Tíðarfar í ágúst 2025
Stutt yfirlit
Ágúst var hlýr, þá sérstaklega síðari hluti mánaðarins. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 16. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Talsvert hvassviðri var á sunnan- og vestanverðu landinu um verslunarmannahelgina.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 11,9 stig sem er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og líka 0,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,0 stig sem er 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 11,7 stig og 11,5 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sá í eftirfarandi töflu.
Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2025.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2015-2024 °C |
Reykjavík | 11,9 | 0,8 | 10 | 155 | 0,8 |
Stykkishólmur | 11,7 | 1,2 | 7 | 180 | 1,3 |
Bolungarvík | 11,2 | 1,5 | 6 | 128 | 1,6 |
Grímsey | 9,8 | 1,0 | 10 | 152 | 1,0 |
Akureyri | 12,0 | 1,2 | 13 | 145 | 1,4 |
Egilsstaðir | 12,4 | 2,1 | 3 | 71 | 2,2 |
Dalatangi | 10,8 | 1,6 | 5 | 88 | 1,5 |
Teigarhorn | 10,9 | 1,2 | 2 | 153 | 1,2 |
Höfn í Hornaf. | 11,5 | 0,9 | |||
Stórhöfði | 11,2 | 0,7 | 9 | 148 | 0,8 |
Hveravellir | 8,6 | 1,3 | 5 | 61 | 1,4 |
Árnes | 11,8 | 0,9 | 10 | 146 | 0,9 |
Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2025.
Ágúst var hlýr á landinu öllu. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi, en að tiltölu kaldast sunnanlands. Jákvætt hitavik var mest 2,3 á Gagnheiði, Upptyppingum og Kárahnjúkum, en minnst 0,4 stig í Surtsey.
Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,8 stig við Blikdalsá á Kjalarnesi. Lægstur var meðalhitinn 6,8 stig á Skálafelli. Í byggð var meðalhitinn lægstur 9,5 stig í Gjögri.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 16. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði á Íslandi. Eldra met var 29,4 stig (Hallormsstaður 24.ágúst 2021). Þetta er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkri veðurstöð á Íslandi og hæsti hiti sem skráður hefur verið í landinu frá árinu 1946, þegar hitinn fór í 30,0 stig á Hallormsstað.
Mest frost í mánuðinum mældist -2,6 stig í Ásbyrgi þ. 21.
Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Hlýir dagar voru margir í ágúst. Dagar þegar hiti mældist 20 stig eða meiri einhversstaðar á landinu voru 20 talsins. Það var sérlega hlýtt seinni hluta mánaðar, eins og sést á mynd 2. Dagana 8. til 14. ágúst var hitinn aftur á móti lítillega undir meðallagi.

Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Úrkoma
Að tiltölu var nokkuð þurrt víðast hvar á norðanverðu landinu en mánaðarúrkoman var nær meðallagi á Suðvesturlandi.
Talsverð úrkoma fylgdi hvassviðri í upphafi mánaðar á sunnan- og vestanverðu landinu. Þ. 15. gekk öflugt þrumuveður yfir Suðvesturland með töluverðri úrkomuákefð. Vatnsflaumur myndaðist á götum borgarinnar og flæddi upp úr niðurföllum og inn í kjallara. Einnig var þónokkur úrkoma á Suðurlandi og hálendinu þ. 23. til 27. sem olli miklum vatnavöxtum. Stór hluti hálendisins var illfær um tíma.
Úrkoma mældist um meðallag í Reykjavík í mánuðinum, eða 64,6 mm. Á Akureyri mældist úrkoman 19,2 mm sem er um 46% af meðalúrkomu 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 37,6 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 12, eða einum fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 7, einum færri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Í Reykjavík mældust 147,0 sólskinsstundir í mánuðinum. Það er 17,8 stundum undir meðallagi 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 163,2 sólskinsstundir sem er 25,7 stundum yfir meðallagi.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,1 m/s yfir meðallagi ágústmánaða árin 1991 til 2020. Hvassast var þ. 2. til 3. (suðlægar áttir) og þ. 26. (austanátt).
Mánuðurinn byrjaði með hvelli, en mikið hvassviðri var á sunnan- og vestanverðu landinu um verslunarmannahelgina. Það olli útihátíðargestum víða vandræðum, t.a.m. í Vestmannaeyjum. Þ. 15. var hvasst á Vesturlandi og Vestfjörðum.
Í hvassviðri þ. 26. var mikill sjógangur við suðurströndina, sjóvarnargarður rofnaði og fjárhúsi austan við Vík í Mýrdal skolaði á haf út.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur var undir meðallagi um allt land í mánuðinum. Þó var loftþrýstingur óvenjuhár þ. 18. Á mörgum veðurstöðvum hefur ekki mælst eins hár loftþrýstingur í ágústmánuði og mældist þann dag, t.d. á Dalatanga þar sem mælt hefur verið frá 1938.
Í Reykjavík mældist meðalloftþrýstingur mánaðarins 1005,7 hPa sem er 1,9 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1034,1 hPa í Litlu-Ávík þ. 18. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 981,2 hPa í Surtsey þ. 26.
Fyrstu átta mánuðir ársins
Það hefur verið óvenju hlýtt það sem af er ári.
Í Stykkishólmi hafa fyrstu átta mánuðir ársins aldrei verið eins hlýir frá upphafi mælinga 1845. Meðalhitinn þar það sem af er ári var 6,3 stig, sem er 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík var meðalhiti fyrstu átta mánuði ársins 6,7 stig sem er 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þar raðast meðalhiti mánaðanna átta í 5. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Meðalhitinn á Akureyri fyrstu átta mánuði ársins var 6,2 stig, sem er 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þessir fyrstu átta mánuðir ársins hafa aðeins einu sinni verið hlýrri á Akureyri.
Heildarúrkoma mældist 576,4 mm í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins. Það er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoman 372,4 mm sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Sumarið það sem af er (júní til ágúst)
Sumarið (júní til ágúst) var hlýtt á landinu öllu, sérstaklega á Austurlandi. Tíð var almennt góð.
Júnímánuður var þó tiltölulega kaldur og var hiti undir meðallagi um allt land. Í byrjun júní gekk norðanhvassviðri yfir landið, með mikilli úrkomu á Norðurlandi og skapaði talsverð vandræði þar fyrir bændur og ferðafólk. Þetta hret var þó í engum líkindum við júníhretið frá því árinu áður.
Júlí og ágúst einkenndust aftur á móti af hlýindum. Júlí var óvenjuhlýr, sá hlýjasti á landsvísu frá upphafi mælinga (ásamt júlí 1933). Dagar þegar hiti mældist 20 stig eða meiri einhversstaðar á landinu í sumar voru 51 sem er í meira lagi (dagarnir voru 3 í júní, 28 í júlí og 20 í ágúst). Mjög hlýtt var 14. júlí þegar hiti mældist 20 stig eða meiri á um 70% allra veðurstöðva. Hæstur fór hitinn í 29,5 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum, sem er á meðal hæstu hitatölum sem þekkjast hér á landi. Nýtt ágúst hámarkshitamet fyrir landið var svo sett 16. ágúst þegar hitinn mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli.
Meðalhiti sumarsins það sem af er í Reykjavík var 10,9 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja er í 28. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,2 stig sem er 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarsins þar raðast í 16. hlýjasta sæti á lista 145 ára. Meðalhiti sumarsins var 10,8 stig í Stykkishólmi (0,7 stigum yfir meðallagi). Á Egilsstöðum var meðalhiti sumarsins 11,5 stig (1,4 stigum yfir meðallagi). Meðalhiti sumarsins þar raðast í 4. hlýjasta sæti á lista 71 ára. Á Stórhöfða var meðalhiti sumarsins 10,3 stig (0,5 stigum yfir meðallagi).
Úrkoma í Reykjavík mældist 143,4 mm sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 114,9 mm sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Júní var óvenjulega úrkomusamur á Akureyri, en júlí og ágúst tiltölulega þurrir. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 35 í sumar sem er 5 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 25 sem eru 6 fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundir mældust 491,4 í Reykjavík sem er 46,1 stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar sumarsins 480,4 sem eru jafnmargar og þær eru í meðalári. .
Skjöl fyrir ágúst
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2025 (textaskjal).