Minnkandi skriðuhætta og skúrir
Uppfært 3. september
- Á Austfjörðum stytti upp í gærkvöldi og í nótt.
- Engar fregnir af skriðuföllum hafa borist
- Talsvert minna vatn í lækjum og ám
- Spáð er skúrum í dag og á morgun, en ekki samfelldri úrkomu
Eftir tvo mjög úrkomusama daga á Austfjörðum stytti að mestu upp í gærkvöldi og nótt. Sjatnað hefur talsvert í lækjum og ám á svæðinu. Spáð er skúrum í dag og á morgun og geta komið kröftugar dembur, en ekki er gert ráð fyrir samfelldri úrkomu.
Með minnkandi vatni í jarðveginum dregur úr skriðuhættu.
Á næstu dögum má búast við einhverri rigningu víða um land og þar með aukinni hættu á skriðuföllum.
Upplýsingasíða skriðuvaktar Veðurstofunnar veitir nýjustu upplýsingar um stöðuna.
Eskifjörður að morgni 3. september.
Tilkynningar um skriðuföll og grjóthrun
Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist áfram með aðstæðum. Til að leggja betra mat á stöðuna er mikilvægt að almenningur tilkynni skriðuföll og grjóthrun.
Hægt er að:
· Fylla út tilkynningareyðublað hér
· Senda tölvupóst á skriduvakt@vedur.is
· Hringja í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins
Gott er að láta fylgja mynd, nákvæma staðsetningu og tímasetningu um hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð hennar vart.
Eskifjörður að morgni 3. september.
Frétt 2. september
Mikil úrkoma og skriðuhætta á Austfjörðum
Veðurstofan varar við hættu á skriðuföllum og aurskriðum vegna mikillar úrkomu
Spáð er mikilli og áframhaldandi úrkomu næstu daga á Austfjörðum
Veðurstofunni hefur borist tilkynning um skriðu við Eskifjörð
Veðurstofan fylgist náið með mælitækjum á Seyðisfirði og Eskifirði
Spár gera ráð fyrir að úrkoma haldi áfram á norðanverðum Austfjörðum næstu þrjá sólarhringa og geti numið allt að 110 millimetrum á sumum stöðum næsta sólarhringinn. Slíkar aðstæður geta valdið frekari skriðuföllum og grjóthruni, sérstaklega þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum.
Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist grannt með stöðunni. Almenningur er hvattur til að sýna varúð á ferðalögum og tilkynna skriðuföll eða grjóthrun.
Upplýsingasíða skriðuvaktar Veðurstofunnar veitir nýjustu upplýsingar um stöðuna.
Tilkynna skriðuföll
Til að Veðurstofan geti metið aðstæður betur er mikilvægt að almenningur tilkynni skriðuföll og grjóthrun.
Hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.
Senda tölvupóst á skriduvakt@vedur.is
Hringja í síma 522-6000 á opnunartíma
Gott er að láta fylgja með mynd, nákvæma staðsetningu og tímasetningu um hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð hennar vart.
Myndin sýnir uppsafnaða úrkomu frá morgni þriðjudags til fimmtudagskvölds 4. september kl. 21. Spáin nær 60 klukkustundir fram í tímann og gerir ráð fyrir mestri úrkomu á Austfjörðum.