Fréttir
Viðvaranir á landinu út daginn í dag, fimmtudag 6. febrúar.

Óveðrið gengur niður – enn viðvaranir á austanverðu landinu

6.2.2025

Uppfært 6. febrúar kl. 16:45

Lægð fór yfir vestanvert landið í dag og olli óveðri víða um sunnan-, austan og norðanvert landið.

Rauðar viðvaranir vegna sunnan illviðrisins eru enn í gildi á austanverðu landinu fram til kvölds.  Spáð er sunnan 23-30 m/s og rigningu um austanvert landið með staðbundnum vindhviðum yfir  50 m/s.  Má búast við foktjóni og hættulegum aðstæðum utandyra og ferðalög eru ekki ráðlögð. Á Austfjörðum mun veðrið lægja síðast, um kvöldmatarleytið.

Á vestanverðu landinu verður suðvestan strekkingur eða allhvass vindur með éljum og kólnandi veðri. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út vegna dimmra élja og skafrennings við Breiðafjörð og á Vestfjörðum frá kl. 17 og fram til miðnættis.

Kort06022025_2

Kort sem sýnir úrkomu og vind kl.18 í dag. Þá er komin suðvestanátt um allt land og él vestantil.

Kólnandi veður á morgun

Á morgun, 7. febrúar, verður suðlæg átt, 8-15 m/s. Snjókoma eða slydda verður víða um land, fyrst austantil í fyrramálið og síðan vestantil um miðjan dag. Norðurland sleppur að mestu við úrkomu. Hiti verður í kringum frostmark eða rétt yfir því.



Uppfært 6. febrúar kl. 10:30

Ný lægð nálgast úr suðri og fer lægðamiðja hennar norður yfir landið vestanvert í dag.   Óveðrið heldur áfram með rauðum viðvörunum sem gilda fyrir nær allt landið. Búist er við skörpum veðraskilum yfir vestasta hluta landsins fyrripart dags. Austan megin við skilin heldur sunnan óveðrið áfram og mun geisa á stærstum hluta landsins, sunnan 25-30 m/s með snörpum og varasömum vindhviðum og talsverðri rigningu á köflum. Vestan þeirra verður mun hægari vindur, kalt og snjókoma, sérstaklega á Vestfjörðum og Breiðafirði og hluta Faxaflóa.

Spakort06022025

Vindhraði kl. 12 á hádegi í dag. Hvítar línur sýna vindhviður yfir 25 m/s og er hámarks hviða gul lituð.

Staðan á vesturhluta landsins er viðkvæm, því ef veðraskilin hliðrast lítillega frá spám, getur veðrið orðið mjög ólíkt því sem búist var við. Seinnipart dags er gert ráð fyrir að skilin færist til austurs, með suðvestan strekkingi eða allhvössum vindi og éljum vestanlands. Á Austfjörðum verður veðrið verst lengst og lægir ekki fyrr en undir kvöldmat.

Fólk er hvatt til að sýna aðgát, fylgjast vel með veðurspám og nýjustu færð á umferd.is.

Mikið illviðri gekk yfir í gær

Sunnan illviðrið í gær skilaði sér vel í mælingum og reyndist afar öflugt. Frá því síðdegis og fram að miðnætti mældist rok eða verra (meðalvindhraði yfir 24 m/s) á um 140 mælistöðvum. Enn sterkari vindur, ofsaveður eða fárviðri (meðalvindhraði yfir 28 m/s), var skráð á 62 stöðvum víða um land.

Mjög sterkar vindhviður

Vindhviðurnar voru einnig gríðarlega sterkar, með yfir 40 m/s í hviðum á 77 stöðvum. Óveðrið var óvenjulegt að því leyti hversu víða hættulegur vindur mældist. Mesta hviðan í gær var 66,3 m/s á Gagnheiði, fjallastöð á Austurlandi í 950 metra hæð. Á láglendi var sterkasta hviðan 62,3 m/s við Hvaldalsá austan Lónsfjarðar, en kl. 21 virðist vindmælirinn þar hafa gefið upp öndina, því frá miðnætti sendi hann aðeins frá sér logn – þó veðrið hefði ekki enn gengið niður á svæðinu. Aðrar sterkar hviður á láglendi voru 58,1 m/s á Stafá og 54,0 m/s á Vattarnesi.

Illviðrið stafaði af djúpri lægð

Veðrið í gær var afleiðing af djúpri lægð vestan við land, sem í samvinnu við háþrýstisvæði yfir Bretlandi myndaði afar kröftugan sunnan vindstreng yfir landið. Lægðin færðist norður í nótt og veðrið fór hægt og rólega að lægja, en aðeins um stundarsakir.



Uppfært 5. febrúar kl. 21:50

  • Enn eru rauðar viðvaranir í gildi fyrir austanvert landið
  • Veður kemur til með að ganga niður í nótt
  • Nýjar rauðar viðvaranirnar taka gildi kl. 7 í fyrramálið
  • Í fyrramálið fylgja mjög skörp skil veðrinu
  • Lítil færsla á skilunum getur valdið miklum breytingum á veðrinu
  • Hlekkur á veðurspá
  • Hlekkur á viðvaranir
  • Hlekkur á umferdin.is

Enn eru rauðar viðvaranir í gildi fyrir austanvert landið. Veðrið kemur til með að ganga niður í nótt.

Ef spár ganga eftir nær lægðin sem veldur seinni helmingnum af óveðrinu inn á landið á suðvesturhorninu klukkan átta í fyrramálið, 6. febrúar.

Fyrstu rauðar viðvaranir taka gildi kl. 7 fyrir austan, kl. 8 á suðvesturhorninu og svo kl. 10 norðanlands. Lægðin verður svo búin að ganga yfir landið síðdegis á morgun, 6. febrúar.

Í fyrramálið verða mjög skörp skil yfir vestanverðu landinu eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Austan við skilin er illviðri en vestan skilanna er hæglætis veður. Því getur lítil færsla á skilunum valdið miklum breytingum á veðrinu einkum á suðvesturhorninu, bæði hvað varðar tímasetningu og áhrif veðursins.

Skjamynd-2025-02-05-214502Svona lítur vindaspáin út fyrir kl. 11 í fyrramálið. Austan við skilin er illviðri en vestan skilanna er hæglætis veður.

Uppfært 5.2. kl. 19:10

Veðrið er byrjað að ganga niður vestast á landinu, en enn er að hvessa fyrir austan.

Veðrið náði hámarki á Höfuðborgarsvæðinu um kl 18 og voru hviður víða milli 30 – 35 m/s. Ekki hefur mælst hærri vindhraði á Veðurstofureitnum síðan 7. febrúar 2022.

Vindhviður mældust um 58 m/s á Fróðárheiði á Snæfellsnesi um kl 17 í dag. Hviður hafa tvisvar mælst hærri á Fróðárheiði á þessari öld eða í mars 2015 og í febrúar 2008.

Vindhradi_Frodarheidi_Feb2025

Línurit sem sýnir vindhraðamælingar á Fróðárheiði á Snæfellsnesi.  Dökkrauði liturinn sýnir vindhraða í hviðum.

Hitamynd_Feb2025_Skilin

Hitamynd úr gervitungli ásamt endurkasti frá veðursjám. Mörk skilanna má sjá sem gulan lit en í slíkum skilum myndast oft eldingar líkt og mældust í dag.

Eldingar_Feb2025

Mynd frá kl. 18:24 sem sýnir eldingamælingar. Rauðu punktarnir eru nýjustu mælingarnar. (Leela-eldingamæligögn frá bresku veðurstofunni, UK Met Office)


Færsla 5.2. kl. 13:50
  • Rauðar viðvaranir vegna vinds taka gildi frá kl 16 í dag
  • Sunnan rok eða ofsaveður verður seinnipartinn í dag og á morgun
  • Fólk hvatt til að tryggja lausamuni og forðast ferðalög á meðan veðrið gengur yfir
  • Talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu
  • Veðrið gengur niður upp úr hádegi á morgun, fyrst vestantil

Sunnan rok eða ofsaveður verður seinnipartinn í dag og á morgun, 25 – 33 m/s. Búast má við mjög hvössum vindhviðum, sérstaklega við fjöll víða 35 – 45 m/s, en staðbundið yfir 50 m/s. Veðrinu fylgir talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu. Nánari upplýsingar má finna hér.

Urkomuspa05022025

Úrkomuspá klukkan 18:00 í dag, miðvikudaginn 5. febrúar.

Rauðar viðvaranir taka gildi frá kl. 16:00 í dag

Rauðar viðvaranir vegna vinds taka gildi frá klukkan 16:00 í dag, fyrst á suðvestanverðu landinu. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni og sýna aðgát. Ferðalög eru ekki ráðlögð á meðan viðvaranir eru í gildi. Foktjón mjög líklegt og það getur verið hættulegt að vera á ferð utandyra.

Raud-vidvorun05022025

Sjá viðvaranir hér

Það dregur heldur úr vindi í kvöld og nótt, fyrst suðvestantil, en veðrið skellur aftur á snemma í fyrramálið með aukinni úrkomu, en rauðar viðvaranir vegna vinds taka gildi frá kl 7. Veðrið gengur niður vestantil á landinu upp úr hádegi á morgun, en undir kvöld austast á landinu. Dregur þá einnig úr úrkomu og kólnar. Suðvestan 10 – 18 m/s annað kvöld með éljum og hita nálægt frostmarki.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica