Jarðskjálftar í febrúar 2013
Rúmlega 800 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í febrúar. Allir voru innan við þrjá að stærð.
Á Suðurlandsundirlendinu mældust 79 jarðskjálftar og var það tíu prósent allrar virkni á landinu. Stærð skjálftanna var á bilinu -0,6 til 1,7. Sá stærsti varð kl. 12:41 þann 19. febrúar með upptök um 10 kílómetra ASA af Hestfjalli. Flestir mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar, við Húsmúla á Hellisheiði, á um fimm kílómetra dýpi og allir innan við 1,5 að stærð.
Um 16 jarðskjálftar mældust nyrst á Reykjaneshrygg á stærðarbilinu Ml 1,2 til 2,6. Sá stærsti varð á ríflega 4,2 kílómetra dýpi með upptök 2,2 kílómetra NNV af Geirfugladrangi. Á Reykjanesskaga var fremur lítil skjálftavirkni í febrúar. Nokkrir mældust við vestanvert Kleifarvatn, við Fagradalsfjall og Bláfjöll. Þeir voru allir undir 1,4 að stærð.
Undir Mýrdalsjökli var fremur rólegt í febrúar. Tæplega 75 jarðskjálftar voru staðsettir þar, flestir eða um 45 í nágrenni Goðabungu. Stærsti skjálftinn þar var 2,3 að stærð þann 13. febrúar rétt eftir miðnætti. Inni í Kötluöskjunni mældust einungis um 15 skjálftar, sá stærsti var 1,5 stig. Nokkrir smáskjálftar áttu upptök við Hafursárjökul og Sólheimajökul, og einn undir Eyjafjallajökli, allir minni en eitt stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega 30 skjálftar. Smáhrina varð um miðjan mánuðinn í vestanveðri Torfajökulsöskjunni, sá stærsti var 2,8 að stærð. Tveir smáskjálftar voru staðsettir milli Heklu og Tindfjallajökuls, báðir um eitt stig.
Á Vatnajökulssvæðinu mældust um 100 jarðskjálftar. Um helmingur átti upptök norðan í Bárðarbungu og við Kistufell. Um 20 skjálftar mældust á Lokahrygg austan Hamarsins, þ.á.m. stærsti skjálftinn á svæðinu sem var 2,9 stig. Um 20 smáskjálftar urðu við Dyngjujökul og innan við 10 skjálftar við Trölladyngju og Kverkfjöll. Ísskjálftar mældust í Síðujökli og Skeiðarárjökli. Einn smáskjálfti varð við Grímsvötn og einn við Öræfajökul.
Skjálftavirkni hélt áfram að mælast við Fjórðungsöldu á Sprengisandi, en þar hafa mælst skjálftar af og til undanfarnar vikur. Stærsti var 2,5 stig.
Á þriðja tug skjálfta mældust við Öskju. Nokkrir grunnir áttu upptök undir Öskjuvatni, en flestir urðu austan við vatnið. Allir voru undir tveimur að stærð. Vestan við Herðubreið urðu um 15 jarðskjálftar, þeir stærstu um 1,5 stig. Aðrir skjálftar á svæðinu voru fáir, dreifðir og smáir.
Á og úti fyrir Norðurlandi mældust 348 skjálftar eða um 43% skjálfta sem mældust þennan mánuðinn. Mesta virknin mældist austan Grímseyjar. Stærsta hrinan hófst í lok mánaðarins, þann 28. febrúar og stóð fram í marsbyrjun, en stærsti skjálftinn þar mældist 11. febrúar og var af stærð 2,8. Skjálftum með upptök úti í Eyjafjarðarál fækkaði nokkuð miðað við síðasta mánuð, þar mældust nú rúmlega 100 skjálftar. Fimmtíu skjálftar mældust í Öxarfirði, en fáir skjálftar á Skjálftanda. Átta skjálftar mældust úti á Kolbeinseyjarhrygg og fjórir í Fljótunum (þrír þeirra urðu þann 14. en einn þann 9.). Tveir skjálftar mældust rétt austan Grenivíkur um kl. 01:00 og 08:00 19. febrúar, báðir litlir (Ml1,2 og 0,8). Sex skjálftar mældust við Þeistareyki (og Þeistareykjabungu) og ellefu nærri Kröflu.