Áframhaldandi jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn
Samantekt á jarðskjálftavirkni, mælingum og mögulegum sviðsmyndum við Grjótárvatn
Nokkrir jarðskjálftar mældust við Grjótárvatn á Snæfellsnesi aðfaranótt 2. október 2025. Hrina skjálftanna hófst um kl. 04 og stóð fram yfir morguninn. Stærsti skjálftinn mældist 3,2 að stærð og fannst víða á Mýrum og í Borgarfirði. Virknin er framhald þeirrar jarðskjálftavirkni sem verið hefur áberandi við Grjótárvatn frá haustinu 2024.
Mynd úr Skjálftalísu Veðurstofunnar, gagnagrunni þar sem birtar eru upplýsingar um jarðskjálfta á Íslandi. Sýnir skjálfta síðustu 30 daga.
Engin merki um að kvika sé að færa sig til yfirborðs
Í ágúst fór fram fjölmennur íbúafundur í Hjálmakletti í Borgarnesi þar sem Ásta Rut Hjartardóttir,
sérfræðingur í sprunguhreyfingum og eldfjallafræði á Veðurstofu Íslands, og Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, kynntu stöðuna við Grjótárvatn og svöruðu spurningum íbúa.
Ásta Rut Hjartardóttir, sérfræðingur í sprunguhreyfingum og eldfjallafræði á Veðurstofu Íslands, útskýrir stöðu jarðskjálftavirkninnar við Grjótárvatn á íbúafundi í Borgarnesi. Mynd: Karen Kjartansdóttir
Niðurstöður mælinga benda til að kvika sé að safnast fyrir djúpt í jarðskorpunni, en engin merki hafa komið fram um landris eða að kvika sé á leið upp til yfirborðs.
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn hófst árið 2021 en jókst verulega haustið 2024. Þá voru settir upp nýir jarðskjálftamælar í Hítardal og við Grástein sem gerðu kleift að greina fleiri smáskjálfta og draga úr óvissu í staðsetningu og dýpt.
Í janúar 2025 mældust nærri hundrað skjálftar stærri en M1,0, sem er mesti fjöldi í einum mánuði frá upphafi virkninnar. Þrír stærstu skjálftarnir hingað til, allir M3,7, urðu svo í apríl, maí og júní 2025.
Engin merki um landris
Aukin vöktun með GPS-mælum og gervitunglagögnum hefur ekki sýnt merki um aflögun á yfirborði.
- Í nóvember 2024 var settur GPS-mælir í Hítardal.
- Í lok apríl 2025 bættist við mælir við Hraunholt.
- Vor 2025 bættust tveir mælar Náttúrufræðistofnunar við vöktunarkerfið.
Þrátt fyrir fjölgun mæla og nákvæmari vöktunar á svæðinu hefur ekkert landris mælst, hvorki á GPS-tækjum né í gervitunglamælingum frá 2019 til 2025. Þótt engin aflögun/landris hafi mælst á yfirborði útilokar það ekki að kviku sé að finna á miklu dýpi.
Líklegasta skýringin
Sérfræðingar Veðurstofunnar telja að kvika safnist fyrir neðarlega í jarðskorpunni, á um 15–20 km dýpi. Nokkur atriði styðja þá túlkun:
- Óróahviður hefur mælst á jarðskjálftamælum.
- Skjálftarnir verða á miklu dýpi.
- Virknin er staðbundin og þrálát.
- Hátt b-gildi jarðskjálfta, sem þýðir að óvenju margir smáskjálftar mælast miðað við stærri, og er það oft tengt virkum eldfjallasvæðum.
- Virknin hefur staðið yfir í nærri fjögur ár samfleytt

Jarðskjálftar við Grjótárvatn staðsettir á korti (efri hluti) og einfölduð skýringarmynd á kvikusöfnun á 15–20 km dýpi undir svæðinu (neðri hluti).
Þrjár sviðsmyndir um framhaldið
Á íbúafundinum í Borgarnesi í ágúst kynnti Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, þrjár sviðsmyndir sem allar eru taldar jafn líklegar. Um er að ræða niðurstöður úr rannsóknarskýrslu hans sem kom út í mars 2025.
- sviðsmynd: Kvikusöfnun stöðvast. Aðstreymi hættir, kvikuinnskot storknar á dýpi og jarðskjálftavirkni dregst saman með tímanu
- sviðsmynd: Virkni eykst og færist grynnra. Skjálftar verða tíðari og grynnri og aflögun gæti farið að mælast á yfirborði. Þá myndi aukin hætta skapast á grjóthruni og breytingum í jarðhitakerfum.
- sviðsmynd: Kvika nær að brjóta sér leið upp á yfirborð og eldgos hefst. Þá gætu komið fram skammlífar sprengingar vegna samspils kviku og vatns, hraunflæði sem gæti náð allt að 30 km frá upptökum og gasmengun sem dreifist með vindi og getur borist allt að 200 km frá gossvæðinu.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, kynnir þrjár sviðsmyndir sem allar eru taldar jafn líklegar á íbúafundi í Borgarnesi. Mynd: Karen Kjartansdóttir
Ef þriðja sviðsmyndin raungerist, eru líklegustu upptökin á fjórum svæðum sem liggja á mismunandi vatnasviðum:
- Hítardal (C1): Þar sem kvika getur brotist upp á yfirborð í grennd við fjallshlíðar og myndað hraunflæði niður í dalinn.
- Grjótárdal (C2): Svæði sem einkennist af skörpum landhalla þar sem hraun og vatnsblandaðar sprengingar geta haft áhrif á farveg Grjótár.
- Hraundal (C3): Mögulegt upptak þar sem gos gæti valdið hraunrennsli sem fylgir náttúrulegum lægðum dalsins.
- Langá í Grenjadal (C4): Upptak sem gæti haft áhrif á vatnsfarveg Langár og valdið bæði hraunrennsli og breytingum á rennsli árinnar.

Óvissan mikil
Ljósufjallakerfið var fært upp á hæsta vöktunarstig Veðurstofunnar í byrjun árs 2025. Markmiðið er að safna sem mestum gögnum til að greina betur ferlin sem eru að eiga sér stað og meta mögulegan atburðarás.
Óvissan er þó mikil. Atburðarásin getur dvínað án frekari tíðinda, en hún gæti líka haldið áfram árum saman eða endað með eldgosi. Samanburður við fyrri atburði, svo sem kvikuinnskot við Upptyppinga árið 2007 og skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli árið 1996, sýnir að djúp kvikusöfnun leiðir ekki endilega til eldgoss.
Gosin í Ljósufjallakerfinu eru talin verða lítil á íslenskan mælikvarða og áhrifin fyrst og fremst staðbundin. Til dæmis varð síðasta gos í kerfinu á 10. öld og myndaði Rauðhálsahraun. Gosið var takmarkað að umfangi en skildi eftir sig greinilegar hraunmyndanir sem sjást enn í dag.
Eldstöðvakerfin á Snæfellsnesi ólík Reykjanesskaga
Mikilvægt er að hafa í huga að eldstöðvakerfin á og við Snæfellsnes eru ólík kerfum á Reykjanesskaga.
- Eldgosum á Snæfellsnesi virðast ekki fylgja sprunguhreyfingar.
- Engin tengsl eru milli eldstöðvakerfa á Snæfellsnesi. Virkni í einu kerfi hefur því ekki áhrif á önnur kerfi í nágrenninu.
- Færri eldgos hafa orðið í þessum kerfum síðustu ~10.000 árin samanborið við Reykjanesskaga.
Þetta þýðir að jafnvel þó kvika safnist fyrir við Grjótárvatn og mögulegt gos hefjist, þá er líklegt að áhrifin verði staðbundin og ekki hluti af stærri goshrinu eins og á Reykjanesskaga.
Kort af Snæfellsnesi sem sýnir jarðskjálfta 2021–2025 (gulir punktar), eldstöðvakerfi og útbreiðslu hrauna frá mismunandi tímum.
Streymi frá íbúafundinum í Borgarnesi
Opinn íbúafundur vegna skjálftavirkni við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfinu var haldinn miðvikudaginn 20. ágúst kl. 16:30 í Hjálmakletti í Borgarnesi. Fundurinn var boðaður af Almannavarnanefnd Vesturlands og ætlaður til samtals við íbúa vegna yfirstandandi virkni. Upptaka af fundinum er aðgengileg á Youtube og hefst fundurinn á 22. mínútu.
https://www.youtube.com/watch?v=nhjKDAKj9nY
Veðurstofan er með sólarhringsvöktun á allri náttúruvá á Íslandi.
- Rauntímaeftirlit
- Viðvaranir gefnar út ef ástæða er til
- Upplýsingar um virkni birtar í fréttum á vedur.is
- Upplýsingum er miðlað á daglegum stöðufundum til hag- og viðbragðsaðila.
- Vikulegar skýrslur: staða eldfjalla tekin saman og send til hagaðila.
Ítarlegar upplýsingar um Ljósufjöll og önnur eldstöðvarkerfi má finna í Eldfjallavefsjánni:
Sólarhringsvakt Veðurstofu Íslands.