Tíðarfar í apríl 2025
Stutt yfirlit
Apríl var óvenjulega hlýr á landinu öllu, sérstaklega fyrstu tíu dagar mánaðarins. Á landsvísu var þetta 5. hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga. Tíð var góð, það var hægviðrasamt og tiltölulega þurrt um stóran hluta landsins. Gróður tók vel við sér.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 5,7 stig í apríl. Það er 2,0 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,5 stigum fyrir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,7 stig, 2,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 5,1 stig og 5,4 stig á Höfn í Hornafirði. Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í töflu 1.
Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2025.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2015-2024 °C |
Reykjavík | 5,7 | 2,0 | 6 | 155 | 1,5 |
Stykkishólmur | 5,1 | 2,4 | 4 | 180 | 1,8 |
Bolungarvík | 3,8 | 2,3 | 5 | 128 | 1,4 |
Grímsey | 3,4 | 2,3 | 6 | 152 | 1,6 |
Akureyri | 4,7 | 2,1 | 9 | 145 | 1,3 |
Egilsstaðir | 4,0 | 2,1 | 9 | 71 | 1,5 |
Dalatangi | 3,4 | 1,3 | 11 | 87 | 0,9 |
Teigarhorn | 4,2 | 1,3 | 15 til 17 | 153 | 1,1 |
Höfn í Hornaf. | 5,4 | 1,4 | |||
Stórhöfði | 5,4 | 1,5 | 8 | 149 | 1,3 |
Hveravellir | -0,5 | 1,8 | 6 | 61 | 1,3 |
Árnes | 4,7 | 1,8 | 11 | 146 | 1,3 |
Apríl var óvenjulega hlýr á landinu öllu, sérstaklega fyrstu tíu dagar mánaðarins. Á mörgum veðurstöðvum hafa þessir fyrstu tíu apríldagar aldrei mælst eins hlýir. Um miðjan mánuð kólnaði, en síðasta vika mánaðarins var svo aftur hlý. Á landsvísu var þetta 5. hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga á 19. öld. Apríl var hlýrri árin 1974, 2019, 2003 og 1926.
Hitavik miðað við síðustu tíu ár voru jákvæð alls staðar (sjá mynd 1). Jákvætt hitavik var mest 2,4 stig á Gagnheiði, en minnst 0,8 stig á Vattarnesi.

Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 6,7 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægstur var meðalhitinn -1,8 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 0,9 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,9 stig á Kollaleiru í Reyðarfirði þ. 10. Mest frost í mánuðinum mældist -13,9 stig á Kárahnjúkum þ. 20. Mest frost í byggð mældist -11,1 stig í Svartárkoti þ. 20.
Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Þar má sjá að hiti var vel yfir meðallagi fyrstu 10 dagana í apríl og aftur í lok mánaðar, en undir meðallagi um miðjan mánuð.

Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Úrkoma
Að tiltölu var þurrt um mestallt land í mánuðinum. Mánaðarúrkoman í Reykjavík mældist 30,8 mm sem eru um 52% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist mánaðarúrkoman 38,8 mm sem er um 50% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 39,1 mm.
Dagar þegar úrkoma var 1,0 mm eða meiri voru 11 í Reykjavík, eða jafn margir og í meðalári. Á Akureyri mældist sólarhringsúrkoman 1,0 mm eða meiri 7 daga mánaðarins, eða einum fleiri en í meðalári.
Snjór
Jörð var flekkótt einn dag mánaðarins í Reykjavík, en aðra daga var alautt. Á Akureyri var jörð alhvít 4 daga mánaðarins, en þar eru alhvítir dagar að jafnaði fimm í apríl.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 198,0 í apríl, sem er 32,9 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Mánuðurinn var sólríkur á Akureyri. Þar mældust 176,0 sólskinsstundir, eða 48,5 stundum yfir meðallagi. Aðeins fimm sinnum hafa mælst fleiri sólskinsstundir í apríl á Akureyri frá upphafi mælinga þar árið 1926.
Vindur
Apríl var tiltölulega hægviðrasamur. Á landsvísu var vindurinn 0,4 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suðaustlægar áttir voru tíðastar í mánuðinum. Hvassast var 13. og 14. dag mánaðarins (norðlægar áttir).
Loftþrýstingur
Loftþrýstingur var hár á landinu í apríl. Í Reykjavík mældist meðalloftþrýstingur mánaðarins 1014,3 hPa sem er 5,0 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1036,4 hPa á Teigarhorni þ. 3., en lægstur mældist loftþrýstingurinn 980,1 hPa í Kambanesi og á Teigarhorni þ. 13.
Fyrstu fjórir mánuðir ársins
Það hefur verið óvenjuhlýtt það sem af er ári í Reykjavík. Meðalhitinn þar fyrstu fjóra mánuði ársins var 2,9 stig, sem er 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn í Reykjavík raðast í 4. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fjögurra 1,4 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 12. til 13.hlýjasta sæti á lista 145 ára.
Heildarúrkoma í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins mældist 384,5 mm sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna fjögurra 219,9 mm sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir apríl
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2025 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.