Fréttir
Eldstöðvakerfi Ljósufjalla, hraun frá nútíma og gjallmyndanir. // Ljósufjöll volcanic system, Holocene lava flows and scoria deposits.

Áfram mælast skjálftar á miklu dýpi við Grjótárvatn

Skjálfti af stærð M3,2 mældist í gærmorgun

17.1.2025

Uppfært 17. janúar kl. 12:55
  • Tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst í janúar
  • Skjálfti af stærð M3,2 mældist í gær sem er stærsti skjálftinn á svæðinu frá því að virkni fór að aukast í ágúst 2024.
  • Kvikuinnskot á dýpi er talið líklegasta skýringin á skjálftavirkni
  • Engar vísbendingar eru til staðar um að kvika sé á leið upp til yfirboðs

Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.

Samsettmynd_17012025

Samsett mynd úr jarðskjálftavefsjá VÍ sem sýnir virknina við Grjótárvatn frá 2021 til janúar 2025. Kortið uppi vinstra megin sýnir staðsetningu jarðskjálftanna. Uppi hægra megin er graf sem sýnir stærðir jarðskjálftanna. Grafið niðri vinstra megin sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta og niðri hægra megin má sjá fjölda skjálfta á mánuði.

Þann 2. janúar mældist óróahviða sem stóð yfir í um klukkustund. Síðan þá hefur ein slík mælst í viðbót, þann 10. janúar, og stóð hún einnig yfir í rúma klukkustund.

Í frétt sem birt var 9. janúar var farið yfir virknina og bent á að skjálftarnir hafi óvenju hátt b-gildi, sem er oft tengt jarðskjálftum á eldvirkum svæðum og lýsir sér í óvenju háu hlutfalli lítilla skjálfta. Líklegasta skýringin á þessari skjálftavirkni er talin vera kvikuinnskot á dýpi frekar en jarðskorpuhreyfingar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á leið upp til yfirborðs.


Uppfært 9. janúar kl. 11:20
  • Óróahviða fimmtudaginn 2. janúar
  • Áframhaldandi jarðskjálftavirkni á miklu dýpi
  • Engin merki um aflögun samkvæmt GPS- mælingum
  • Líkleg skýring skjálftahrinu er kvikuinnskot á miklu dýpi
  • Engar vísbendingar um að kvika sé á leið upp til yfirborðs
  • Vöktunarstig hækkað á Ljósufjöllum

Fimmtudaginn 2. janúar mældist samfelld óróahviða milli kl. 17 og 18 með upptök við Grjótárvatn. Óróahviðan sem varði í um 40 mínútur er mynduð af samfelldum smáskjálftum, sem flestir eru of smáir til að hægt sé að staðsetja þá, en einungis tveir skjálftar innan hviðunnar eru staðsettir. Þeir eru á rúmlega 15 km dýpi og af stærð M1,5 og 1,8. Alls voru um 20 jarðskjálftar þennan dag, allir á 15-20 km dýpi og af stærð M0,1-2,0.

Mynd1_skjalftar
Samfelldur órói sem mældist á nýju jarðskjálftastöðinni í Hítardal milli kl. 17-18 fimmtudaginn 2. janúar (appelsínuguli kassinn). Stakir jarðskjálftar sjást fyrir og eftir óróahviðuna.

Venjulega mælast ekki skjálftar hér á landi á svo miklu dýpi, en þó eru nokkur dæmi um slíkt í eldstöðvum eins og Eyjafjallajökli árið 1996 og við Upptyppinga árið 2007 í tengslum við kvikuinnskot og einnig nokkuð reglulega austan við Bárðarbungu.

Í þessum eldstöðvarkerfum er talið að ferlin sem valdi djúpum jarðskjálftum og smáskjálftavirkni sé aukinn þrýstingur í jarðskorpunni vegna kvikuinnskots sem veldur því að hún brotnar.

Í gærmorgun var haldinn mánaðarlegur fundur á Veðurstofu Íslands þar sem farið var yfir nýlega virkni í eldstöðvum á landinu. Þar var virknin við Grjótárvatn rædd og mögulegar skýringar á henni settar fram. Frekari greining á jarðskjálftagögnum frá árunum 2021-2024 við Grjótárvatn var gerð nýlega. Greiningin sýnir að virknin hefur hátt b-gildi (~2), svipað og var í djúpri skjálftahrinu við Upptyppinga árið 2007. Há b-gildi eru oft tengd jarðskjálftum á eldvirkum svæðum og lýsa óvenju háu hlutfalli lítilla skjálfta.

Mynd2_gutenberg_N
Gutenberg-Richter dreifing sem lýsir sambandi milli stærðar skjálfta og fjölda þeirra við Grjótárvatn á tímabilinu 2021-2024.  Hallatalan gefur b-gildið 2.

Greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýna ekki mælanlega aflögun á yfirborði. InSAR-mælingar nýtast illa á þessum árstíma vegna þess að svæðið er snjóþungt sem hamlar því að InSAR geti nýst.

Í byrjun nóvember í fyrra var einnig bætt við GPS-stöð í Hítardal, rúmlega 4 km NV við Grjótárvatn. Síðan þá hefur engin aflögun á yfirborði mælst en það útilokar þó ekki að kviku sé að finna á miklu dýpi. Ef kvika er að safnast fyrir djúpt í jarðskorpunni (> 16 km) benda líkön til þess að ekki sé líklegt að aflögun mælist á yfirborði fyrr en rúmmál kvikunnar er orðið töluvert.

Til viðbótar við óvenjulega dýpt jarðskjálftanna og b-gildi þeirra gefa tímalengd virkninnar, nýlegar óróahviður og samanburður við sögulega virkni í öðrum eldstöðvarkerfum til kynna að líklegasta skýringin á þessari skjálftavirkni sé kvikuinnskot á dýpi frekar en jarðskorpuhreyfingar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á leið upp til yfirborðs.

Á meðan jarðskjálftavirknin heldur áfram á svipuðu dýpi má búast við fleiri skjálftum af stærð um 3 en ólíklegt er að skjálftar stærri en 4 geti myndast á þessu dýpi.

Í ljósi aukinnar virkni og vísbendinga um kvikuinnskot á dýpi hefur Veðurstofan hækkað vöktunarstig á Ljósufjöllum. Unnið er að nýju vöktunarskipulagi fyrir svæðið.


Frétt 20. desember 2024


  • M3,2 jarðskjálfti að kvöldi 18. desember sá stærsti hingað til
  • GPS og gervitunglagögn sýna enga mælanlega aflögun
  • Engar vísbendingar um kvikuhreyfingar nærri yfirborði
  • Á nútíma hefur eldvirkni í Ljósufjallakerfinu einskorðast við lítil sprungugos

Jarðskjálfti af stærð M3,2 mældist nærri Grjótárvatni að kvöldi 18. desember. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að skjálftinn hefði fundist m.a. í uppsveitum Borgarfjarðar og á Akranesi. Jarðskjálftavirkni hefur reglulega mælst þarna síðan vorið 2021 en undanfarna mánuði hefur virknin farið vaxandi eins og meðfylgjandi gögn sýna. Frá því að virknin hófst þarna vorið 2021 er jarðskjálftinn sem mældist í fyrrakvöld sá stærsti, en haustið 2021 mældust tveir skjálftar um M3 að stærð. Fyrir 2021 mældist síðast markverð skjálftavirkni þarna árið 1992 en þá mældust tveir skjálftar um M3 að stærð, sá stærri M3,2, og nokkrir aðrir yfir M2,0. Það jarðskjálftayfirlit sem miðað er við nær aftur til ársins 1991 (SIL-kerfið).

Grafgrjotarvatn20122024

Skjáskot úr Skjálfta-Lísu sem sýnir þróun jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn síðan í upphafi árs 2021.

Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu en í lok september var settur upp jarðskjálftamælir í Hítardal og í byrjun nóvember var bætt við GPS-stöð á sama stað. Nýi jarðskjálftamælirinn jók getu vöktunarkerfisins til þess að nema smáskjálfta. Áður en hann var settur upp mældust fáir skjálftar undir M1.0 að stærð vegna þess að nálægasta jarðskjálftastöðin var í um 30 km fjarlægð frá upptökum skjálftanna. Sé eingöngu horft til jarðskjálfta yfir 1,0 að stærð, til þess að útiloka áhrif af fjölgun mæla, er samt sem áður ljóst að jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðan í ágúst 2024.

Eftir að jarðskjálftamælir var settur upp nær upptökum jarðskjálftanna fæst betra mat á dýpi þeirra. Flestir jarðskjálftar á svæðinu verða í kringum 15 –20 km dýpi. Frá því að GPS-stöðin var sett upp í Hítardal hefur ekki mælst aflögun á yfirborði þar. Greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýna heldur ekki mælanlega aflögun á yfirborði.

Í gærmorgun var reglulegur stöðufundur jarðvísindafólks vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Sérfræðingar Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ nýttu tækifærið og fóru einnig yfir nýjustu gögn og virkni við Grjótárvatn.

Það er ekki enn hægt að staðfesta hvað veldur jarðskjálftavirkninni en helst kemur tvennt til greina: innflekavirkni eða kvikusöfnun á miklu dýpi. Sumt gæti þó bent til að um kvikuinnskot á miklu dýpi sé að ræða, eins og stuttar jarðskjálftahviður sem hafa mælst undanfarið og dýpi virkninnar. Þörf er á frekari greiningu til að meta með vissu hvaða ferli er í gangi við Grjótarvatn og frekari rannsóknir verða gerðar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á ferðinni grunnt í jarðskorpunni. Veðurstofa Íslands mun skipuleggja aukna vöktun á svæðinu með jarðskjálfta- og GPS-stöðvum til að skilja og vakta betur þróun virkni á svæðinu.

Ef til þess kæmi að kvika myndi færast nær yfirborði er líklegast að auknir fyrirboðar myndu mælast eins og hröð aukning í jarðskjálftavirkni sem myndi færast grynnra og/eða aflögun á yfirborði.

Eldgosasaga


Grjótárvatn er innan eldstöðvarkerfis Ljósufjalla á Snæfellsnesi. Síðasta eldgosið í Ljósufjöllum var lítið gos sem átti sér stað á 10. öld og myndaði Rauðhálsahraun sem er um 13 km2 að flatarmáli. Rauðhálsahraun (um 15 km norðvestur frá Grjótarvatni). Að meðaltali hefur eldstöðvakerfið gosið á 400 ára fresti frá síðustu 10.000 árum. Líklegasta sviðsmyndin, ef kerfið vaknar aftur, er lítið gos (< 0,1 km3), eða lítið sprengigos, með hraunupphleðslu og hraunrennsli. Ef til goss kæmi má búast við að lítið svæði yrði fyrir áhrifum af helstu hættum sem tengjast eldvirkni, en þær eru: hraunrennsli, gasmengun og mjög staðbundið gjóskufall. Nánari upplýsingar um Ljósufjallakerfið má finna í Íslensku eldfjallavefsjánni

Eldstodvarkerfi_Ljosafjalla

Eldstöðvakerfi Ljósufjalla, hraun frá nútíma og gjallmyndanir.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica