Fréttir
Frávik í loftmeðalhita árið 2024, miðað við meðaltal fyrir viðmiðunar tímabilið 1991–2020. Ólínulegt litakerfi er notað til að auka sýnileika minni frávika og aðgreina stærri frávik. Gögn: ERA5. Höfundur: C3S/ECMWF.

Árið 2024 var heitasta ár sögunnar og fyrsta árið með meðalhita yfir 1,5°C

Metár hnattræns hita staðfest. Áhrif gróðurhúsalofttegunda, El Niño og sjávarhiti marka veðurfarsbreytingar ársins

10.1.2025

Árið 2024 er hlýjasta ár síðan mælingar hófust og fyrsta árið þar sem meðalhiti er 1,5 °C hærri en hann var fyrir iðnbyltingu.

Losun gróðurhúsalofttegunda er meginorsök mikils loft- og sjávarhita, en aðrir þættir, s.s. El Nino-veðurfarsveiflan lagði einnig til óvenjumikils hita á síðasta ári.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu veðurfarsþjónustu Kópernikus (C3S), sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins en er rekin af Reiknisetri evrópskra veðurstofa (ECMWF). Vísindamenn á vegum stofnunarinnar hafa vaktað veðurfarstengdar breytingar á árinu, m.a. óvenjulega mikla hita, sem birtust m.a. í dægurhitametum, mánaðar- og ársmetum.

Mynd1_hnattraenhlynun

Hnattræn hlýnun á heimsvísu (°C) umfram meðaltal fyrir viðmiðunartímabilið fyrir iðnbyltingu (1850–1900), byggt á nokkrum gagnasöfnum um hitastig á heimsvísu. Mynd til vinstri sýnir þetta sem ársmeðaltöl frá 1967. Mynd til hægri sýnir þetta sem fimm ára meðaltöl frá 1850. Höfundur: C3S/ECMWF.


Hér hafa verið tekin saman markverðustu tíðindin í veðurfarstengdum breytingum.

Hnattrænn meðalhiti

  • 2024 var hlýjasta árið í gögnum sem ná aftur til 1850. Byggt á ERA5 [1] gagnasafninu var hnattrænn meðalhiti 15,10 °C sem var 0,72°C yfir meðaltali áranna 1991 – 2020 og 0,12°C heitara en árið 2023 sem einnig var metár. Árið var 1,6 °C yfir meðalhita áranna 1850 – 1900 en það tímabil er notað til að áætla hnattrænan hita fyrir iðnbyltingu.
  • Árið 2024 er fyrsta árið þar sem meðalhitinn er meira en 1,5 °C heitari en fyrir iðnbyltingu.
  • Hnattrænn meðalhiti var yfir þessum mörkum 11 mánuði á síðasta ári, og í raun hafa allir mánuðir frá júlí 2023, nema júlí 2024, verið yfir þessum mörkum.
  • Heitasti dagur sögunnar átti sér stað þann 22. júlí 2024 en þá var hnattrænn meðalhiti 17,16°C.
  • Öll ár á síðasta áratug (2015 – 2024) eru meðal hlýjustu tíu ára síðan 1850.
  • Árið var metár á öllum meginlöndum, nema á Suðurskautslandinu og í Ástralíu. Einnig var mjög hlýtt víða um heimshöfin.
  • Hitamet var slegið þrjár árstíðir í röð, vetur á norðurhveli (desember 2023 til febrúar 2024), auk vors (mars til maí) og sumars (júní til ágúst) á norðurhveli. Árstíðirnar - vetur, vor og sumar - voru 0,78°C, 0,68°C og 0,69°C yfir meðaltali áranna 1991 – 2020.
  • Í janúar til júní 2024 var slegið mánaðarhitamet, ágústmánuður jafnaði mánaðarhitamet ágúst 2023, en aðrir mánuðir ársins voru þeir næstheitustu, á eftir árinu 2023.
Hnattraen-fravik-arid-2024

Hnattræn frávik yfirborðshita (°C) á heimsvísu árið 2024 miðað við meðaltal áranna fyrir viðmiðunartímabilið fyrir iðnbyltingu (1850–1900) fyrir hvern mánuð frá janúar 1940 til desember 2024, teiknuð sem tímaraðir fyrir hvert ár. Árið 2024 er sýnt sem þykk rauð lína og 2023 sem þykk bleik lína, á meðan önnur ár eru sýnd með þunnum línum og lituð eftir áratugum, frá bláu (1940s) til rauðs (2020s). Gögn: ERA5. Höfundur: C3S / ECMWF.

Yfirborðshiti sjávar

  • Yfirborðshiti sjávar hefur aldrei verið hærri.
  • Árið 2024 var yfirborðshiti sjávar utan heimskautasvæða að meðaltali 20,87 sem er 0,51 °C yfir meðaltali áranna 1991 – 2020.
  • Meðalyfirborðshiti sjávar utan heimskautasvæða sló met frá janúar til júní 2024, og viðhélt þannig þróun sem hófst á síðari hluta ársins 2023. Aðrir mánuðir ársins (frá júlí 2024) voru þeir næstheitustu á eftir árinu 2023.
  • El Niño-atburðir, tímabil aukins sjávarhita nærri miðbaug í Kyrrahafi, sem hófst árið 2023 lauk árið 2024 og sjávarhiti í Kyrrahafi hefur kólnað í átt að meðaltali og líkur eru á að sjávarhiti þar þróist til kaldari (La Niña) skilyrða.
Fravik-og-ofgar-i-sjavarhihta-arid-2024

Frávik og öfgar í yfirborðshita sjávar fyrir árið 2024. Litaflokkar vísa til hundraðshluta hitadreifinga á viðmiðunar tímabilinu 1991–2020. Öfgaflokkarnir („kaldast“ og „heitast“) byggja á röðun fyrir tímabilið 1979–2024. Gildi eru aðeins reiknuð fyrir hafsvæði án hafíss. Gögn: ERA5. Höfundur: C3S/ECMWF.

Önnur markverð atriði

  • Árið 2024 var metár í Evrópu, meðalhitinn var 10,69°C sem er 1,47° yfir meðaltali áranna 1991 – 2020 og 0,28°C heitara en 2020 sem var síðasta metár.
  • Hitamet var slegið í Evrópu bæði vor og sumar. Meðalhiti vormánaða (mars til maí) var 1,5°C yfir meðaltali vormánaða áranna 1991 – 2020 og sumarmánuðir (júní til ágúst) voru 1,54°C yfir sumarmeðaltali áranna 1991 – 2020.
  • Með auknum hita eykst vatnsgufa í lofti. Hún hefur aldrei mælst hærri en árið 2024 og var um 5% meiri en að meðaltali árin 1991 – 2020, skv. ERA5 gagnasafninu. Þetta er um 1% meira en fyrri metár, þ.e. árin 2016 og 2023.
  • Miklir hitar og loftraki geta leitt til aðstæðna þar sem líkaminn er undir álagi vegna ofhitnunar. Á stórum hluta norðurhvels jarðar voru árið 2024 fleiri dagar en að meðaltali þar sem hitaálag var mikið, og á sumum svæðum voru óvenjumargir dagar með aftakahitaálagi.
  • Útbreiðsla hitaálags náði hámarki þann 10. júlí þegar mikið eða aftaka hitaálag átti sér stað á meira en 44% af yfirborði jarðar. Þetta er 5% stærra svæði en á meðalári.
  • Útbreiðsla hafíss umhverfis Suðurskautslandið var óvenjulítil. Í átta mánuði árið 2023 var útbreiðsla hafíss minni en áður hefur sést síðan gervihnattamælingar hófust um 1979, og stóran hluta ársins 2024 var einnig óvenjulítill hafís umhverfis Suðurskautslandið. Frá júní til október 2024 var meðaltal hafísútbreiðslu í hverjum mánuði sú næst minnsta sem mælst hefur, á eftir metárinu 2023. Í nóvember var útbreiðslan minni en áður hefur mælst, og í febrúar, sem er venjulega mánuður lágmarksútbreiðslu umhverfis Suðurskautslandið, var útbreiðslan sú þriðja minnsta sem mælst hefur.
  • Hafísútbreiðsla á norðurslóðum var nærri meðaltali áranna 1991 – 2020 frá upphafi ársins fram í júlímánuð en féll verulega eftir það og náði lágmarki í september og var útbreiðslan þá sú 5. minnsta síðan gervihnattamælingar hófust.
  • Styrkur koldíoxíðs (CO2) og metans (CH4) hélt áfram að aukast. Styrkur CO2 náði 422 ppm á ársgrundvelli og styrkur CH4 náði 1897 ppb. Styrkur CO2 jókst um 2,9 ppm á árinu en styrkur CH2 jókst um 3 ppb.

Fordæmalausir hitar árið 2024

Breytingar á mánaðarhita veita verðmætar upplýsingar til að skilja þá þætti sem leiddu til þess að árið 2024 varð heitasta ár sögunnar. Fyrri helmingur ársins var sérstaklega heitur og sló hver mánuður nýtt mánaðarhitamet, en slíkt gerðist þrettán mánuði í röð frá miðju ári 2023 til júnímánaðar 2024.

Frá júlímánuði hélst hnattrænn hiti vel yfir meðaltali áranna 1991 – 2020 og var hiti sérhvers mánaðar sá næst hæsti í gagnaröðinni, á eftir samsvarandi mánuði 2023. Ágúst 2024 var þó jafnheitur og ágústmánuður 2023. Dagurinn 22. júlí var sá heitasti frá upphafi mælinga og hnattrænn hiti náði 17,16 °C í ERA5-gagnasafninu.

Það að fyrri hluti ársins var jafn heitur og raun bar vitni gerði það líklegt frá og með síðsumri að árið 2024 yrði enn heitara en árið 2023 sem var metár. Einnig kom í ljós að 2024 er fyrsta árið þar sem hnattrænn meðalhiti var meira en 1,5°C yfir meðalhita áranna 1850 – 1900 en það tímabil er notað til að áætla hnattrænan hita fyrir iðnbyltingu. Meðaltal áranna 2023 og 2024 er einnig yfir þessum mörkum. Þetta þýðir þó ekki að 1,5°C takmarkið í Parísarsamningnum sé fallið, því þar er miðað við meðalhitann yfir 20 ára tímabil. Eftir sem áður sýnir þetta að hnattrænt er nú heitara en mannkyn hefur upplifað á nútíma.

Fravik-loftmedalhita-arid-2024---mynd
Frávik í loftmeðalhita árið 2024, miðað við meðaltal fyrir viðmiðunar tímabilið 1991–2020. Ólínulegt litakerfi er notað til að auka sýnileika minni frávika og aðgreina stærri frávik. Gögn: ERA5. Höfundur: C3S/ECMWF.

Miklir sjávarhitar víða um heimshöfin - yfirborðshiti sjávar

Óvenjulega hár yfirborðshiti sjávar var ráðandi þáttur á margra mánaða tímabili óvenjulegra hnattrænna hita árin 2023 og 2024. Hluti af þessum miklu sjávarhitum var El Niño-veðurfarsfyrirbrigðið, en það lýsir auknum sjávarhita nærri miðbaug í Kyrrahafi. El Niño náði hámarki í desember 2023 og hélt áfram að hafa áhrif á hnattrænt hitastig á fyrri hluta ársins 2024.

Eftir að El Niño lauk og sjávarhiti í Kyrrahafinu tók að kólna voru eftir sem áður óvenjulegir sjávarhitar víða og hnattrænt meðaltal sjávarhita var því óvenjuhátt. Ársmeðaltal sjávarhita utan heimskautsvæða var hærra en nokkru sinni síðan mælingar hófust árið 2024.

Aftakaveður og loftslagsbreytingar

Árið 2024 var ár aftakaveðra víða, svo sem aftakaúrkomu, flóða, hitabylgna, þurrka og skógarelda. Aukin tíðni og ákafi slíkra atburða auka líkur á neikvæðum afleiðingum fyrir lífsskilyrði fólks víða á jörðinni. Meiri vatnsgufa var í lofthjúpnum en nokkru sinni fyrr árið 2024, 5% meira en að meðaltali frá 1991 – 2020. Þessi mikli loftraki gerði mögulega óvenjulega aftakaúrkomu. Að auki, þar sem saman fóru hár yfirborðshiti sjávar og mikill loftraki, mynduðust skilyrði fyrir öflug óveður, þar með taldar hitabeltislægðir og fellibyli.

Miklir hitar geta leitt til aðstæðna þar sem líkaminn er undir álagi vegna ofhitnunar. Auk lofthita hafa aðrir þættir s.s. loftraki einnig áhrif á hitaálag. Það svæði þar sem fólk upplifði mikið hitaálag var víðfeðmara en fyrr og dagar þar sem „mikið hitaálag“ átti sér stað voru víða óvenjumargir. Sums staðar voru fleiri dagar en venjulega með „aftaka hitaálagi“ en við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að bregðast við til að forðast hitaslag.

Langvinnir þurrkar á nokkrum svæðum sköpuðu skilyrði fyrir gróðurelda. Umfangsmiklir langvarandi gróðureldar áttu sér stað bæði í Norður- og Suður-Ameríku. Byggt á upplýsingum frá Lofthjúpsvöktunarstofnun Kópernikusar (CAMS) var á árinu met losun kolefnis vegna gróðurelda í Bólivíu og Venesúela en í Kanada var losunin sú næstmesta sem mælst hefur.

Hafís

Útbreiðsla hafíss á norðurslóðum og umhverfis Suðurskautslandið er mikilvægur vísir á stöðugleika loftslags jarðar og Loftslagsþjónusta Kópernikusar fylgist með breytingum í hafís. Árið 2024 var hafís á báðum svæðum marktækt undir meðaltali síðan mælingar með gervihnöttum hófust 1979.

Umhverfis Suðurskautslandið var hafís annað árið í röð með því lægsta sem mælst hefur. Frá júní til október var mánaðarleg útbreiðsla sú önnur lægsta sem mælst hefur en þó meiri en lágmarksárið 2023. Útbreiðsla í nóvember 2024 hefur aldrei verið minni í þeim mánuði. Hafísútbreiðsla umhverfis Suðurskautslandið nær venjulega lágmarki í febrúar og 2024 var lágmarkið það þriðja lægsta sem mælst hefur.

Á norðurslóðum var útbreiðsla hafíss nærri meðaltali áranna 1991 til 2020 fram í júlímánuð en vel undir meðaltali næstu mánuði. Lágmarkið í september var það fimmta lægsta sem mælst hefur.

Gróðurhúsalofttegundir

Þróun loftslags er skoðuð með því að fylgjast með nokkrum lykilbreytum. Hefur mest borið á hækkandi hita sem er til lengri tíma knúinn af aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Aukning þeirra er afleiðing af athöfnum manna. Vöktun gróðurhúsalofttegunda gefur upplýsingar sem nýtast við að meta aðgerðir til að draga úr losun. Árleg aukning í styrk koldíoxíðs (CO2) í lofthjúpnum meiri en síðustu ár, en árleg aukning metans (CH4) var minni en síðustu þrjú ár.

Hnattraenn-styrkur-grodurhusalofttegunda--1-

Meðalstyrkur CO₂ (til vinstri) og CH₄ (til hægri) í lofthjúpnum á heimsvísu, unnið úr gervihnattagögnum fyrir 2003–2024 (punktalína) og 12 mánaða meðaltal (heil lína). Gögn: C3S / Obs4MIPs (v4.5) sameinuð gögn (2003–2022) og CAMS óyfirfarin gögn nálægt rauntíma (2023) með GOSAT (CH₄) og GOSAT-2 (CO₂) mælingum. Svæði: 60°S - 60°N yfir landi. Höfundur: C3S / CAMS / ECMWF / University of Bremen / SRON.



Fréttatilkynningin er gefin út í samstarfi stofnanna sem fylgjast með þróun loftslags: ECMWF, NASA, NOAA, UKMet, Berkely Earth og Alþjóðaveðurfræðistofnunin WMO.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica