að kalla sunnan og vestantil og hægari vindur vestast. Dregur úr vindi og úrkomu þegar kemur fram á daginn, fyrst á vestanverðu landinu. Suðvestan og vestan 3-10 m/s um kvöldið og léttskýjað, en norðvestan 13-18 á NA-horni landins og slydda eða snjókoma. Hiti frá 0 stigum í innsveitum norðantil, upp í 8 stig syðst. Frystir í innsveitum fyrir norðan seint um kvöldið.
Á sunnudag
Fremur hæg suðlæg átt, léttskýjað og kalt í veðri. Suðaustan 8-13 þegar líður á daginn með rigningu sunnanlands og hlýnar smám saman.
Þessi spá er byggð á líkani ECMWF með greiningu 2013-08-26 00:00 UTC. Næsta spá frá ECMWF með greiningu 2013-08-26 12:00 UTC er væntanleg til Veðurstofunnar eftir kl. 19:00 í kvöld.
Vakthafandi veðurfræðingar:
Teitur Arason og Haraldur Eiríksson
Sjá uppfærðar textaspár þegar nær dregur.