
Ný rannsókn sýnir að rýrnun jökla á jörðinni herðir á sér
Rýrnun íslensku jöklanna er örari en víðast hvar annars staðar
Samkvæmt rannsókn,sem birt er í dag í vísindaritinu Nature, hafa jöklar jarðar, að frátöldum stóru ísbreiðunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu, að meðaltali rýrnað um 273 milljarða tonna af ís árlega frá síðustu aldamótum. Rýrnunin samsvarar 273 rúmkílómetrum vatns.
Rannsóknin sýnir að þessi þróun herðir jafnt og þétt á sér, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þannig að árleg rýrnun síðustu tíu árin er mun hraðari en árlega rýrnunin á fyrsta áratug aldarinnar. Rýrnunin er mismunandi eftir svæðum, frá um 2% fyrir jökla í grennd við Suðurskautslandið upp í 39% fyrir jökla í Mið-Evrópu. Jöklar utan stóru heimskautaísbreiðanna rýrna samtals um 18% hraðar en Grænlandsjökull og um tvöfalt hraðar en Suðurskautsjökullinn og áhrif þeirra á sjávarstöðu eru sem því nemur mikilvægari en framlag stóru heimskautajöklanna.
Um síðustu aldamót þöktu jöklar á jörðinni, að frátöldum ísbreiðunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu, 705 þúsund ferkílómetra og geymdu 122.000 milljarða tonna af ís. Á síðustu rúmum tveimur áratugum hafa jöklarnir rýrnað um 5% að rúmmáli.
Hér er tilraun til að sýna 1 rúmkílómetra vatns í formi kúlu. Kúlan er 1.240 metrar í þvermál og næði um 360 m upp fyrir hábungu Esjunnar ef kúlan væri staðsett í sömu hæð og Hallgrímskirkja. Árleg rýrnun jökla á jörðinni samsvarar vatnsmagninu í 273 slíkum kúlum.
Víðtækar afleiðingar fyrir vatnafar og sjávarborð heimshafanna
Jöklar utan stóru heimskautaísbreiðanna rýrnuðu um 6500 milljarða tonna af ís á árunum 2000 til 2023 sem leiddi til 18 mm hækkunar á sjávarborði heimshafanna.
Hraði rýrnunarinnar jókst umtalsvert á þessu tímabili, frá 231 milljarði tonna á ári að meðaltali á fyrri helmingi tímabilsins í 314 milljarða tonna á ári á síðari helmingnum. Framlag þessara jökla er næst stærsti þáttur sem leggur til hækkunar heimshafanna á eftir hitaþenslu vegna hlýnunar sjávar.
Afrennsli frá jöklum er mikilvægur þáttur í vatnafari víða á jörðinni, sérstaklega í Mið-Asíu og á ákveðnum svæðum í Andesfjöllum þar sem leysingarvatn frá jöklum heldur uppi afrennsli á hlýjum og þurrum tímabilum ársins. Þegar til lengri tíma er litið og jöklarnir hafa rýrnað mikið er fyrirsjáanlegt að þetta afrennsli mun minnka umtalsvert sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir landbúnað og almennt fyrir öflun vatns til margs konar nota.

Afkoma allra jökla á jörðinni að frátöldum stóru ísbreiðunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu á tímabilinu 2000 til 2023. Súlurnar sýna árlega meðaltalsrýrnun jöklanna í mm (vatnsgildi) og svarti ferillinn sýnir uppsafnað massatap (í gígatonnum) frá aldamótum.
Afkoma jökla á Svalbarða á tímabilinu 2000 til 2023.
Afkoma jökla í Mið-Evrópu frá tímabilinu 2000 til 2023. Sjá skýringar við fyrri mynd.
Strandsvæði Grændlands á tímabilinu 2000 til 2023. Sjá skýringar við fyrri mynd.
Rýrnun íslensku jöklanna er með örasta móti
Árlegar afkomumælingar á íslensku jöklunum frá Jarðvísindastofnun Háskólans, Veðurstofunni og Landsvirkjun voru meðal gagna sem rannsóknin byggir á auk margvíslegra fjarkönnunargagna. Niðurstöður allra þessara mælinga voru samtúlkaðar og lagt mat á árlega rýrnun jökla á mismunandi svæðum jarðarinnar á tímabilinu 2000 til 2023.
Niðurstöðum mismunandi mæliaðferða fyrir íslensku jöklana ber vel saman og samtúlkaðar gefa þær til kynna að þeir hafi rýrnað að meðaltali um 8,3 milljarða tonna á ári á tímabilinu 2000 til 2023, sem samsvarar því að þeir hafi þynnst sem nemur um 93 cm að meðaltali á ári, og er það í góðu samræmi við mælingar hér á landi.
Í nokkrum tilvikum er þó marktækur munur á niðurstöðum Glambie og íslenskum mælingum, t.d. fyrir árið afkomuárið 2021–2022, sjá íslensku jöklavefsjána (undir „Línurit/Afkoma“). Sjá einnig í fréttabréfi „Hörfandi jökla“.
Rýrnun íslensku jöklanna er með örari en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Einungis nýsjálensku jöklarnir, jöklar í sunnanverðum Andesfjöllum og jöklar í Mið-Evrópu rýrnuðu hraðar á þessu árabili.
Athyglisvert er að rýrnun íslensku jöklanna reynist heldur hægari eftir 2010 en á fyrsta áratug aldarinnar, sbr. meðfylgjandi mynd. Talið er að þessi þróun sé af völdum staðbundinnar kólnunar við Ísland sem tengist breytingum á vindafari á N-Atlantshafssvæðinu. Þessu er öfugt farið með jökla á öðrum landsvæðum við N-Atlantshaf en þar hefur rýrnunin hert mjög á sér eins og sjá má af meðfylgjandi myndum sem sýna þróunina fyrir jökla á Svalbarða, í Mið-Evrópu og á strandsvæðum Grænlands. Rýrnun jökla á Svalbarða og í Mið-Evrópu síðustu árin hefur verið sérstaklega hröð og margfalt hraðari en á fyrsta áratug aldarinnar.

Afkoma íslenskra jökla á tímabilinu 2000 til 2023.
Alþjóðlegt samstarf um samanburð á afkomu jökla
Ofangreindar niðurstöður um afkoma jökla á jörðinni eru afrakstur alþjóðlegs samstarfsverkefnis jöklafræðinga sem nefnist Glambie (e. Glacier Mass Balance Intercomparison Exercise).
Glambie er umfangsmikið rannsóknarverkefni sem stjórnað er af World Glacier Monitoring Service (WGMS) stofnuninni við Háskólann í Zürich í samstarfi við Háskólann í Edinborg og fleiri rannsóknarstofnanir, m.a. Veðurstofuna og Jarðvísindastofnun Háskólans, með það að markmiði að leggja heildstætt mat á rýrnun jökla á jörðinni.
Í verkefninu störfuðu
saman 35 hópar jöklavísindamanna sem söfnuðu saman milli 200 og 300 niðurstöðum
rannsókna á afkomu jökla á ákveðnum svæðum jarðarinnar byggðum á margs konar
mælitækni, beinum afkomumælingum á jörðu niðri og fjarkönnun með ljósmyndum,
radar, leysimælingum og þyngdarmælingum. Meðal annars voru notaðar mælingar með
bandarískum Terra/ASTER og ICESat-2 gervihnöttum, bandarísk/þýskum GRACE
gervihnöttum, þýskum TanDEM-X gervihnöttum og evrópskum CryoSat gervihnöttum.
Árið 2025 tileinkað jöklum á hverfanda hveli
Rannsóknin sem birtist í Nature er mikilvægur þáttur í átaki Sameinuðu þjóðanna til þess að vekja athygli á jöklum og jöklabreytingum en árið 2025 er tileinkað „jöklum á hverfanda hveli“ og alþjóðlegu átaki í jöklarannsóknum sem nú er í undirbúningi og standa mun á árunum 2025 til 2034.