Fréttir

Tíðarfar í september 2025

Stutt yfirlit

2.10.2025


September var hlýr á landinu öllu. Austan- og suðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Sérlega úrkomusamt var á Austfjörðum og á Ströndum og þar var mánuðurinn víða með blautari septembermánuðum sem vitað er um. 

Hiti

Meðalhiti septembermánaðar var 9,3 stig í Reykjavík. Það er 0,7 stigum yfir meðallagi september árin 1991 til 2020 og 0,8 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 8,7 stig sem er 0,7 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020 og 0,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðarins var 8,9 stig í Stykkishólmi og 9,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í september 2025.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2015-2024 °C
Reykjavík 9,3 0,7 23 til 24 155 0,8
Stykkishólmur 8,9 0,8 22 180 0,8
Bolungarvík 7,5 0,1 47 128 0,0
Grímsey 7,8 0,9 17 152 0,7
Akureyri 8,7 0,7 25 til 26 145 0,6
Egilsstaðir 9,3 1,4 6 71 1,2
Dalatangi 9,0 1,0 9 til 10 88 0,7
Teigarhorn 9,3 1,1 9 til 10 153 1,0
Höfn í Hornaf. 9,8


1,1
Stórhöfði 9,4 0,9 13 til 14 149 0,9
Hveravellir 4,7 0,8 14 til 15 61 0,7
Árnes 8,9 1,0 18 til 19 146 1,0

September var hlýr um nánast allt land. Að tiltölu var hlýjast á Norðaustur- og Austurlandi en kaldast á norðanverðum Vestfjörðum (sjá mynd 1). Jákvætt hitavik var mest 1,5 stig á Ljósalandi við Fáskrúðsfjörð. Neikvætt hitavik var mest -0,4 stig við Hornbjargsvita.


Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í september miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 10,6 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur 2,5 stig á Þverfjalli. Lægsti meðalhiti í byggð mældist 6,2 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,1 stig í Árnesi og Skálholti þ. 1. Lægsti hiti mánaðarins mældist -7,6 stig á Hólasandi þ. 20. Í byggð mældist lægsti hitinn -6,3 stig á Hólum í Dýrafirði og Grímsstöðum á Fjöllum, einnig þ. 20.

Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Flestir dagar mánaðarins voru hlýrri en að meðaltali undanfarinn áratug en eftir miðjan mánuð kom kuldaskot sem varði í nokkra daga, auk þess sem hiti var aðeins undir meðallagi á landsvísu þ. 6 og 7.


Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Úrkoma

Mánuðurinn var úrkomusamur á Norður- og Austurlandi. Í þeim landshlutum var úrkoman vel yfir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 94,4 mm sem er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 77,5 mm sem er um 45% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 95,0 mm sem er 22% umfram meðallag.

Sérlega úrkomusamt var á Austfjörðum og á Ströndum og þar var mánuðurinn víða með blautari septembermánuðum sem vitað er um. 

Á Dalatanga mældist úrkoma mánaðarins 399,6 mm sem er meira en tvöföld meðalúrkoma í september og sú næstmesta sem mælst hefur þar í septembermánuði frá upphafi mælinga 1938. Úrkoma mældist meiri í september 1951 (429,8 mm).  Úrkoman mældist líka óvenjumikil á sjálfvirku veðurstöðvunum á Austfjörðum, t.d. á Fáskrúðsfirði (560,2 mm) og í  Neskaupstað (472,6 mm) sem er með mestu septemberúrkomu sem þekkist á þeim stöðvum.

Úrkoman á Litlu-Ávík á Ströndum mældist 243,8 mm sem er langt umfram meðallag þar og  mesta septemberúrkoma sem mælst hefur frá upphafi mælinga 1995. 

Dagar þegar úrkoma var 1,0 mm eða meiri voru 17 í Reykjavík, sem eru tveimur fleiri en venjulega. Á Akureyri mældist sólarhringsúrkoman 1,0 mm eða meiri 15 daga, sem er sex fleiri en í meðalári.

Vætutíð mánaðarins  fylgdu talsverðir vatnavextir, og eitthvað var um skriður og grjóthrun, mest þá á Austfjörðum.  En einnig gerði talsverð vatnsveður á Ströndum, á Vestfjörðum og á Suðausturlandi í mánuðinum. Mikið vatnsveður gerði í hvassviðri sem gekk yfir landið þ. 26. og þá fór t.a.m. þjóðvegur 1 í sundur á löngum kafla við Jökulsá í Lóni og víðar flæddi yfir vegi.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust 145,7 sólskinsstundir í mánuðinum. Það er 27,4 stundum yfir meðallagi 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar mældust 81,3 á Akureyri, en það er 9,2 stundum undir meðallagi.

Vindur

Meðalvindur á landsvísu var 0,2 m/s yfir meðallagi septembermánaða 1991 til 2020. Austan- og suðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var í miklu úrkomuveðri þ. 26. (suðsuðaustanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur var undir meðallagi um allt land í mánuðinum. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1001,0 hPa sem er 3,9  hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1032,6 hPa á Grundarfirði þ. 20. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 968,8 hPa á Keflavíkurflugvelli og í Grindavík þ. 26.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Í Stykkishólmi hefur meðalhiti janúar til septembermánaða aldrei mælst eins hár, en hann var 6,5 stig. Meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins í Reykjavík mældist 7,0 stig sem er 1,0 stigi yfir meðallagi 1991 til 2020 og jafnframt síðustu tíu ára. Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er ári raðast í 4. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til september 6,5 stig sem er 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Þar raðast meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins í 3. hlýjasta sæti á lista 145 ára.

Í Reykjavík mældist heildarúrkoma ársins hingað til 670,8 mm sem er 10 % umfram meðallag heildarúrkomu janúar til septembermánaða árin 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 397,4 mm, eða um 25% meiri úrkoma en að meðallagi sama tímabils þar.

Sumarið (júní til september)

 Meðalhiti sumarsins var 10,5 stig í Reykjavík. Það er 0,3 stigum yfir meðallagi sumranna 1991 til 2020 og 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu sumra. Meðalhiti sumarsins í Reykjavík er í  22. til 23. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 10,6 stig, eða 0,7 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020 og 0,5 stigum yfir meðallagi undanfarinna tíu sumra. Þar raðast sumarmeðalhitinn í 18. hlýjasta sæti á lista 145 ára.

Úrkoma mældist 237,8 mm í Reykjavík í sumar sem er nærri meðallagi áranna 1991 til 2020 og síðustu tíu ára. Sumarúrkoman mældist 192,4 mm á Akureyri, eða 29% umfram meðallag 1991 til 2020 og 10% umfram meðallag undanfarins áratugar. Dagar þegar úrkoma var 1,0 mm eða meiri voru 52 í Reykjavík (7 fleiri en í meðalári) en 40 á Akureyri (12 fleiri en í meðalári).

Sólskinsstundir sumarsins mældust 637,1 í Reykjavík sem er 18,6 stundum undir meðallagi sumranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 561,7 sólskinsstundir, eða 9,4 færri sólskinsstundir en í meðalári.

Meðalloftþrýstingur sumarsins var 1004,4 hPa í Reykjavík sem er 4,2 hPa undir meðallagi sumranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2025 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica