Fréttir
Nýuppsett GNSS-stöð á Gleiðarhjalla á Ísafirði.

GNSS-stöð sett upp á Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjörð með aðstoð Landhelgisgæslunnar

30.10.2025

Veðurstofan naut liðsinnis þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar við uppsetningu GNSS- gervihnattastaðsetningarstöðvar á Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjörð í gær, 29. október.

Tveir starfsmenn Veðurstofunnar ásamt mælitækjum, undirstöðum og verkfærum voru fluttir með þyrlu frá flugvellinum upp úr hádegi og sóttir aftur þremur tímum síðar. Uppsetningin gekk að óskum og hefur stöðin þegar verið tekin í notkun. Stöðin er knúin af tveimur sólarsellum og einni vindrafstöð. Tilgangurinn með uppsetningunni er að fylgjast með og rannsaka hreyfingar á lausum jarðlögum í Gleiðarhjalla, sem getur veitt betri innsýn í skriðuvirkni neðan hans. Þessi mæling er liður í víðtækari eftirfylgni sem felur í sér greiningu gervitunglagagna og árlega myndatöku með flygildi.

Veðurstofan þakkar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kærlega fyrir veitta aðstoð.

Gnss-stod

Nýuppsett GNSS-stöð á Gleiðarhjalla á Ísafirði. Mynd:Jóhannes Konráð Andrésson


Hvað er GNSS?
GNSS stendur fyrir Global Navigation Satellite System, eða alþjóðlegt gervihnattastaðsetningarkerfi. Það nær yfir öll staðsetningarkerfi sem byggja á gervihnöttum, þar á meðal GPS (Bandaríkin), Galileo (Evrópa), GLONASS (Rússland) og BeiDou (Kína). GNSS-stöðvar taka á móti merkjum frá þessum gervihnöttum og gera nákvæmar mælingar á staðsetningu og hreyfingum, sem nýtast meðal annars til jarðvísinda, vöktunar og rannsókna á jarðlögum og skriðum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica