Landris heldur áfram í Svartsengi
Kvikugangurinn sem myndaðist 1. apríl sá stærsti síðan í nóvember 2023
Uppfært 8. apríl kl. 15:10
Áframhaldandi smáskjálftavirkni við kvikuganginn en fer hægt minnkandi
Skýr merki um að landris heldur áfram undir Svartsengi
Landris mælist hraðar núna en í kjölfar síðustu eldgosa
Of snemmt er að segja til um hvernig hraði kvikusöfnunar undir Svartsengi mun þróast.
Um 30 milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu 1. apríl sem gerir þetta stærsta kvikuhlaupið síðan 10. nóvember 2023.
Hættumat hefur verið uppfært og gildir til 15. apríl, að öllu óbreyttu.
Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum
Aflögunargögn sýna skýrt merki um að landris haldi áfram undir Svartsengi. Landris mælist nú hraðara en eftir síðustu eldgos. Það gæti skýrst af því hversu mikið rúmmál kviku fór úr kerfinu í þessum síðasta atburði.
Hins vegar er enn of snemmt að segja til um áframhaldandi þróun á hraða kvikusöfnunarinnar. Reynsla frá fyrri atburðum sýnir þó að hraði kvikusöfnunar minnkar yfirleitt eftir því sem líður á kvikusöfnunartímabilið milli gosa. Bíða þarf í allavega viku, mögulega nokkrar vikur, til að segja til um hvort og þá hversu mikið hraði kvikusöfnunar mun breytast.
Miðað við þau gögn sem liggja fyrir er ljóst að innflæði kviku undir Svartsengi heldur áfram og er því atburðarásinni á Sundhnúksgígaröðinni ekki lokið. Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og meta mögulegar sviðsmyndir út frá nýjustu gögnum.
Færslur á GPS-stöðinni SENG á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (7. apríl) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu átta eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. ágúst og 20. nóvember 2024 og 1. apríl 2025). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Kvikugangurinn sem myndaðist nú er sá stærsti síðan í nóvember 2023
Samkvæmt líkanreikningum fóru um 30 milljón rúmmetrar af kviku úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og yfir í kvikuganginn þann 1. apríl. Þetta gerir kvikuhlaupið það stærsta síðan 10. nóvember 2023. Áfram er að mælast smáskjálftavirkni á norðurhluta kvikugangsins sem myndaðist þann 1. apríl. Einnig mælast enn gikkskjálftar við Reykjanestá og vestur af Kleifarvatni. Dregið hefur úr aflögun í kringum norðurhluta kvikugangsins, en þó er áfram að mælast aflögun á GPS-stöðvum nær kvikuganginum og á gervitunglamyndum.
Hættumat uppfært
Hættumat hefur verið uppfært og gildir til 15. apríl að öllu óbreyttu. Breytingar hafa orðið á nánast öllum svæðum frá síðasta mati. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) fer úr mikilli hættu (rauð) niður í töluverða hættu (appelsínugul). Svæði 4 (Grindavík) og svæði 5, 6 og 7 færast úr töluverðri hættu (appelsínugul) niður í nokkra hættu (gul). Þrátt fyrir að hættustig á þessum svæðum hafi verið lækkað er enn talsverð hætta á jarðfalli ofan í sprungur. Svæði 1 er enn metið sem nokkur hætta (gul).

Uppfært 4. apríl kl. 14:25
Vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi
Jarðskjálftavirkni við kvikuganginn hefur farið minnkandi
Aflögunarmælingar sýna að enn mælast hreyfingar á GPS stöðvum í kringum norðurhluta kvikugangsins
Áfram nokkur óvissa um þróun næstu daga og ekki enn hægt að útiloka kvikuhreyfingar í ganginum
Gikkskjálftavirkni við Trölladyngju í gærkvöldi og nótt, stærsti skjálftinn mældist 4,0 að stærð
Hættumat hefur veriðuppfært, gildir til 8. apríl að öllu óbreyttu
GPS-mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Líklegast er það áframhaldandi kvikusöfnun undir Svartsengi sem veldur landrisinu en hluti þess er vegna áhrifa frá myndun kvikugangsins þann 1. apríl. Það er vegna þess að þegar kvikugangar myndast þrýsta þeir jarðskorpunni frá sér til beggja hliða. Að svo stöddu er því erfitt að meta hraða kvikusöfnunar og mögulega þarf að bíða í allt að viku til að meta frekari þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi.
Aflögunarmælingar sýna einnig að enn mælast hreyfingar á GPS-stöðvum í kringum norðurhluta kvikugangsins, m.a. í Vogum og við Keili. Gervitunglamyndir sem sýna breytingar á milli 2. og 3. apríl kl. 16 staðfesta hreyfingar á þessu svæði. Sömu gögn sýna einnig mælanlegar sprunguhreyfingar, um nokkra millimetra, í austurhluta Grindavíkur.
Gröfin sýna 8 klst lausnir fyrir GPS-stöðvarnar SENG sem staðsett er í Svartsengi og VOGC sem er í Vogum. Gögnin sýna færslur í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Á lóðréttum færslum á SENG má sjá vísbendingar um að landris sé hafið eftir töluvert landsig þegar kvika hljóp yfir kvikuganginn þann 1. apríl. Gögnin frá VOGC sýna enn færslur í tengslum við norðurhluta kvikugangsins en stöðin er í tæplega 7 km fjarlægð frá honum.
Minnkandi skjálftavirkni en enn aflögun og smáskjálftavirkni til staðar
Jarðskjálftavirkni yfir norðurhluta kvikugangsins fer áfram minnkandi en enn mælast þó smáskjálftar á svæðinu. Síðastliðna nótt og í morgun mældust um það bil 20 til 30 skjálftar á klukkustund, flestir undir M1.0 að stærð, þegar virknin var mest mældust yfir 100 skjálftar á klukkustund. Skjálftarnir dreifast flestir á svæðið frá Stóra-Skógfelli í suðri og norður fyrir Keili. Dýpi skjálftanna mælist að mestu leyti á bilinu 4 til 6 kílómetrar og hefur það haldist stöðugt síðustu daga.
Langstærstur hluti kvikunnar sem fór úr Svartsengi liggur í kvikuganginum sem myndaðist þann 1. apríl og sums staðar á um 1,5 km dýpi skv. líkanreikningum. Enn mælist aflögun vegna kvikugangsins og smáskjálftavirkni í norðurhluta hans áfram óvenjulega mikil, þrátt fyrir að hún hafi farið minnkandi. Í ljósi þessa er áfram nokkur óvissa um þróun næstu daga og ekki enn hægt að útiloka kvikuhreyfingar í ganginum.
Kortið sýnir staðsetningu allra yfirfarinna jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Á kortinu eru einnig sýndar fyrstu niðurstöður um áætlaða legu kvikugangsins sem nær frá Grindavík í suðri að svæðinu sem er um 3 km NV við Keili. Bláu súlurnar sýna fjölda skjálfta, bæði yfirfarna og óyfirfarna, á hverri klukkustund síðan að morgni 1. apríl. Þar sést að fjöldi skjálfta hefur farið nokkuð minnkandi síðasta sólarhring. Neðsta grafið sýnir stærðir jarðskjálftanna og sýnir að áfram dregur úr stærð þeirra. Dekkri hringir sýna stærðir yfirfarinna skjálfta en ljósari óyfirfarnar niðurstöður.
Hrina við Trölladyngju líklega gikkskjálfti
Í gær, kl. 17:30 síðdegis þann 3. apríl hófst töluverð jarðskjálftahrina við Trölladyngju, norðvestan við Kleifarvatn. Um kl. 23 mældist stærsti skjálftinn í þeirri hrinu, M4,0 að stærð. Frá því hrinan hófst hafa sex skjálftar mælst yfir þremur að stærð. Veðurstofunni barst fjöldi tilkynninga um að þeir hafi fundist í byggð. Eftir miðnætti hefur virkni á svæðinu farið minnkandi. Líklegast er að jarðskjálftarnir við Trölladyngju séu gikkskjálftar vegna spennubreytinga í kjölfar myndunar kvikugangsins þann 1. apríl. Áfram er möguleiki á því að gikkskjálftar af svipaðri stærð og í gærkvöldi verði á nærliggjandi svæðum eins og Trölladyngju og Reykjanestá á næstu dögum og vikum.
Hættumat óbreytt
Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og heildarhætta á öllum svæðum er óbreytt frá síðustu útgáfu. Hættumatið gildir að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 8. apríl.
Hraunbreiðan um 0,23 km2 að flatarmáli og meðalþykkt um 1,7 m.
Búið er að vinna úr gögnum sem sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar söfnuðu í mælingaflugi yfir gosstöðvarnar síðdegis 1. apríl og eru niðurstöðurnar sýndar á meðfylgjandi korti. Hraunbreiðan sem myndaðist á þeim 6 klukkustundum sem gosið stóð yfir var um 0,23 km2 að flatarmáli og meðalþykkt um 1,7 m.
Uppfært 3. apríl kl. 14:40
Atburðinum er ekki lokið því áfram mælist nokkur fjöldi smáskjálfta á norðurhluta kvikugangsins
Ólíklegra með tímanum að ný gosopnun myndist yfir norðausturhluta kvikugangsins
Enn töluverð óvissa um framhald þessa atburðar á meðan enn mælist mikill fjöldi smáskjálfta á norðurenda kvikugangsins
Kvikuflæði undan Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina orðið það lítið að landsig mælist ekki lengur
Aflögunarmælingar á næstu dögum og vikum munu varpa ljósi á hvernig kvikusöfnunin undir Svartsengi þróast
Aflögunarmælingar sýna að nyrsti hluti kvikugangsins hefur náð að svæðinu tæplega 4 km norðan við Keili
Greining á vefmyndavélum, myndböndum úr drónaflugi og gasmælingum sýna að eldgosið sem hófst kl. 9:44 að morgni 1. apríl lauk um kl. 16:45 sama dag. Eldgosið stóð í rétt yfir í um 6 klst sem gerir það stysta eldgosið í þessari goshrinu á Sundhnúksgígaröðinni.
Hins vegar er atburðinum ekki lokið því áfram mælist nokkur fjöldi smáskjálfta á kvikuganginum, aðallega norður af Stóra- Skógfelli þó dregið hefur úr virkninni síðustu 12 klukkustundirnar. Lítil skjálftavirkni mælist á suðurhluta kvikugangsins.
Jarðskjálftavirkni við Reykjanestá, Eldey og Trölladyngju hefur einnig minnkað, en þar hefur verið gikkskjálftavirkni síðustu sólarhringa.
Kortið sýnir staðsetningu allra yfirfarinna jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Bláu súlurnar sýna fjölda skjálfta á hverri klukkustund síðan að morgni 1. apríl. Þar sést að fjöldi skjálfta er enn töluverður, en grafið fyrir neðan sýnir stærðir jarðskjálftanna sem sýnir að dregið hefur nokkuð úr stærð skjálftanna síðasta sólarhring.
Ólíklegra með tímanum að ný gosopnun myndist
Landsig í Svartsengi mælist ekki lengur sem bendir til að kvikuflæði frá Svartsengi yfir í kvikuganginn sé orðið það lítið að aflögun vegna þess mælist ekki á GPS stöðvum á yfirborði.
Það verður ólíklegra með tímanum að ný gosopnun myndist yfir norðausturhluta kvikugangsins, þó er enn töluverð óvissa um það á meðan enn mælist mikill fjöldi smáskjálfta á svæðinu. Þetta mat er byggt á því að landsig mælist ekki í Svartsengi og því er kvikuflæði inní ganginn orðið lítið. Einnig er meirihluti kvikunnar nú þegar farinn úr Svartsengi yfir í kvikuganginn og því er ólíklegt að nægur þrýstingur sé til staðar svo kvika geti brotið sér leið til yfirborðs.
Aflögunarmælingar á næstu dögum og vikum munu varpa ljósi á hvernig kvikusöfnunin undir Svartsengi þróast.
Hættumat sem gefið var út í gær 2. apríl er í gildi til kl. 15:00 á morgun 4. apríl að öllu óbreyttu.
Skýr aflögun við norðurenda kvikugangsins nýja
Aflögunarmælingar sýna að nyrsti hluti kvikugangsins liggur á svæði tæplega 4 km norðan við Keili. Út frá gervitunglamyndum og líkanreikningum má sjá að kvikugangurinn komst næst yfirborði um 5 km NA við Stóra-Skógfell, en þar liggur efri hluti hans á um 1,5 km dýpi.
Gervitunglamyndir sýna einnig sprunguhreyfingar yfir norðurhluta kvikugangsins á svæðinu norðaustan við Litla-Skógfell.
Einnig sjást sprunguhreyfingar innan Grindavíkurbæjar, þó á nokkuð minni en urðu í tengslum við eldgosið í janúar 2024. Einnig mældust sprunguhreyfingar á Reykjanestá í kjölfar jarðskjálfta sem var M5.3 að stærð og varð síðdegis þann 1.apríl.
Bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun á yfirborði á milli 31. Mars og 2. apríl. Hvít brotalína sýnir áætlaða legu kvikugangsins sem myndaðist 1. apríl og hvítar línur sýna hvar sprunguhreyfingar (>1 cm) á yfirborði mældust. Vísbendingar eru um minni sprunguhreyfingar á stærra svæði. Mesta aflögunin hefur mælst á svæðunum þar sem lituðu línurnar eru þéttastar. Það er í Svartsengi þar sem land seig um u.þ.b. 25 cm og síðan sitt hvorum megin við norðurhluta kvikugangsins. Grá þekja sýnir útlínur þeirra hraun sem hafa myndast frá því að goshrinan hófst í desember 2023, en appelsínugul þekja sýnir hraunbreiðuna sem myndaðist í eldgosinu 1. apríl.
Uppfært kl. 14:50
- Ekki hefur sést virkni í gossprungunni síðan síðdegis í gær en glóð logar enn í nýja hrauninu
- Kvikugangurinn sem myndaðist í gær er hátt í 20 km langur og sá lengsti frá því jarðhræringar hófust í nóvember 2023
- Síðan í gærmorgun hefur land sigið yfir 25 cm á GPS-stöðinni í Svartsengi (SENG) og heldur áfram að síga þótt hægt hafi mikið á því
- Um 90% af kvikunni sem hafði safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi, frá lokum síðasta goss í desember 2024, hefur nú þegar farið yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gær, 1. apríl.
- Talið er ólíklegra með tímanum að ný gosop verði yfir kvikuganginum, þótt ekki sé hægt að útiloka það vegna þess að enn mælist töluverð smáskjálftavirkni á svæðinu
- Í tengslum við sprungumyndanir innan Grindavíkur mældust færslur á nokkrum GPS-stöðvum innan bæjarins
- Hættumat uppfært, gildir til 4. apríl klukkan 15:00, að öllu óbreyttu
Engin virkni hefur verið á gossprungunni frá því síðdegis í gær en glóð logar enn í nýja hrauninu og er svæðið óstöðugt og varasamt. Mælingar sýna að rúmmál þess hrauns sem myndaðist í gær var um 0,4 milljón m3. Mælingin er byggð á gögnum sem sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar söfnuðu í mælingaflugi yfir gosstöðvarnar síðdegis í gær. Hraunbreiðan sem myndaðist er sú minnsta sem hefur myndast frá því að goshrinan á Sundhnúksgígaröðinni hófst í desember 2023. Rúmmálið er um 1/6 af rúmmáli hraunbreiðunnar sem myndaðist í eldgosinu í janúar 2024 sem er næst minnsta eldgosið.
Kortið sýnir útbreiðslu hraunsins sem myndaðist í eldgosinu í gær. Kortið er byggt á mælingum Náttúrufræðistofnunar.
Þótt hraunbreiðan sé sú minnsta hingað til er kvikugangurinn sem myndaðist í gær hins vegar hátt í 20 km langur og sá lengsti sem hefur myndast frá því að jarðhræringar hófust í nóvember 2023. Því má gera ráð fyrir því að langstærsti hluti kvikunnar sem fór úr kvikuhólfinu undir Svartsengi, eða um 90% af kvikunni sem hafði safnast frá lokum síðasta goss í desember 2024, hafi farið í að mynda kvikuganginn og aðeins lítill hluti komið uppá yfirborðið norðan við Grindavík.
Dregið úr jarðskjálftavirkni og aflögun frá því í gærkvöldi
Síðan í gærmorgun hefur land sigið yfir 25 cm
á GPS stöðinni í Svartsengi (SENG). Nýjustu GPS mælingar síðan kl. 8 í morgun
sýna að land heldur áfram að síga en mikið hefur hægt á því. Meirhluti
kvikunnar sem var búinn að safnast frá síðasta eldgosi hefur nú þegar farið úr
Svarstsengi yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gær.
Grafið
sýnir 4 klst lausnir fyrir GPS stöðina SENG sem staðsett er í Svartsengi.
Gögnin sýna færslur í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst).
Í tengslum við sprungumyndanir innan Grindavíkur mældust færslur á nokkrum GPS stöðvum innan bæjarins. Mestu færslurnar voru í austurhluta bæjarins og sem dæmi þá mældust lóðréttar færslur um rúma 10 cm og láréttar færslur um 5-8 cm á GPS stöð á Austurvegi. Í vesturhluta bæjarins mældist lárétt færsla um 6 cm á GPS stöð í vesturjaðri bæjarins. Heildarfærsla innan Grindavíkur síðan atburðurinn hófst í gærmorgun er í mesta lagi um 50 cm sem dreifist á nokkrar sprungur innan bæjarins.
Frá því að kvikuhlaupið hófst um kl. 6:30 í gærmorgun hafa um 2400 jarðskjálftar mælst í tengslum við kvikuganginn sem myndaðist. Kvikugangurinn lengdist stöðugt til norðausturs þangað til um kl. 21 í gærkvöldi. Síðan þá hefur virknin skorðast við svæðið norðan við Fagradalsfjall og norður fyrir Keili. Áfram mælist þó nokkur smáskjálftavirkni og hefur dregið nokkuð úr stærð skjálftanna miðað við í gær eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Aflögunarmælingar sýna skýr merki um að kvikugangurinn hafi náð norður fyrir Keili, í samræmi við þróun jarðskjálftavirkninnar.
Skjálftavirkni yfir kvikuganginum frá því k. 06:30 1.apríl þar til kl. 12:00 2.apríl. Efst til hægri sýnir stærð skjálfta, miðju grafið sýnir fjölda skjálfta á klukkustund. Neðsta grafið til vinstri sýnir breiddargráðu skjálftana og grafið hægra megin lengdargráðu skjálftanna.
Talið ólíklegra með
tímanum að ný gosopnun verði
Miðað við þróun virkninnar á suðurhluta kvikugangsins, þ.e. að engin gosvirkni og lítil jarðskjálftavirkni, verður að teljast ólíklegt að gosið sem hófst í gær nái sér á strik aftur. Varðandi norðausturhluta kvikugangsins verður það einnig teljast ólíklegra með tímanum að ný gosopnum verði þar, þótt ekki sé hægt að útiloka það vegna þess að enn mælist töluverð smáskjálftavirkni á svæðinu.
Aflögunarmælingar næstu daga munu gefa skýrari mynd af því hvort enn flæði kvika yfir í kvikuganginn úr Svartsengi og hvernig þróun á kvikusöfnun undir Svartsengi verður.
Hættumat hefur verið uppfært og gildir til kl.
15:00 á föstudaginn 4. apríl, að öllu óbreyttu. Helstu breytingar eru á svæði 3
(Sundhnúksgígaröðin) þar sem heildarhætta er nú metin mikil (rautt) en var áður
mjög mikil (fjólublátt). Á svæði 4 (Grindavík) fer hættan í töluverða hættu
(appelsínugult) úr mikilli hættu (rautt) þar sem líkur á gosopnun eru taldar
lægri en í gær. Á svæði 6 er heildarhætta nú metin töluverð (appelsínugult) en
var áður mikil (rautt).
(Smellið á kortið til að stækka)
Jarðskoðun og könnun á sprungum innan Grindavíkur er ekki á forræði Veðurstofunnar,en vert er að benda á að gögn úr GPS mælum Veðurstofunnar benda til sprunguhreyfinga innan Grindavíkur í vegna kvikugangsins sem myndaðist 1. apríl.
Hættumatskort Veðurstofunnar tekur ekki tillit til þeirrar áhættu sem felst í því að fara inn á svæðin sem tilgreind eru, en Veðurstofan bendir á áhættumat framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur og tilmæli lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Uppfært kl. 21.40
Af vefmyndavélum að dæma er enga gosvirkni að sjá á sprungunni sem opnaðist í morgun rétt norður af Grindavík. Einungis örlítil glóð greinist hér og þar á gosprungunni og í hraunbreiðunni.
Áfram mælist þó skjálftavirkni og aflögun vegna kvikuhreyfinga á norðaustur enda kvikugangsins sem myndaðist í dag. Í heildina hefur skjálftavirkni mælst á um 20 km löngu svæði, mælt frá suðurenda gossprungunnar að þeim stað þar sem skjálftavirknin er mest núna.
Skjálftavirknin er enn á talsverðu dýpi og engin merki eru um að kvikan sem er á ferðinni sé að leita til yfirborðs. Samkvæmt líkanreikningum síðdegis í dag var áætlað að um 15 milljónir rúmmetra af kviku höfðu þá hlaupið frá Svartsengi yfir í kvikuganginn undir Sundhnúksgígaröðinni og aðeins brot af því magni hefur skilað sér til yfirborðs. Áður en gos hófst höfðu um 22 milljónir rúmmetra bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi frá síðasta eldgosi og því er mögulegt að enn sé innistæða fyrir frekari kvikuhreyfingum.
Á meðan áfram mælist jarðskjálftavirkni og aflögun í kvikuganginum þarf að reikna með að ný gossprunga gæti opnast. Líklegast er að sú opnun yrði á þeim slóðum þar sem skjálftavirknin er mest núna. Ef til gosopnunar kæmi er mögulegt að því fylgi talsverð skjálftavirkni sem til að mynda íbúar í Vogum yrðu varir við.
Kort sem sýnir yfirfarna skjálfta á Reykjanesskaganum frá því kl. 6 í morgun, 1. apríl.
Uppfært kl. 17:00
Áfram hefur dregið úr eldgosinu norðan við Grindavík og sést lítið til virkni á vefmyndavélum og í nýlegu drónaflugi. Hinsvegar heldur jarðskjálftavirkni áfram.
Dregið hefur úr skjálftavirkni við suðurhluta kvikugangsins, nærri Grindavík, en virknin á norðurenda kvikugangsins heldur áfram af svipuðu krafti og hefur færst enn norðar síðustu klukkustundir.
Skjálftavirknin er komin tæpa 9
km norðar en nyrsta gossprungan í þessari goshrinu sem myndaðist í ágúst 2024. Stærstu
skjálftarnir hafa verið um 3 að stærð og finnast greinilega í Vogum sem er um 7
km NV við virknina.
Aflögunarmælingar sýna að kvika er enn að flæða frá Svartsengi yfir í kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni. Jarðskjálftavirknin bendir til þess að kvikan sé að færast til norðausturs.
Skjálftavirknin er á um
4-6 km dýpi og unnið er að því að greina aflögunargögn á því svæði. Á meðan
jarðskjálftavirkni er enn töluverð og aflögun mælist ennþá þarf að gera ráð fyrir
þeim möguleika að kvika komist aftur upp á yfirborðið á Sundhnúksgígaröðinni
eða nærri því svæði sem skjálftavirkni er mest.
Kortið sýnir útbreiðslu hraunsins, eins og hún var kl. 12:34, sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst í morgun. Kortið er byggt á Iceye gervitunglamynd.
Hættumat hefur verið uppfært og gildir til 15:00 á morgun, 2. apríl – að öllu óbreyttu.
Áfram er hætta á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) metin mjög mikil (fjólublá). Á svæði 4 (Grindavík) fer hætta niður í mikla hættu (rauð) vegna þess að hætta vegna gjósku og gasmengunar hefur verið færð niður.
Einnig hefur orðið breyting á hættumati fyrir á svæði 7 og 5 og fer úr nokkurri hættu (gul) í töluverða hættu (appelsínugul) vegna núverandi jarðskjálftavirkni norðaustur enda kvikugangsins.

Uppfært kl. 14:30
Samkvæmt vefmyndavélum virðist virkni eldgossins hafa minnkað mikið síðasta klukkutímann.
Skjálftavirknin er áframhaldandi en er að mestu leyti staðsett við norðuraustur og suðurvestur enda kvikugangsins.
Aflögunarmælingar
sýna enn áframhaldandi færslu til norðausturs, sem bendir til þess að kvika sé
enn að flæða í kvikuganginn.
Uppfært kl. 12:30
Heildarlengd gossprungunnar er nú um 1200 m. og heldur áfram að lengjast til suðurs.
Veðurstofunni barst tilkynning að heitavatnslögn hafi farið í sundur norðarlega í Grindavík. Þetta staðfestir að talsverðar sprunguhreyfingar hafa orðið innan bæjarins.
Áframhaldandi skjálftavirkni mælist á kvikuganginum öllum, en mesta skjálftavirknin er á norðaustur enda gangsins. Kvikugangurinn nær núna rúmum 3 km lengra í norðaustur heldur en sést í fyrri gosum. Aflögunargögn sýna einnig áframhaldandi færslur til norðausturs. Þetta bendir til þess að kvikan sé enn á hreyfingu um kvikuganginn.
Skjálftavirkni frá því klukkan 4 í morgun, 1. apríl.Uppfært kl. 11:20
Sprungan hefur lengst til suðurs. Ný gossprunga
opnaðist nokkur hundruð metra innan við varnargarða norðan Grindavíkur - milli
varnargarða og Grindavíkur. Sprungan heldur áfram að lengjast og nálgast
nú sprunguna sem að opnaðist í eldgosinu í janúar 2024.
Nýja gossprungan er lengst til vinstri.
Spá veðurvaktar er suðvestanátt og blæs gasi
til norðausturs í dag (þriðjudag), m.a. yfir höfuðborgarsvæðið. Lægir í kvöld,
en þá verður gasmengunin einkum í grennd við gossprunguna. Í fyrramálið
(miðvikudag) gengur í norðvestan- og síðar vestanátt og gasið best því til
suðausturs og síðar til austurs, m.a. yfir Þorlákshöfn og Ölfus.
Gasdreifingarspá má finna hér.
Skjálftavirkni mælist áfram við suður enda
kvikugangsins og einnig norðan Stóra-Skógfells. Einnig hafa skjálftar verið að mælst
við Reykjanestána en þeir eru líklega gikkskjálftar
sem verða vegna spennulosunar vegna virkninnar við Sundhnúksgígaröðina.
Uppfært kl. 10:35
Fyrstu fréttir úr eftirlitsflugi Langhelgisgæslunnar segja að sprungan er nú um 700 metrar og hefur haldist nokkuð stöðug en þó er ekki hægt að útiloka að hún geti lengst til norðurs eða suðurs.
Skjálftavirkni og aflögunarmælingar sýna áframhaldandi virkni.
Hættumat hefur verið uppfært, hættustig aukið á Sundhnúksgígaröðinni (Svæði 3) í mjög mikla hættu (fjólublátt) og í Grindavík (svæði 4) úr mikilli hættu (rautt) í mjög mikla hættu (fjólublátt). Hættumatið gildir til 2. apríl klukkan 10:30, að öllu óbreyttu.
Uppfært kl. 10:00
Sprungan er nú um 500 metrar hefur nú náð í gegnum varnargarðinn sem er norður af Grindavík. Sprungan heldur áfram að lengjast og er ekki hægt að útiloka að hún haldi áfram að opnast til suðurs.
Enn er beðið eftir fréttum úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Brotalínurnar sýna sprunguna sem er um 500 m. eins og staðan er núna.
Uppfært kl. 9.45
Eldgos er hafið rétt fyrir norðan varnargarðinn við Grindavík.
Þyrla
Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta
nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins.
Lengd kvikugangsins undir Sundhnúksgígaröðinni sem þegar hefur myndast er um 11 km sem er það lengsta sem hefur mælst síðan 11. nóvember 2023.
Nánari upplýsingar verðar aðgengilegar fljótlega.
Miðað við vindátt núna mun gasmengun frá eldgosinu berast í norðaustur í átt að höfuðborgarsvæðinu. Ekki er hægt að segja til um styrkleika mengunarinnar. Hér er hlekkur á gasdreifingarspá Veðurstofunnar.Uppfært kl. 8.20
Merki frá aflögunarmælum eru sterkari en sést hafa í síðustu atburðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það sýnir að talsvert magn kviku er á ferðinni.
Merkin sem sjást sýna að kvikan er að hreyfa sig bæði til norðausturs en einnig til suðurs í átt að Grindavík. Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða um hvar kvikan muni koma upp, en færslan á aflögunarmerkjum til suðurs sáust til að mynda ekki í eldgosinu sem hófst í nóvember 2024.
Viðbragðsaðilar í Grindavík segjast finna fyrir jarðskjálftum í bænum og þar sjást einnig merki um aflögun og því mögulegt að sprunguhreyfingar geti átt sér stað innan bæjarins.
Uppfært kl. 7.25
Áköf jarðskjálftahrina hófst kl. 6.30 í morgun á Sundhnúksgígaröðinni. Skjálftahrinan er staðsett á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells. Skjálftavirknin er á svipuðum slóðum og sést hefur í aðdraganda síðustu eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni.
GPS mælingar og þrýstingsmælingar í borholum sýna einnig skýrar breytingar sem benda til þess að kvikuhlaup sé hafið.
Engin kvika er komin upp á yfirborðið en miðað við þau merki sem sjást á mælum er líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið.
Fréttin verður uppfærð.