Jökulhlaup úr Mýrdalsjökli í Leirá syðri og Skálm
Uppfært 11. júlí 2025
Hlaup í rénun, vatnshæð og rafleiðni nálgast nú eðlileg gildi í Skálm.
Hámarki hlaupsins náð í fyrrinótt.
Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að fylgjast vel með svæðinu.
Vatnshæð (mynd 1) og rafleiðni (mynd 2) hafa farið lækkandi síðasta sólahring og nálgast nú eðlileg gildi í vöktunarmæli Veðurstofunnar í Skálm við þjóðveg. Jarðskjálftamælar á jökulskerjum í Mýrdalsjökli sýna einnig greinilega lækkun í óróa síðasta sólahring. Á vefmyndavél á Rjúpnafelli sést að töluvert hefur dregið úr vatnsmagni í Leirá Syðri frá því í gær. Þessi gögn gefa því til kynna að jökulhlaupinu sé að ljúka.

Mynd 1: Þróun á vatnshæð í Skálm við Þjóðveg undanfarna viku (5.-11. júlí). Vatnshæð tók að aukast 8. júlí þegar að hlaupvatn fór að skila sér í ánna.
Mynd 2: Þróun í rafleiðni í Skálm við Þjóðveg undanfarna viku (5.-11. Júlí).
Mælir í Leirá Syðri sýnir lækkun í rafleiðni en vatnshæðarmælir sýnir aftur á móti hækkun. Sú hækkun er talin vera vegna setframburðar sem að jökulhlaupið hefur borið með sér og kastað af sér í árfarveginn þegar að burðargeta árinnar dettur niður vegna minnkandi rennslis. Þessi setupphleðsla hækkar botninn á árfarveginum og vatnsyfirborð mælist því hærra.
Áfram getur orðið vart við brennisteinslykt á svæðinu og eru ferðmenn eru beðnir um að sýna aðgát í grennd við árnar.
Uppfært 10.júlí 2025
Hlaup enn í gangi en vatnshæð og rafleiðni fer lækkandi
Ekki er hægt að útiloka að vatnshæð aukist aftur
Ferðamenn eru beðnir um að sýna aðgát í grennd við árnar
Árlegt hlaupvatn sést í Fremri-Emstruá sem er ótengt þessum atburði og skapar ekki hættu
Rafleiðni og vatnshæð í Leirá syðri og Skálm fór hægt vaxandi í nótt í kjölfar aukningar síðustu daga. Undir morgun tók vatnshæð og rafleiðni að lækka og lítur út fyrir að hámarki í Leirá hafi verið náð í gærkvöldi (sjá mynd 1) og í Skálm við brúna yfir þjóðveg 1 nú í morgun. Einnig hefur dregið úr óróa við Austmannsbungu frá því í morgun.
Líklegast er að hlaupið haldi áfram í rénum og að rennsli hverfi aftur að venjulegu sumarrennsli. Ekki er hægt að útiloka að hvellsuða í jarðhitakerfum við jökulbotn verði af völdum þrýstingsléttingar í kjölfar hlaupsins. Slíkt gæti leitt til ísbráðnunar og aukins hlaupvatns.
Enn er of snemmt að segja til um framvinduna að svo stöddu og heldur sólarhringsvakt Veðurstofunnar áfram að fylgjast náið með þróun mælinga á svæðinu.
Mynd 1: Þróun á vatnshæð efst í Leirá syðri frá 7. júlí til kl. 14:00 10. júlí.
Líklegast er talið að hlaupið eigi uppruna sinn í jarðhitakötlum í Mýrdalsjökli sunnan Austmannsbungu (kötlum 13 og 14 í númerakerfi fyrir Kötlukatla), þeim sömu og skiluðu umtalsverðu hlaupi í júlí í fyrrasumar. Íssjármælingarnar Eyjólfs Magnússonar hjá Jarðvísindastofnun Háskólans frá því í maí síðastliðnum benda til að mögulega hafi verið umtalsverð vatnsuppsöfnun við jökulbotn undir kötlunum og gæti það lón þá verið uppruni hlaupsins núna. Ekki hefur enn fengist staðfesting á lækkun í yfirborði jökulsins í kötlunum og því ekki hægt að slá þessu föstu. Fylgst verður með hvort að fjarkönnunargögn geti staðfest þetta á næstu dögum. Staðfesting flugmanna sem eiga leið yfir svæðið gæti að sama skapi orðið að gagni.
Mynd 2: Kort sem sýnir staðsetningu vöktunarmæla í kringum Mýrdalsjökul og farveg Leirá syðri í Skálm.
Tilkynningar um brennisteinslykt við Skálm hafa borist Veðurstofunni. Ferðamenn eru beðnir um að sýna aðgát í grennd við árnar þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu. Einnig má þess geta að alltaf skal fara varlega nærri árfarvegum.
Frá 8.júlí 2025 hafa tæplega 100 skjálftar mælst í Mýrdalsjökli, sá stærsti kl. 7 í morgun, 10.júlí, en hann reyndist 2,7 að stærð. Ekki er hægt að útiloka að stærri skjálftar geti átt sér stað og því ber að sýna aðgát í og við jökulinn.
Mynd 3: Sérfræðingar Veðurstofu Íslands við mælingar við Skálm þann 9. júlí. Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson
Til viðbótar við hlaupið í Leirá og Skálm hafa borist tilkynningar um hlaupvatn í Fremri-Emstruá. Þar er að öllum líkindum um óskyldan atburð að ræða en árlega koma hlaup í ána. Þau hlaup koma oftast fram á tímabilinu frá lokum júní og fram í byrjun ágúst. Slík hlaup valda ekki tjóni og skapa ekki hættu nema vegna mögulegrar gasmengunar nálægt árfarveginum upp við jökul. Ferðamenn eru því einnig beðnir um að sýna aðgát vegna mögulegrar gasmengunar nærri Fremri-Emstruá og við jaðar Entujökuls.
Uppfært 9.júlí 2025
Undanfarna daga hafa rafleiðni og vatnshæð hækkað í Leirá Syðri skv. mælingum nýlegs vöktunarmælis framan við Sandfellsjökul. Hækkuð rafleiðni og vatnshæð sjást einnig í mælingum við brúna á þjóðvegi 1 yfir Skálm, en Leirá Syðri rennur í Skálm ofan vegarins.
Að svo stöddu er um lítið hlaup að ræða en á þessum tímapunkti fer vatnshæð og rafleiðni enn þá smátt vaxandi.
Tilkynningar um brennisteinslykt hafa borist Veðurstofunni. Viljum við því biðja fólk um að sýna aðgát við upptök árinnar þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu. Einnig má þess geta að alltaf skal fara varlega nærri árfarvegum.
Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist áfram náið með þróun mælinga á svæðinu. Frekari upplýsingar verða veittar eftir því sem atburðurinn þróast.
Þróun á vatnshæð efst í Leirá syðri frá 7. júlí til kl. 15.00 í dag, 9. júlí.
Stærð jökulhlaupa úr Mýrdalsjökli í Leirá breytileg
Hlaup sem þessi frá jarðhitasvæðum við jökulbotn eru þekkt í ýmsum ám í kringum Mýrdalsjökul, svo sem í Múlakvísl og Fremri-Emstruá.
Í gegnum tíðina hafa komið misstór hlaup í Leirá. Á árunum 1995 til 2000 komu árleg hlaup í ána auk þess sem lítið hlaup kom í ána árið 2012. Ekkert tjón varð af þessum hlaupum utan þess að framburður þeirra hækkaði aurkeilu Leirár sunnan Sandfells sem leiddi til þess að syðri kvísl Leirár leitaði inn á ný svæði og að lokum yfir í Skálm.
Kort sem sýnir staðsetningu flóðavöktunarmæla í kringum Mýrdalsjökul. Mælar í Leirá syðri (V665) og Skálm (V412) er merktir með appelsínugulum hring.
Í lok júlí í fyrrasumar kom einnig lítið hlaup í Leirá Syðri og Skálm. Í kjölfar þess hlaups kom óvænt umtalsvert hlaup sem flæddi yfir þjóðveg 1 og rauf hann á kafla. Hlaupið átti uppruna sinn í tveimur kötlum í Mýrdalsjökli sunnan við Austmannsbungu. Katlarnir eru myndaðir vegna bráðnunar íss af völdum jarðhita við jökulbotn.
Í kjölfar stóra hlaupsins í lok júlí 2024 hafa fjögur minni hlaup orðið í ánni. Ekkert tjón varð að völdum þeirra. Seinasta slíka hlaup varð í desember síðastliðnum .
„Orsakir stóra hlaupsins í fyrra eru ekki að fullu ljósar“, segir Bergur Einarsson, fagstjóri vatnarannsókna á Veðurstofu Íslands.
„Hafi suða í jarðhitakerfunum við jökulbotn í kjölfar þrýstiléttingar af völdum lítils jökulhlaups valdið stóra hlaupinu í fyrra gæti atburður eins og nú er í gangi leitt til stærra hlaups. Einnig þarf að hafa varann á vegna þess að íssjármælingarnar Eyjólfs Magnússonar hjá Jarðvísindastofnun Háskólans frá því í maí síðastliðnum benda til að mögulega sé umtalsverð vatnsuppsöfnun þegar við jökulbotn“, segir Bergur.