Fréttir
Svartsengi og Bláa lónið umvafið varnargörðum í blíðviðri í byrjun nóvember. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Bjarki Kaldalóns Friis)

Áframhaldandi landris í Svartsengi

6.5.2025

Uppfært 6. maí

  • Landris heldur áfram en hraðinn fer hægt minnkandi 

  • Miðað við hraða kvikusöfnunar síðustu vikur fara líkur á nýju eldgosi að aukast þegar líða fer á haustið 

  • Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni við kvikuganginn  

  • Hættumatskort hefur verið uppfært og gildir til 20.maí að öllu óbreyttu 

Aflögunargögn (GPS) sýna skýr merki um áframhaldandi landris í Svartsengi en dregið hefur úr hraða þess undanfarnar vikur. Vísindamenn hafa lagt mat á hvenær líkur á nýju kvikuhlaupi eða eldgosi muni aukast. Í því mati er gert ráð fyrir að sama magn af kviku þurfi að safnast undir Svartsengi og í fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni. Miðað við að hraði landris sem mælst hefur síðustu vikur haldist óbreyttur má gera megi ráð fyrir að líkur á nýju kvikuhlaupi eða eldgosi fari að aukast þegar nálgast haustið. Ef hraði á landrisi og þar með kvikusöfnunar undir Svartsengi breytist hefur það áhrif á þetta mat.

Vísindamenn Veðurstofunnar vinna nú að endurskoðun á sviðsmyndum og leggja meðal annars mat á það hvort að áfram þurfi sama magn af kviku að safnast undir Svartsengi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Breytingar á hraða landriss metinn út frá þróun milli vikna en ekki daga

Aflögunargögn sem sýna landris sveiflast oft lítillega frá degi til dags, jafnvel þó undirliggjandi kvikuinnstreymi sé stöðugt. Þessar daglegu sveiflur geta orsakast af veðri, skekkjum í mælingum eða öðrum náttúrulegum þáttum sem hafa lítil áhrif á heildarmyndina. Ef aðeins er skoðað stutt tímabil í einu þá gæti það gefið ranga mynd af því hvort landris sé að aukast eða minnka. Því er mikilvægt að greina þróunina yfir viku eða lengra tímabil til að fá raunhæfa mynd af því sem er að gerast. Því er mikilvægt er að túlka þessi gögn með hliðsjón af þróun yfir lengri tímabil fremur en að túlka mælingar frá einstaka GPS-punktum á milli daga.

Jarðskjálftavirkni mælist áfram við kvikuganginn sem myndaðist 1. apríl en dregið hefur úr virkninni frá goslokum og hafa að meðaltali nokkrir tugir jarðskjálftar mælst á sólahring síðustu tvær vikur.

Hættumatskort hefur verið uppfært og gildir til 20.maí að öllu óbreyttu. Ný fréttauppfærsla er sömuleiðis fyrirhuguð þann 20. maí.

2025-05-06_haettumatskort_VI


Uppfært 22. apríl kl. 11:50

Landris í Svartsengi heldur áfram, en töluvert hefur dregið úr hraða þess og er nú svipað og fyrir eldgosið sem hófst 1. apríl.  Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi þarf að reikna með endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni.

Veðurstofan heldur áfram að fylgjast með þróun kvikusöfnunarinnar og að meta mögulegar sviðsmyndir út frá nýjustu gögnum.

Skjalftakort22042025

Kortið sýnir yfirfarna jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðastliðna viku. Flestir skjálftanna mældust við kvikuganginn sem myndaðist 1. apríl og í vestanverðu Fagradalsfjalli. Litamismunur á punktunum merkir tímamismun á jarðskjálftunum, þar sem rauðleitu punktarnir eru jarðskjálftar sem voru síðasta sólahringinn en þeir bláu fyrir um viku.

Smáskjálftavirkni mælist áfram við kvikuganginn sem myndaðist 1.apríl og mælast að meðaltali um hundrað jarðskjálftar á dag síðustu viku.  Flestir skjálftarnir eru undir 1 að stærð en  stærsti skjálftinn mældist 1,7 að stærð í síðastliðinni viku. Þá mældist einnig nokkur smáskjálftavirkni við Fagradalsfjall síðastliðnu helgi. Hæglætis veður hefur verið síðustu daga og því hefur mælanetið numið allra minnstu skjálftana sem annars myndu ekki mælast vegna veðurhávaða.

Hættumatskortið hefur verið uppfært og gildir til  6. maí að öllu óbreyttu.

2025-04-22_haettumatskort_VI

Frétt gefin út 15. apríl

  • Dregið hefur úr hraða aflögunar við Svartsengi
  • Skjálftavirkni yfir kvikuganginum fer minnkandi
  • Ný útgáfa hættumatskort tekur gildi í dag 15.apríl

Landris í Svartsengi heldu áfram en dregið hefur úr hraðanum m.v. í síðustu viku. Hraðinn nú er um tvöfalt meiri en hann var rétt fyrir síðasta gos eða svipaður hraðanum sem var í upphafi þessarar goshrinu sem hófst 2024.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast með þróun kvikusöfnunarinnar og meta mögulegar sviðsmyndir út frá nýjustu gögnum. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi þarf að reikna með endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni.

Áfram mælist nokkur smáskjálftavirkni í kringum kvikuganginn sem myndaðist 1. apríl og mælast tugir skjálfta á hverjum degi á svæðinu. Stærsti skjálftinn sem mældist síðustu viku var M3,3 að stærð þann 13. Apríl og var staðsettur yfir norðurhluta kvikugangsins um tæpa 4 km ANA við Keili. Langflestir skjálftanna eru undir M2 að stærð og á 2 til 6 km dýpi.

Ný útgáfa af hættumatskorti sem nær yfir stærra svæði

Í dag tekur Veðurstofa Íslands í notkun nýja útgáfu af hættumatskorti fyrir umbrotasvæði á Reykjanesskaga. Kortið gildir til 22. apríl að öllu óbreyttu.

Nýja útgáfan kemur í stað fyrra hættumatskorts sem hefur verið notað og birt síðan í nóvember 2023 og sýndi hættumat sjö vel skilgreindra svæða í næsta nágrenni umbrotasvæðisins á Sundhnúksgígaröðinni.

Sjö-svæða kortið hefur verið uppfært og gefið út 108 sinnum síðan 20. nóvember 2023. Það hafði sína kosti en annmarkar þess voru t.d. hve erfitt var að gera hættu skil utan skilgreindu svæðanna sjö.

Nýleg þróun atburða á skaganum, þar sem kvikugangur myndaðist og náði í norðaustur hluta eldstöðvarkerfis Svartsengis þann 1. apríl 2025 og gosupptök urðu vestur af nyrsta hluta Fagradalsfjalls í ágúst 2024, undirstrikar þörf á hættumati fyrir stærra svæði.

Því hefur nýtt kort verið þróað til að yfirstíga takmarkanir fyrra korts. Nýja kortið nýtist ekki eingöngu við hættumat á Reykjanesskaga heldur hefur verið þróuð aðferðafræði sem hægt er að beita á öll önnur virk eldstöðvakerfi á Íslandi.

NyttHaettumat_BlaairKassar

Útlit og framsetning nýja hættumatskortsins sem kemur í stað sjö-svæða kortsins frá og með 15. apríl 2025. Nýjungar á kortinu eru  viðvörunarstig eldstöðvakerfis (sjá bláa kassa númer 1),  stækkun kortlagðs hættusvæðis (sjá bláa kassa númer 2) og  valin athugunarsvæði (sjá bláa kassa númer 3). Sjá nánari upplýsingar í texta.

Hættumatskortið er byggt upp af þremur einingum

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á kortinu en helstu nýjungar sem kynntar eru í þessari útgáfu eru þrjár:

Haettumat_Mynd2_V21. Viðvörunarstig eldstöðvakerfis – það endurspeglar núverandi ástand eldstöðvar og er byggt upp af fjögurra þrepa kerfi, frá 0 (grænt) upp í 3 (rautt). Viðvörunarstigið segir til um ástand eldstöðvarinnar og stjórnar hvernig hætta er metin.

Haettumat_Daemi_LitadirFletir2. Kortlagðar hættur –matið byggir á samanlögðu mati á sjö hættuþáttum sem eru til staðar eða geta skapast: 1) jarðskjálftavirkni, 2) jarðfall ofan í sprungu, 3) sprunguhreyfingar, 4) gosopnun, 5) hraunflæði, 6) gjóskufall og 7) gasmengun. Lituðu fletirnir á kortinu segja til um uppsafnað hættustig af þessum sjö þáttum. Lögun og stærð flatanna geta tekið breytingum, allt eftir því hver hættan er metin hverju sinni.

Haettumatskort_SvaediA3. Valin athugunarsvæði – þegar mismunandi hættur hafa verið metnar landfræðilega er meðalhættustig innan valinna athugunarsvæða reiknað. Þær hættur sem stuðla að endanlegu hættustigi athugunarsvæða eru sérstaklega taldar upp fyrir hvert svæði. Hættur sem metnar eru annaðhvort „miklar“ eða „mjög miklar“ eru feitletraðar. Stærð og lögun þessara svæða sem merkt eru með bókstöfum, taka ekki breytingum, þó hættumatið innan þeirra breytist.

Á þessum hlekk er hægt að kynna sér nánar hvernighættumatið er unnið, hugmyndafræðina á bakvið viðvörunarstig eldstöðvakerfa oghverskonar gögn liggja þar að baki.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica