Eldgos hafið á Sundhnúksgígaröðinni
Uppfært kl. 17:30
Uppfært hættumatskort vegna eldgoss við Sundhnúka
Veðurstofa Íslands hefur gefið út uppfært hættumatskort sem gildir til 18. júlí kl. 15 nema breyting verði á virkni. Viðvörunarstig eldstöðvakerfisins er áfram á hæsta stigi, 3.
Hættumatið byggir á nýjustu mælingum og sýnir meðal annars:
Gossprungan hefur lengst og nær lengra til norðurs en fyrri gossprungur síðan desember 2023.
Hraunflæði heldur áfram en hefur dregist saman.
Mesta hraunið safnast austan megin og líklegt er að það fylli lægðir á svæðinu.
Jarðskjálftavirkni hefur minnkað verulega og mælast nú aðeins fáeinir smáskjálftar á klukkustund.
Mengun frá gasútstreymi og gróðureldum er viðvarandi
Gosórói og virkni gossins
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram en samkvæmt mælingum á gosóróa hefur dregið úr krafti þess síðan í morgun. Myndin hér að neðan sýnir þróun óróamælinga á jarðskjálftastöðinni Fad, norðan Fagradalsfjalls. Línurnar sýna styrk titrings á mismunandi tíðnisviðum.

Sterkur órói mældist snemma morguns þegar gosið hófst en hefur minnkað jafnt og þétt eftir það.
Útbreiðsla hraunsins
Kortið hér að neðan er byggt á ICEYE gervitunglamælingum frá því skömmu fyrir hádegi í dag og sýnir útbreiðslu hraunsins sem hefur myndast í þessu gosi. Þá var flatarmál hraunsins um 3,2 km².
Kortið sýnir einnig áætlaða staðsetningu gossprungunnar við Sundhnúksgíga um kl. 12:00. Hraunið hefur runnið norður og norðaustur frá upptökum sínum og náð yfir stórt svæði á Kálffellsheiði og í átt að Svartsengi.
Ljósfjólublár litur sýnir nýlega hraunbreiðu, rauð strik sýna sprungur og brúnt línunet afmarkar athugunarsvæði og byggðir.
Brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti
Gróðureldarnir eru nú metnir mesta hættan í byggð en mengun frá þeim mælist ekki á SO₂-mælum og endurspeglast ekki í núverandi mengunarspá.
Myndin hér að neðan sýnir magn brennisteinsdíoxíðs (SO₂) í andrúmslofti yfir Íslandi
kl. 13:33 þann 16. júlí 2025 samkvæmt mælingum Sentinel-5P
gervitunglsins. Litirnir sýna styrkleika mengunar: ljósblár merkir lítið
magn, rauðbrúnt mikið magn. Mikil mengun mælist yfir Reykjanesskaga og teygir sig vestur og suðvestur af landinu með vindum.
Dreifing SO₂ í andrúmslofti samkvæmt mælingum gervitungls.
Hættumat vegna eldgossins
Hér að neðan má sjá hættumatskort Veðurstofu Íslands sem sýnir mat á hættu vegna eldgossins við Sundhnúksgíga og hvernig hættusvæði eru skilgreind miðað við stöðu mála núna. Kortið lýsir bæði hættum sem eru til staðar og þeim sem gætu skapast við áframhaldandi virkni.
Öll skilgreind athugunarsvæði á kortinu eru á gulu (nokkur hætta), en kortið sýnir einnig rauða fleti þar sem vá getur orðið mest vegna hrauns, gjósku og gasmengunar.
Hættumatskortið verður uppfært næst 18. júlí nema breytingar á virkni eða veðri kalli á aðgerðir fyrr.
Hættumatskortið lýsir hættum sem eru nú þegar til staðar á svæðinu, sem og þeim sem gætu skapast við áframhaldandi virkni í Svartsengiskerfinu.
Uppfært kl. 12:00
Nýjustu athuganir sýna að gosið er ekki lengur bundið við eina sprungu.
Stærri sprungan við Sundhnúkagígaröðina er metin um 2,4 km löng. Þá
hefur einnig opnast minni sprunga vestar við Fagradalsfjall og var hún
metin um 500 metra löng í könnunarflugi Veðurstofunnar með
Landhelgisgæslunni.
Uppfært kl. 08:45
Skjálftavirkni hefur dregist saman í morgunsárið, en hraunrennsli heldur áfram og berst bæði til austurs og vesturs, þó meira til austurs. Lélegt skyggni takmarkar yfirsýn, einkum vestan megin.
Tilkynnt hefur verið um svokölluð nornahár sem berast nú með vindinum. Þetta eru örfínir glerþræðir sem myndast þegar hraunslettur kólna hratt og teygjast. Þeir eru léttir og geta borist langt. Nornahár geta valdið óþægindum á húð og í augum og fólk er því hvatt til varúðar utandyra í nágrenni gosstöðvanna.
Mikil gasmengun mælist í Reykjanesbæ en fer minnkandi. Íbúum er ráðlagt að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Best er að anda um nef.
Fréttin verður uppfærð þegar ný gögn liggja fyrir. Unnið er að uppfærðu hættumatskorti sem verður birt síðar í dag.
Uppfært kl. 5:10
Hér fyrir neðan er kort sem sýnir áætlaða legu á gossprungunni sem opnaðist kl. 3:54.
Gossprungan lengdist örlítið til norðurs í byrjun en hefur haldist stöðug síðustu klukkustundina.
Áætluð lengd gossprunnar er 700 m.
Uppfært kl. 5:00
Í dag er útlit fyrir suðaustlæga átt, því getur gasmengun frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni borist norðvestur yfir Reykjanesbæ, Voga, Sandgerði og Garð. Þessi mynd sýnir gasdreifingu kl. 12 í dag. Sjá gasdreifingarspá hér.
Mynd sem sýnir dreifingu gasmengunar frá gosstöðvunum kl. 12 í dag.
Uppfært kl. 4:40
Gossprungan er á bilinu 700-1000 m löng og virðist ekki vera að lengjast.
Hraunflæði virðist vera mest til suðausturs og ógnar ekki neinum innviðum að svo stöddu.
Hér fyrir neðan er skjáskot úr vefmyndavél sem staðsett er rétt norðan við Fagradalsfjall og horfir til suðvesturs.
Uppfært kl. 4:20
Miðað við GPS mælingar og aflögunarmerki er líklegt að um frekar lítið eldgos sé að ræða. Í þessu samhengi má einnig nefna að áður en eldgos hófst var magn kviku sem hafði safnast undir Svartsengi um 2/3 af magninu sem hljóp þaðan í síðasta gosi.
Gasmengun berst frá gosstöðvunum til norðvesturs í átt að Vogum og Reykjanesbraut.
Miðað við staðsetningu gossprungunnar og stærð gossins er hraunflæði frá gossprungunni ekki að fara að skapa hættu í Grindavík. Náið er fylgst með því hvort hraun geti mögulega farið að renna í átt að Grindavíkurvegi norðan Stóra-Skógfells.
Uppfært kl. 3:55
Eldgos er hafið. Upptökin eru suðaustan við Litla-Skógfell. Það er á svipuðum slóðum og gígurinn sem var lengst virkur í eldgosinu í ágúst.
Uppfært kl. 3:45
Á þessum tímapunkti hefur skjálftavirknin verið mest á svæðinu frá Litla-Skógfelli í norðri að Sundhnúk í suðri.
Miðað við skjálftavirknina er kvikugangurinn sem hefur myndast því 6.5 km að lengd. Til samanburðar var kvikugangurinn sem myndaðist í síðasta atburði um 20 km að lengd.
Síðustu 15 mínúturnar hefur skjálftavirknin aukist lítilega og hluti skjálftanna er að færast nær yfirborði. Þetta gætu verið vísbendingar um að kvika sé að reyna að brjótast til yfirborðs.
Uppfært kl. 3:10
Uppfært kl. 2:50
Síðustu 30 mínúturnar hefur mesta skjálftavirknin verið norður af því svæði þar sem skjálftahrinan hófst.
Uppfært kl. 2:25
Jarðskjálftarnir í hrinunni mælast flestir á um 4-6 km dýpi. Það bendir til þess að kvika er ekki að nálgast yfirborð á þessu stigi.
Á þessum tímapunkti hafa um 300 skjálftar mælst í hrinunni frá miðnætti.
Uppfært kl. 2:11
Samkvæmt skjálftavirkni og GPS mælingum sem sýna aflögun á Sundhnúksgígaröðinni stækkar kvikugangurinn sem er að myndast meira til suðurs en til norðurs.
Uppfært kl. 01:55
Samkvæmt GPS mælingum er aflögun lítil á svæðinu sem bendir til þess að kvikuhlaupið er ekki stórt enn sem komið er.
Aflögunin er vaxandi og mælist bæði suður og norður af svæðinu þar sem skjálftavirknin hófst.
Uppfært kl. 01:20
Áköf jarðskjálftahrina stendur yfir í Sundhnúksgígaröðinni og benda gögn til þess að kvikuhlaup sé hafið og líklegt er að elgos geti hafist í kjölfarið.
Jarðskjálftahrinan er staðsett á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, á svipuðum slóðum og sést hefur í upphafi kvikuhlaupa í fyrri atburðum.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem gögn berast