Mesta snjódýpt í Reykjavík í október frá upphafi mælinga
Snjódýptin mældist 27 sentímetrar að morgni 28. október 2025
Morgunmælingar Veðurstofunnar sýna að snjódýptin í Reykjavík mældist 27 sentímetrar þann 28. október 2025. Það er mesta snjódýpt sem mælst hefur í höfuðborginni í október frá upphafi mælinga árið 1921.
Fyrra októbermet í Reykjavík var 15 sentímetrar, mælt þann 22. október 1921. Næstmest mældist 13 sentímetrar þann 8. október 2013. Að jafnaði er hins vegar lítill sem enginn snjór í Reykjavík í október og samkvæmt viðmiðunartímabilinu 1991–2020 eru að meðaltali engir alhvítir dagar í mánuðinum.
Til samanburðar má nefna að mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík yfir árið allt var:
- 55 cm þann 18. janúar 1937
- 51 cm þann 26. febrúar 2017, þegar borgarbúar vöknuðu við óvenjulegan sunnudagsmorgun með jafnfallinn snjó eftir nótt af mikilli ofankomu.
Á Keflavíkurflugvelli mældist snjódýptin í morgun 18 sentímetrar, en þar hefur mest mælst 25 sentímetrar í október, þann 29. október 2005.
Snjódýptarmælingar eru framkvæmdar daglega kl. 9 að morgni, bæði í Reykjavík og á öðrum mælistöðvum landsins.

Jarþrúður Ósk Jóhannesdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar, við mælingar. Mynd: Veðurstofa Íslands / Haukur Hauksson.




