Tíðarfar í mars 2025
Stutt yfirlit
Mars var hlýr og hægviðrasamur um allt land. Úrkomulítið var norðaustanlands en úrkomusamara á vestanverðu landinu. Nokkuð sólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hvassviðri í upphafi og lok mánaðar ollu vandræðum. Veðrinu þ. 3. og 4. fylgdu sjávarflóð á suðvesturhorni landsins en þ.30 varð mikið þrumuveður á sunnanverðu landinu.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,1 stig í mars. Það er 1,9 stigum yfir meðallagi marsmánaða árin 1991 til 2020, en 1,7 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri mældist meðalhitinn 2,0 stig sem er 2,0 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældist meðalhitinn 2,7 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 3,1 stig.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í mars 2025.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2015-2024 °C |
Reykjavík | 3,1 | 1,9 | 19 | 155 | 1,7 |
Stykkishólmur | 2,7 | 2,4 | 10 | 180 | 2,2 |
Bolungarvík | 2,2 | 2,7 | 12 | 128 | 2,3 |
Grímsey | 1,6 | 1,8 | 14 | 152 | 1,3 |
Akureyri | 2,0 | 2,0 | 16 | 145 | 1,8 |
Egilsstaðir | 1,5 | 1,8 | 15 | 71 | 1,3 |
Dalatangi | 2,8 | 1,6 | 13 | 87 | 1,0 |
Teigarhorn | 2,8 | 1,5 | 18 | 153 | 1,3 |
Höfn í Hornaf. | 3,1 | 1,1 | |||
Stórhöfði | 3,7 | 1,5 | 21 | 149 | 1,3 |
Hveravellir | -2,9 | 2,1 | 8 | 61 | 2,0 |
Árnes | 0,9 | 0,9 | 38 | 146 | 0,7 |
Marsmánuður var hlýr og meðalhiti var yfir meðallagi um allt land. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins norðan Vatnajökuls en kaldast meðfram austurströndinni og á Suðurlandsundirlendinu. Hitavik miðað við síðustu tíu ár voru jákvæð alls staðar. Jákvætt hitavik var mest 2,8 stig við Upptyppinga en minnst 0,5 stig á Fonti á Langanesi.

Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,9 stig í Surtsey. Lægstur mældist meðalhitinn -4,3 stig á Gagnheiði en lægsti meðalhiti í byggð mældist -1,0 stig í Svartárkoti.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 13,8 stig á Steinum undir Eyjafjöllum þ. 12. Lægsti hiti mánaðarins mældist -19,4 stig við Setur þ. 9. Í byggð mældist hitinn lægstur -15,9 stig á Selfossi og Kálfhóli á Skeiðum þ. 7.
Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Þar má sjá að hiti var vel yfir meðallagi flesta daga marsmánaðar.

Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Úrkoma
Úrkomulítið var á norðausturhorni landsins í mánuðinum en úrkomusamara var á vestanverðu landinu. Á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð mældist minnsta marsmánaðarúrkoma sem mælst hefur frá upphafi mælinga þar árið 2003.
Í Reykjavík mældist mánaðarúrkoman 104,1 mm sem er 29% meiri úrkoma en að meðallagi árin 1991 til 2020. Aðeins tveir dagar mánaðarins voru alþurrir í Reykjavík. Á Akureyri mældust 46,0 mm sem er nærri meðallagi. Í Stykkishólmi mældust 109,0 mm, eða 49% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 17, eða 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins sem er einum færri en að meðallagi áranna 1991 til 2020.
Snjór
Það var snjólétt í Reykjavík mars. Þar voru aðeins 3 alhvítir dagar skráðir í mánuðinum, sem er 6 dögum færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 11, sem eru 5 færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 91,6, sem er 18,7 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 104,3 sem 26,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur
Mánuðurinn var óvenjulega hægviðrasamur. Vindhraði á landsvísu var um 1,2 m/s minni en að jafnaði árin 1991 til 2020. Á mörgum sjálfvirkum stöðvum, sem hafa mælt í rúmlega 20 ár, var meðalvindhraði marsmánaðar sá minnsti frá upphafi mælinga þar.
Slæmt suðvestan hvassviðri gekk þó yfir landið dagana 3. og 4. Sjávarstaða var einnig mjög há þessa daga sem olli því að mikil sjávarflóð fylgdu veðrinu á suðvesturhorni landsins m.a. í Reykjavík, Sandgerði og á Akranesi, þannig að talsvert tjón hlaust af. Einnig var nokkuð hvasst og umhleypingasamt veður dagana 30. og 31. Því veðri fylgdi mikið þrumuveður á sunnanverðu landinu þ. 30.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 1004,5 hPa í Reykjavík. Það er 1,3 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1031,5 hPa á Kálfhóli á Skeiðum þ. 9. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 962,5 hPa á Flateyri þ. 4.
Fyrstu þrír mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins var 2,0 stig sem er 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu þriggja mánaða ársins raðast í 13. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja 0,3 stig sem er 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 21. hlýjasta sæti á lista 145 ára.
Heildarúrkoma í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins mældist 353,7 mm sem um 40% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoman mánaðanna þriggja 181,1 mm sem er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Veturinn (desember 2024 til mars 2025)
Tíðarfar vetrarins 2024 til 2025 var í nokkuð hagstætt. Hitafar var þó nokkuð tvískipt. Desember og janúar voru kaldir, en febrúar og mars voru hlýir og snjóléttir. Veturinn í heild var tiltölulega hægviðrasamur og tíð góð. Töluvert var þó um illviðri í febrúar. Mikið sunnanhvassviðri gekk yfir landið dagana 5. og 6. febrúar, sem bætist í hóp verstu óveðra síðustu ára.
Meðalhiti í Reykjavík í vetur var 1,3 stig sem er 0,5 stigum yfir meðallagi sömu mánaða áranna1991 til 2020. Veturinn er í 21. til 22. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík árið 1871. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -0,4 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var veturinn í 34. til 35. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881.
Veturinn var tiltölulega úrkomusamur í Reykjavík. Heildarúrkoma vetrarins þar var 443,0 mm sem er 25% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma í vetrarmánuðunum fjórum 209,5 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Desember var sérlega þurr á Akureyri á meðan úrkoma var um eða yfir meðallagi í öðrum mánuðum.
Í Reykjavík voru alhvítir dagar vetrarins 40, sem er 7 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru 60 alhvítir dagar, sem er 13 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Snjóhula var um og yfir meðallag í desember og janúar, en febrúar og mars voru snjóléttir.
Í Reykjavík mældust sólskinsstundir vetrarins 186, sem er 21 stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar í vetrarmánuðunum fjórum 157,2, sem er 38,6 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir mars
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2025 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.