Fréttir
Mynd tekin fyrr í dag, 3. janúar 2025, þar sem sést hvar áin flæðir yfir bakka sína og hluti vatnsins fer ofan í Flóaáveituskurðinn (Mynd: Lögreglan á Suðurlandi).

Hvítá flæðir yfir bakka sína vegna ísstíflu

Hæsta vatnshæð við Brúnastaði frá upphafi mælinga árið 2009

3.1.2025

  • Frá 30. desember hefur ísstífla verið að byggjast upp í Hvítá í Árnessýslu
  • Stíflan hefur áhrif á vatnsrennsli í Hvítá, þar sem vatn rennur bæði yfir og meðfram inntaki Flóaáveituskurðsins
  • Veðurspá gerir ráð fyrir auknu frosti um helgina sem getur haft áhrif á þróun ísstíflunnar
  • Flóðahætta gæti aukist við skyndilegar veðurbreytingar eða áframhalandi hækkun vatnshæðar
  • Ísstíflur myndast þegar frost og kaldir vindar kæla yfirborð áa          

Frá 30. desember hefur ísstífla verið að byggjast upp í Hvítá í Árnessýslu. Ísstíflan er nærri Brúnastöðum og Flóaáveituskurðinum. Vegna ísstíflunnar hækkar vatnsborð í ánni á svæðinu og síðdegis í gær 2. janúar byrjaði að flæða vatn upp úr árfarveginum. Vatnið flæðir yfir inntak Flóaáveituskurðarins og fram hjá því báðum megin. Lögreglan á Suðurlandi var á svæðinu fyrir hádegi í dag og kannaði aðstæður. Hluti vatnsins rennur yfir Brúnastaðaflatir en hluti þess rennur ofan í Flóaáveituskurðinn.

Mynd_logreglan03012025

Mynd tekin fyrr í dag þar sem sést hvar áin flæðir yfir bakka sína og hluti vatnsins fer ofan í Flóaáveituskurðinn (Mynd: Lögreglan á Suðurlandi).

Kort_skjaskot_02

Kort sem sýnir staðsetningu vatnshæðarmælis við Brúnastaði, v579, og staðsetningu Flóaáveituskurðar, ásamt staðsetningu Selfoss.

Vatnshæðarmælir Veðurstofunnar er á stíflu Flóaáveitunnar. Í gærkvöldi sýndi mælirinn að vatnshæðin var orðin hærri en hæð stíflunnar og því farið að flæða yfir hana. Þetta er hæsta vatnshæð sem mælst hefur á þessum stað frá því að mælingar hófust síðla árið 2009.

Vatnshaedamaelir

Línurit sem sýnir vatnshæð við stíflu Flóaáveitunnar (V578 - Brúnastaðir) frá 30. Desember.

Áfram verður fylgst vel með aðstæðum á svæðinu en erfitt er að segja til um þróun þessa atburðar. Veðurspá gerir ráð fyrir auknu frosti á svæðinu um helgina og fram í næstu viku. Því er líklegt að áfram verði ísmyndun í ánni en einnig er mögulegt að áin finni sér farveg undir ísinn og bræði hann jafnt og þétt af sér. Ef snöggar breytingar verða í veðri á meðan ísstífla er enn í ánni getur skapast aukin flóðahætta á svæðinu.

Ef vatn heldur áfram að flæða uppúr árfarveginum getur það flætt yfir vegi sem liggja heim að bæjum sem eru nærri ánni. Ef vatnshæð heldur áfram að hækka í Flóaáveituskurðinum gæti það valdið vandræðum við þjóðveg 1 austan Selfoss. Vegagerðin fylgist vel með aðstæðum við vegi á svæðinu.

Í hættumatsskýrslu vegna vatnsflóða í Ölfusá kemur fram að alls 18 þekktir staðir séu í Hvítá og Ölfusá þar sem ísstíflur hafa haft áhrif á flóðaútbreiðslu sögulegra flóða. Meðfylgjandi kort sýnir staðsetningu þeirra og litaskali táknar fjölda skráðra flóða á hverjum stað fyrir sig. Ísstíflan sem nú er í ánni er nærri staðsetningu sem merkt er IJS-8 á kortinu sem er einn af algengari stöðum fyrir ísstíflur í sögulegu samhengi.

Kort03012025_2

Kort sem sýnir staðsetningu þekktra ísstíflustaða í Hvítá og Ölfusá. Úr Hættumatsskýrslu vegnavatnsflóða í Ölfusá.

Hvernig myndast ísstíflur í ám?

Undanfarna daga hefur ísstífla myndast í Hvítá nærri Brúnastöðum og veldur því að nú flæðir áin yfir bakka sína eins og meðfylgjandi mynd sem Lögreglan á Suðurlandi tók síðdegis í gær sýnir. En hvernig myndast ísstíflur í ám?

Þegar frost og kaldir vindar kæla yfirborð áa geta ísstíflur myndast ef ísinn sem verður til hleðst upp. Líklegast er að slíkt gerist við fyrirstöður í ánni eða þar sem hægir á rennsli, svo sem við brýr, í beygjum eða þar sem straumurinn minnkar. Ísinn safnast upp og veldur því að minna vatnsmagn kemst undir stífluna og getur þannig valdið vatnshækkunum ofan við stífluna eins og meðfylgjandi skýringarmynd sýnir.

Utskyring03012025

Myndin er fengin úr Hættumatsskýrslu vegna vatnsflóða í Ölfusá sem gefin var út 2019 og er aðgengileg hér: Hættumatvegna vatnsflóða í Ölfusá.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica