Skaflinn í Gunnlaugsskarði horfinn
aðeins tvisvar áður hefur hann bráðnað fyrr á árinu
Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni er nú horfinn – og það telst óvenju snemmt. Samkvæmt Árna Sigurðssyni, sérfræðingi í mælarekstri hjá Veðurstofunni, hefur síðasti snjórinn líklega bráðnað þann 5. eða 6. ágúst. Hann bendir á að aðeins tvisvar áður sé vitað um að skaflinn hafi horfið fyrr á árinu en það var árið 1941 og aftur 2010, en þau ár hvarf hann í júlí.
Eftir 2010 kólnaði lítillega á ný, og skaflinn hvarf aðeins árið 2012 og 2019, bæði á haustin – í september. Árið 2023 hvarf hann kringum 26. ágúst og árið 2024 kringum 19. ágúst. Nú, árið 2025, hverfur hann fyrr en öll þessi ár, og markar því tímamót: þetta er fyrsta skiptið í 15 ár sem hann hverfur fyrir lok ágústmánaðar.
Talið er að hlýindakafli í maí hafi haft afgerandi áhrif í ár, ásamt snjóléttum vetri og þurru, björtu sumri á suðvesturhorninu. Samverkandi áhrif slíkra skilyrða, það er lítil snjómyndun að vetri og hlýindi snemma sumars, stuðla að því að skaflinn bráðni fyrr en venjulega.
Eins og sjá má á mynd Árna Sigurðssonar, sérfræðings í mælarekstri Veðurstofunnar, sem tekin var 7. ágúst er skalfinn í Gunnlaugsskarði alveg bráðinn. Aðeins tvisvar áður er vitað til þess að hann hafi horfið fyrr á árinu.
Saga skaflsins – mælikvarði á veðurfar og loftslag
Skaflinn í Gunnlaugsskarði hefur lengi vakið athygli íbúa við sunnanverðan Faxaflóa og er oft talinn óformlegur mælikvarði á tíðarfar á höfuðborgarsvæðinu. Fylgst hefur verið með honum allt frá 19. öld, bæði með mælingum og munnlegum heimildum.
Helsti sérfræðingur um skaflinn í seinni tíð var Páll Bergþórsson, fyrrverandi forstjóri Veðurstofu Íslands, sem fylgdist með honum í áratugi og tengdi horf hans við þróun veðurfars og loftslags. Páll tók saman skráðar heimildir og dagsetningar og skráði einnig munnlegar heimildir frá fyrri áratugum, auk þess sem bætt var við upplýsingum úr tímaritinu Veðrinu.
Í dag hefur Árni Sigurðsson, sérfræðingur í mælarekstri hjá Veðurstofunni, tekið við þessu hlutverki. Hann heldur utan um mælingar og skráningu skaflsins og halda utan um fyrri heimildir.
Samkvæmt upplýsingum frá Árna hafði Jón Erlendsson á Mógilsá eftir Kolbeini Eyjólfssyni í Kollafirði, að fönnin í Gunnlaugsskarði hafi aldrei horfið á tímabilinu 1863 til um 1900.
Fyrsta staðfesta horf skaflsins var í ágúst 1929, og næstu ár, einkum á tímabilinu 1931 til 1936, hvarf hann árlega yfirleitt í ágúst. Árið 1941 hvarf hann í júlí, sem þótti þá fordæmalaust. Sama gerðist á ný árið 2010.
Eftir 1964 hófst kuldatímabil sem stóð í þrjá áratugi. Skaflinn breyttist smám saman í íshellu sem hvarf ekki fyrr en í ágúst 1998. Þá tók við hlýindaskeið: frá 2001 til 2010 hvarf skaflinn öll sumur, oft í ágúst og stundum seint í september.
Eftir 2010 kólnaði lítillega á ný og hann hvarf aðeins árin 2012, 2019, 2023 og 2024 – öll í ágúst. Nú, árið 2025, hverfur hann fyrr en öll þessi ár og markar því tímamót: þetta er fyrsta skiptið í 15 ár sem hann hverfur fyrir lok ágústmánaðar.
Lengstu tímabilin þar sem skaflinn hvarf árlega:
- 1931–1936
- 2001–2010
Þegar vetur og sumar vinna saman
Tvö ár skera sig úr: 1941 og 2010. Þá hvarf skaflinn í júlí. Samkvæmt Árna Sigurðssyni má ætla að þá hafi farið saman snjóléttur vetur og hlýtt sumar, sömu skilyrði og í ár.
Esjan sem loftslagsvísir í eldhúsglugga íbúa höfuðborgarsvæðisins
Sumarfannir Esju gefa innsýn í þróun veðurfars til lengri tíma. Skaflinn í Gunnlaugsskarði er lifandi dæmi um hvernig samspil vetrar og sumars, kulda og hlýinda, verður mælanlegt og sýnilegt í nærumhverfi okkar.
Sjá má af skrifum í Vísi 8. desember 1928 að slíkar athuganir voru taldar verðmætar fyrir veðurfarsrannsóknir:
„Fannir í fjöllum,
Fátt ber óækara vitni um árferði, en fannir í fjöllum. Er þess því vert, að í minnum sé haft, þegar snjóalög eru meiri eða minni en að venju lætur. Nú hafa farið saman margir vetur snjóléttir og síðasta sumar eitt hið lengsta og besta, er menn muna. Hefir því fannir leyst úr fjöllum og öræfum framar venju.
Til þess má nefna, að ekki sá snjódíl úr Þingvallasveit í haust í Skjaldbreið, að sögn Jóns bónda á Brúsastöðum, skilríks manns. — Í Esju sást aðeins ein fönn úr Reykjavík, lítill díll í Gunnlaugsskarði. Þá var og Skarðsheiði alauð úr Reykjavík að sjá, nema tveir örlitlir ská-dílar í giljum, líkt og fingraför.
Gera má ráð fyrir, að veðurstofan athugi þess konar vitni um veðráttufar, sem hér er getið, en engu að síður sendi ég „Vísi“ þessar línur til varðveislu.“
— Hnjúka-Þeyr
Vísir - 08. desember 1928
Árni Sigurðsson, sérfræðingur í mælarekstri hjá Veðurstofu Íslands, fyrir miðju í hópi félaga við skaflinn í Gunnlaugsskarði 21. september 2019. Mynd/Tómas Jóhannesson.