Tíðarfar ársins 2024
Yfirlit
Árið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti síðan 1998. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en hlýrra við suðurströndina. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir. Árið í heild var þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu, en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var einna mest. Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst og einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Á öðrum árstímum var tiltölulega hægviðrasamt og loftþrýstingur og vindhraði voru í kringum meðallag þegar litið er á árið í heild.
Veturinn 2023 til 2024 var nokkuð hagstæður. Það var tiltölulega hægviðrasamt, þurrt og tíð góð. Illviðri voru með færra móti. En það var kalt og hiti var vel undir meðallagi um land allt.
Meðalhiti vorsins var nærri meðallagi. Apríl var kaldur, sérstaklega á Norðausturlandi. Þar var úrkomusamt og nokkuð snjóþungt fram eftir mánuðinum, en þurrt annarsstaðar á landinu. Maí var aftur á móti hlýr. Þá var blautt suðvestanlands, en þurrt og sólríkt á Norðausturlandi.
Sumarið (júní til september) var óvenjukalt miðað við sumur þessara aldar og hlýir dagar voru fáir. Hiti var undir meðallagi á landsvísu alla mánuði sumarsins nema í júlí, en þá voru ágætis hlýindi á Norðaustur- og Austurlandi. Lofþrýstingur var óvenjulega lágur, þá sérstaklega í ágúst. Í Reykjavík var meðalloftþrýstingur t.a.m. sá lægsti sem mælst hefur í ágústmánuði frá upphafi mælinga 1820. Sumarið einkenndist af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Nokkuð langvinnt norðanhret gekk yfir landið í byrjun sumars og óvenjumikið snjóaði á norðanverðu landinu miðað við árstíma. Eftir það tók við mikil vætutíð og var sumarið óvenjulega blautt, sérstaklega á Vestur- og Norðurlandi. Júlí var sérstaklega blautur á vestanverðu landinu og ágúst á norðanverðu landinu. Mikil vatnsveður gengu yfir landið nokkrum sinnum yfir sumarið. Því fylgdu miklir vatnavextir í ám og lækjum og aurskriður féllu víða á þeim stöðum þar sem rigndi hvað mest. Tíð var mun hagstæðari í september, sem var tiltölulega þurr og sólríkur en kaldur.
Október var kaldur, hægviðrasamur og þurrari en í meðalári. Nóvember var svo alveg tvískiptur. Fyrri hlutinn var óvenjuhlýr og á mörgum veðurstöðvum hafa þessir fyrstu fjórtán nóvemberdagar aldrei mælst eins hlýir. Hlýjar og tiltölulega hvassar sunnanáttir voru allsráðandi þessa daga, með vætutíð sunnan- og vestanlands, en þurru og hlýju veðri á Norður- og Austurlandi. Nóvemberhitamet voru slegin á fjölda veðurstöðva um land allt. Hæstur fór hitinn í 23,8 stig á Kvískerjum í Öræfum, sem er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nóvembermánuði. Það kólnaði hratt á landinu um miðjan nóvemberber og var hiti vel undir meðallagi út mánuðinn. Meðalhiti haustsins (október og nóvember) var undir meðallagi þrátt fyrir hlýindakaflann í byrjun nóvember.
Desember var svo tiltölulega kaldur. Það var þurrt á Norðaustur- og Austurlandi, en blautara vestanlands.
Hiti
Meðalhiti ársins í Reykjavík var 4,3 stig sem er 0,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,7 stig sem er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 3,3 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Egilsstöðum var meðalhitinn 3,2 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,0 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Ársmeðalhiti í byggðum landsins var 3,4 stig sem er 0,8 stigum undir meðalhita áranna 1991 til 2020, en 1,0 stigi undir meðalhita síðustu tíu ára. Á landsvísu hefur árið ekki verið kaldara síðan 1998.
Meðalhita ársins og vik fleiri stöðva má sjá í töflu 1.
stöð | hiti °C | vik 1991-2020 | röð | af | vik 2014-2023 |
Reykjavík | 4,3 | -0,9 | 87 til 88 | 154 | -1,1 |
Hvanneyri | 3,2 | # | 27 | 27 | -1,2 |
Bláfeldur | 4,0 | # | 27 | 27 | -1,0 |
Stykkishólmur | 3,7 | -0,8 | 87 til 88 | 154 | -1,0 |
Bolungarvík | 3,1 | -0,6 | 78 | 127 | -1,0 |
Litla-Ávík | 2,8 | # | 28 | 29 | -1,2 |
Blönduós | 2,7 | # | 21 | 21 | -1,1 |
Grímsey | 2,8 | -0,7 | 69 til 71 | 151 | -1,2 |
Akureyri | 3,3 | -1,0 | 84 til 86 | 144 | -1,3 |
Grímsstaðir | 0,4 | -1,0 | 83 til 84 | 118 | -1,4 |
Miðfjarðarnes | 2,7 | # | 25 | 25 | -0,9 |
Skjaldþingsstaðir | 3,3 | # | 29 | 31 | -0,9 |
Egilsstaðir | 3,2 | -0,7 | 45 | 70 | -1,0 |
Dalatangi | 4,1 | -0,3 | 43 til 44 | 86 | -0,8 |
Teigarhorn | 4,0 | -0,6 | 69 til 70 | 151 | -0,9 |
Höfn í Hornaf. | 4,6 | -0,9 | |||
Fagurhólsmýri | 5,0 | -0,3 | 57 | 122 | -0,6 |
Vatnsskarðshólar | 5,5 | -0,2 | 40 til 41 | 85 | -0,5 |
Stórhöfði | 5,0 | -0,5 | 71 til 73 | 148 | -0,6 |
Árnes | 3,5 | -0,8 | 88 | 144 | -1,0 |
Hveravellir | -1,2 | -1,3 | 47 | 60 | -1,5 |
Eyrarbakki | 4,2 | -0,7 | 81 til 84 | 144 | -1,0 |
Keflavíkurflugvöllur | 4,4 | -0,7 | 53 | 72 | -0,8 |
Tafla 1: Meðalhiti og vik ársins 2024 á nokkrum stöðum
Ársmeðalhitinn var hæstur 6,0 stig í Surtsey. Lægsti var ársmeðalhitinn -2,3 stig á Gagnheiði og lægsti ársmeðalhitinn í byggð var 0,1 stig í Möðrudal.
Árið 2024 var kalt. Ársmeðalhitinn var undir meðallagi
áranna 1991 til 2020, og síðustu tíu ára á öllu landinu. Á mynd 1 má sjá
hitavik sjálfvirkra veðurstöðva miðað við síðustu tíu ár. Að tiltölu var
kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en að tilölu hlýjast við
suðurströndina. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -1,4 stig á
Flatey á Skjálfanda, Austurdalshálsi og í Svartárkoti. Neikvætt hitavik var
minnst -0,4 stig í Grindavík.
Mynd 1: Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2024 miðað við síðustu tíu ár (2014-2023).
Hæsti hiti ársins mældist 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 14. júlí. Mest frost ársins mældist -28,6 stig í Svartárkoti þ. 31.desember. Það var jafnframt lægsti hiti ársins í byggð.
Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 17,4 stig þ.
15.júlí og aftur þ. 3. ágúst. Hámarkshitinn í Reykjavík er óvenjulega lágur
þetta árið og hefur ekki mælst eins lágur síðan 2001. Mesta frostið í Reykjavík
mældist -10,8 stig þ. 9. febrúar. Af öllum stöðvum höfuðborgarsvæðisins mældist
hitinn hæstur 18,7 stig í Straumsvík þ. 3. ágúst, en mesta frostið -21,3 stig í
Víðidal þ. 9. febrúar. Á Akureyri mældist hæsti hitinn á árinu 23,8 stig þ. 30.
júní, en mesta frostið -18,7 stig þ. 18. janúar.
Mynd 2: Ársmeðalhiti í byggðum landsins frá 1980-2024, sýndur sem vik frá meðalhita áranna 1991-2020. Þar má sjá að árið 2024 var óvenjukalt miðað við ár þessarar aldar og það kaldasta síðan 1998. Fyrir aldamót voru mörg kaldari ár en nú.
Árið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Eins og
fram kom hér að ofan, var þetta kaldasta árið á landsvísu frá 1998. Á mynd 2 er
ársmeðalhiti í byggðum landsins frá 1980 til 2024 sýndur sem vik frá meðalhita
áranna 1991 til 2020. Þar má sjá að árið 1998 var ekkert sérstaklega kalt ár á
sínum tíma. Í raun var meðalhiti þess árs ekki fjarri 30-ára meðallagi áranna
1961 til 1990, sem var viðmiðunartímabil þess tíma. Þegar litið er lengra aftur
í mælisöguna þá raðast landsmeðalhiti ársins 2024 í 77.til 78. hlýjasta sæti á
lista 151 árs. En árið 2024 var vissulega kalt ár miðað við það sem vanalegt
hefur verið síðustu ár. Landsmeðalhitinn var undir meðallagi áranna 1991 til
2020 alla mánuði ársins nema í mars, maí og júlí.
Mynd 3: Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2024 sýndur sem vik frá landsmeðalhita síðustu 10 ára (2014-2023). Hitasveiflur eru alltaf meiri yfir vetrarmánuðina. Janúar og febrúar voru að mestu kaldir. Mars var tiltölulega hlýr sunnanlands og kaldari fyrir norðan. Það var kalt á landinu öllu í apríl, en hlýtt í maí. Hiti var undir meðallagi alla sumarmánuðina (jún-sep), nema í júlí. En ágætis hlýindi voru á Norðaustur- og Austurlandi um miðjan júlí. Haustið (okt-nóv) var kalt, að frátöldum óvenjulegum hlýindakafla í fyrri hluta nóvembermánaðar. Desember var umhleypingasamur, en að mestu kaldur.
Á mynd 3 má sjá landsmeðalhita hvers dags á árinu 2024 sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára.
Veturinn 2023 til 2024 (desember 2023 til mars 2024) var tiltölulega kaldur, þó hann hafi ekki verið nærri eins kaldur og árið áður, þegar óvenjuleg kuldatíð ríkti vikum saman.
Apríl var kaldur, sérstaklega á Norðausturlandi, en maí tiltölulega hlýr og endaði meðalhiti vorsins í kringum meðallag.
Sumarið var óvenjulega kalt, miðað við sumur þessar aldar og hlýir dagar voru fáir. Sumarið (júní til september) var líkt og árið í heild það kaldasta á landsvísu síðan árið 1998, þegar það var álíka kalt og nú. Dagar þegar hiti mældist 20 stig eða meiri einhversstaðar á landinu voru 29 þetta sumarið, sem er í minna lagi (slíkir dagar voru 48 í fyrrasumar). Langvinnt norðanhret gekk yfir landið í júníbyrjun með tilheyrandi kuldatíð. Hiti var undir meðallagi á landsvísu alla sumarmánuðina nema í júlí, en ágætis hlýindi voru á Norðaustur- og Austurlandi um miðjan júlí. Svo var kalt á landinu seinni hluta sumars, í ágúst og september, og fram eftir haustinu.
Óvenjuleg hlýindi voru á landinu í fyrri hluta nóvember. Meðalhiti fyrstu 14 daga nóvembermánaðar var um fjórum til fimm stigum yfir meðallagi áranna 1990 til 2020, og á mörgum veðurstöðvum hafa þessir fyrstu fjórtán nóvemberdagar aldrei mælst eins hlýir. Nóvemberhitamet voru slegin á fjölda veðurstöðva um land allt í hlýindunum í fyrri hluta mánaðarins. Til dæmis mældist hæsti hiti í nóvember frá upphafi mælinga á mönnuðu veðurstöðvunum í Reykjavík (12,9 stig, þ.12), Akureyri (20,4 stig, þ.12) og á Grímsstöðum á Fjöllum (16,5 stig, þ.12). En þetta eru allt stöðvar sem hafa mælt í yfir 100 ár. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nóvember, 23,8 stig mældist svo á Kvískerjum í Öræfum þ. 14.nóvember. Það kólnaði svo hratt á landinu um miðjan nóvember og var hiti vel undir meðallagi út mánuðinn. Meðalhiti haustsins (október og nóvember) var undir meðallagi þrátt fyrir þennan hlýindakafla í byrjun nóvember. Desember var svo að mestu kaldur.
Á mynd 4 má sjá hitavik hvers mánaðar 2024 í Reykjavík og Akureyri. Þar má sjá að hiti hefur verið undir meðallagi langstærstan hluta ársins á báðum stöðum. Í Reykjavík hefur mánaðahitinn verið undir meðallagi frá því í júní og út árið.
Mynd 4: Hitavik hvers mánaðar 2024 í Reykjavík og Akureyri miðað við meðalhita áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík var hiti undir meðallagi alla mánuði ársins nema í mars og maí. Á Akureyri var hiti yfir meðallagi í maí, júlí og nóvember en undir meðallagi alla aðra mánuði ársins.
Úrkoma
Ársúrkoman var undir meðallagi á flestum veðurstöðvum á Austurlandi, Suðurlandi og Suðvesturlandi, en yfir meðallagi víða á Norður- og Vesturlandi. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir.
Ársúrkomu nokkurra mannaðra veðurstöðva má sjá í töflu 2, ásamt mestu sólarhringsúrkomu, fjölda úrkomudaga o.fl. Á mynd 5 má sjá ársúrkomu þessara sömu stöðva sem hlutfall af meðalúrkomu síðustu tíu ára (2014 til 2023).
stöð | ársúr | hlutf9120 % | hlutf 1423 % | mest d. | úrkd | Úrkd>=1 | alhv | alautt |
Reykjavík | 827,7 | 95 | 88 | 23,6 | 222 | 144 | 48 | 288 |
Neðra-Skarð | 982,3 | 88 | 90 | 43,8 | 209 | 172 | 41 | 280 |
Augastaðir | 860,0 | # | # | 38,4 | 177 | 128 | 68 | 256 |
Hítardalur | 1231,6 | # | 104 | 43,3 | 173 | 136 | 39 | 229 |
Stykkishólmur | 896,2 | 121 | 119 | 39,0 | 220 | 148 | 67 | 282 |
Ásgarður | 891,7 | # | 112 | 44,5 | 234 | 142 | 89 | 162 |
Litla-Ávík | 866,2 | # | 97 | 51,0 | 255 | 146 | 123 | 162 |
Sauðanesviti | 982,4 | 111 | 103 | 72,0 | 245 | 146 | 107 | 188 |
Akureyri | 585,2 | 102 | 91 | 23,4 | 186 | 117 | 122 | 188 |
Grímsstaðir | 426,8 | 109 | 98 | 22,0 | 219 | 97 | 137 | 142 |
Miðfjarðarnes | 424,4 | # | 69 | 22,3 | 233 | 79 | 59 | 199 |
Skjaldþingsstaðir | 949,8 | # | 72 | 55,6 | 220 | 129 | 68 | 224 |
Hánefsstaðir | 1527,0 | # | 71 | 77,8 | 231 | 148 | 139 | 181 |
Dalatangi | 1485,6 | 90 | 85 | 62,7 | 247 | 150 | 91 | 218 |
Gilsá | 1242,7 | # | 68 | 48,0 | 220 | 128 | 100 | 194 |
Höfn í Hornafirði | 1298,0 | # | 82 | 58,7 | 191 | 135 | 12 | 281 |
Vatnsskarðshólar | 1487,3 | 86 | 83 | 50,0 | 238 | 179 | 41 | 262 |
Hjarðarland | 1434,2 | 107 | 109 | 67,3 | 193 | 151 | 63 | 264 |
Vogsósar | 1288,5 | # | 90 | 38,1 | 230 | 166 | 70 | 263 |
Keflavíkurflugvöllur | 1026,7 | 93 | 94 | 30,6 | 229 | 164 | 35 | 293 |
Tafla 2:
Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við árin 1991 til 2020. (3)
Hlutfall miðað við árin 2014 til 2023 (nýliðinn áratug). (4) Mesta
sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0
mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.
Mynd 5: Ársúrkoma 2024 nokkurra úrkomustöðva, sem hlutfall af meðalúrkomu síðustu tíu ára (2014-2023).
Ársúrkoma í Reykjavík mældist 827,7 mm sem er 95% af meðalúrkomu áranna 1991til 2020, en 88% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældist ársúrkoman 896,2 mm sem er 21% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist ársúrkoman 585,2 mm sem er 2% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 91% af heildarúrkomu síðustu tíu ára. Á Dalatanga mældist ársúrkoman 1485,5 mm sem er 90% af heildarúrkomu áranna 1991 til 2020.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 144, tíu færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru slíkir dagar 117, níu fleiri en í meðalári.
Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 23,6 mm þ. 12. janúar. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 23,4 mm þ. 23. febrúar. Á mynd 6 má sjá úrkomuvik hvers mánaðar 2024 í Reykjavík og Akureyri sem hlutfall af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík voru flestir mánuðir ársins tiltölulega þurrir, en seinni hluti vorsins og sumarið var óvenjulega blautt. Á Akureyri var úrkomusamt í febrúar, mars og apríl, óvenjulega blautt í júní og ágúst, en þurrt aðra mánuði ársins.
Mesta sólarhringsúrkoma ársins á öllu landinu mældist 235,2 mm á sjálfvirkri stöð í Grundarfirði þ. 13. júlí (frá kl 00. til kl. 24). Það er mesta úrkoma mæld hefur verið á einum sólarhring í Grundarfirði og jafnframt mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu.
Mynd 6: Úrkoma hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri sem hlutfall af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoma var rétt yfir meðallagi í Reykjavík í janúar en undir meðallagi á Akureyri. Febrúar, mars og apríl voru þurrir í Reykjavík, en úrkomusamir á Akureyri. Seinni hluti vorsins og sumarið var óvenjublautt í Reykjavík. Sumarið í heild var líka blautt á Akureyri, júní og ágúst voru óvenjulega úrkomusamir, en júlí var tiltölulega þurr. Úrkoma var svo undir meðallagi bæði í Reykjavík og á Akureyri síðustu fjóra mánuði ársins.
Veturinn 2023 til 2024 (desember 2023 til mars 2024) var tiltölulega þurr og var úrkoma undir meðallagi á mest öllu landinu.
Apríl var þurr alls staðar, nema norðaustanlands. Maí var aftur á móti blautur suðvestan- og vestanlands, en þurr fyrir norðan og austan.
Sumarið (júní til ágúst) var úrkomusamt um land allt. Á mynd 7 má sjá úrkomu sumarsins frá töluverðum fjölda úrkomustöðva, sem hlutfall af meðalsumarúrkomu síðustu tíu ára (2014 til 2023). Þar kemur vel fram að sumarið var sérstaklega vætusamt á Vestur- og Norðurlandi. Þar var sumarið víða á meðal þeirra blautustu frá upphafi mælinga. Vætutíð sumarsins olli töluverðum vandræðum. Miklir vatnavextir í ám og lækjum voru tíðir og skriður féllu víða. Eitthvað var um að bændur lentu í erfiðleikum með ræktun og heyskap vegna bleytunnar. Júlí var sérlega úrkomusamur á Vesturlandi, víða sá úrkomusamasti þar frá upphafi mælinga. Ágúst var mjög blautur um land allt, en sérsaklega á norðanverðu landinu.
Mynd 7. Sumarúrkoma ársins 2024 (júní, júlí, ágúst) sem hlutfall af meðalsumarúrkomu síðustu tíu ára (2014 til 2023). Sumarið var vætusamt um allt land, en það var óvenjublautt á Vestur- og Norðurlandi.
Mikil vatnsveður gengu yfir landið nokkrum sinnum í sumar og ollu töluverðum usla á þeim stöðum þar sem rigndi sem mest. Mikið vatnsveður gerði til að mynda á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu á þessum svæðum. Úrkoman mældist langmest í Grundarfirði þessa daga. Sólarhringsúrkoman þ. 13. júlí mældist 235,2 mm sem er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í júlímánuði á landsvísu. Dagana 22. til 24.ágúst rigndi óvenjumikið á norðurhluta landsins, sérstaklega á Ströndum, Tröllaskaga og á norðanverðum Vestfjörðum. Vatnsveðrinu fylgdu miklir vatnavextir í ám og lækjum, vatnsflaumur myndaðist á Siglufirði og skriður féllu víða.
September og október voru tiltölulega þurrir. Nóvember var alveg tvískiptur, fyrri hlutinn var mjög blautur á Suður- og Vesturlandi, á meðan það var tiltölulega þurrt á Norður- og Austurlandi. Mikil úrkoma á Vestfjörðum dagana 11.-13.nóvember, ásamt leysingum, ullu töluverðum vatnavöxtum og óvenju mikið var um grjóthrun og skriður í landshlutanum. Seinni hluti nóvember var aftur á móti úrkomusamari á norðan- og austanverðu landinu en þurr á Suður- og Vesturlandi.
Desember var þurr á Norðaustur og Austurlandi, en blautari vestanlands.
Snjór
Fjöldi alhvítra daga var yfir meðallagi á flestum veðurstöðvum sem athuga snjóhulu.
Alhvítir dagar ársins í Reykjavík voru 48, sem er sjö færri en meðalfjöldi alhvítra daga áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi voru 67 alhvítir dagar á árinu sem er 21 fleiri en í meðalári. Það voru 122 alhvítir dagar á Akureyri sem er 27 fleiri en í meðalári. Á Dalatanga var 91 alhvítur dagur, 11 fleiri en að meðaltali.
Á mynd 8 má sjá fjölda alhvítra daga í hverjum mánuði í Reykjavík og Akureyri, sem vik frá meðalfjölda alhvítra daga áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar voru óvenjumargir í apríl á Akureyri og hafa ekki verið eins margir þar síðan í apríl 1999. En það var nokkuð snjóþungt á norðan- og austanverðu landinu fram eftir aprílmánuði.
Í byrjun júní snjóaði óvenjulega mikið miðað við árstíma á Norðurlandi þegar norðanhret gekk yfir landið. Á nokkrum veðurstöðvum á Norðurlandi mældist mesta mælda snjódýpt sem vitað er um í júní, það er af nýföllnum snjó. Mest mældist snjódýptin á Vöglum í Vaglaskógi (43 cm þ. 5. júní). Snjórinn olli þónokkrum vandræðum. Bændur lentu í tjóni, fjöldi fugla dóu og töluverðar samgöngutruflanir voru á fjallvegum.
Mynd 8: Fjöldi alhvítra daga hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri, sýnt sem vik frá meðalfjölda áranna 1991 til 2020. Fjöldi alhvítra daga var yfir meðallagi í Reykjavík í janúar, febrúar og desember, en undir meðallagi í mars, apríl og nóvember. Á Akureyri var fjöldi alhvítra daga undir meðallagi í janúar, en yfir meðallagi í febrúar, mars, apríl, október, nóvember og desember.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1459,3 sem er 91 stund fleiri en að meðaltali áranna 1991 til 2020, en 120 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1192,1 eða 141 stund fleiri en að meðaltali áranna 1991 til 2020, en 89 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára.
Mynd 9: Sólskinsstundavik hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri miðað við meðalfjölda sólskinsstunda áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík var sólríkt frá febrúar til apríl og aftur frá september til nóvember. Maí og júlí voru óvenjulega þungbúnir, en sólskinsstundir í janúar, júní, ágúst og desember voru í kringum meðallag. Á Akureyri var þungbúið í ágúst. Sólskinsstundir voru í meðallagi í janúar, júní og desember en yfir meðallagi aðra mánuði ársins. Maí var sérlega sólríkur á Akureyri.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,1 hPa sem er jafn meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur ársins á landinu mældist 1041,7 hPa á Fagurhólsmýri þ. 10. janúar og í Skaftafelli þ. 11. janúar. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 950,0 hPa í Vestmannaeyjabæ þ. 18. október.
Meðalloftþrýstingur sumarsins (júní til ágúst) var óvenjulega lágur. Loftþrýstingurinn var sérstaklega lágur í ágúst, og í Reykjavík var meðalloftþrýstingur sá lægsti sem mælst hefur í ágústmánuði frá upphafi mælinga 1820. Á mynd 10 má sjá loftþrýstingsvik hvers mánaðar í Reykjavík miðað við meðallag áranna 1991 til 2020.
Mynd 10: Loftþrýstingsvik hvers mánaðar í Reykjavík miðað við meðalloftþrýsting áranna 1991 til 2020. Loftþrýstingur var yfir meðallagi í janúar, mars, apríl, september, nóvember og desember. Mánaðarvikin voru neikvæð í febrúar, maí, júní, júlí, ágúst og október. Vikin voru langmest í ágúst þegar meðalloftþrýstingur var óvenjulega lágur og sá lægsti í ágústmánuði frá upphafi mælinga 1820. Þrýstingurinn var svo óvenjuhár í september, sá hæsti í septembermánuði síðan 1976.
Vindhraði og vindáttir
Meðalvindhraði ársins á landinu var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Illviðri voru tiltölulega fátíð. Norðvestan- og norðanáttir voru óvenju tíðar á árinu, á meðan suðaustanáttir voru óvenju fátíðar.
Á mynd 11 má sjá meðalvindhraða hvers mánaðar á landsvísu sem vik frá meðallagi. Veturinn var tiltölulega hægviðrasamur og illviðri voru með færra móti. Sumarið (júní til ágúst) var aftur á móti hvassviðrasamt, vindhraði var yfir meðallagi alla sumarmánuðina og tíð var fremur óhagstæð. September og október voru hægviðrasamir, en það var hvasst í nóvember og nokkuð illviðrasamt. Vindhraði vær rétt undir meðallagi í desember, en það var hvasst og umhleypingasamt veður yfir jólahátíðirnar.
Mynd 11: Vik meðalvindhraða hvers mánaðar á landsvísu frá meðallagi áranna 1991 til 2020. Vindhraði á landsvísu var yfir meðallagi í mars, júní, júlí, ágúst og nóvember, en undir meðallagi í janúar, febrúar og október. Aðra mánuði ársins var vindhraði í kringum meðallag.
Mynd 12: Allar vindaathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2004 til 2023). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Norðlægar áttir (appelsínugular súlur) voru tíðari en í meðalári í febrúar, mars, apríl, júní, ágúst og september. Suðlægar áttir (appelsínugular súlur, neikvæð gildi) voru tíðari í janúar, maí, júlí, nóvember og desember. Austlægar áttir (bláar súlur) voru tíðar í mars og apríl. Vestlægar áttir (bláar súlur, neikvæð gildi) voru tíðari en í meðalári alla mánuði ársins nema í mars, apríl og ágúst.