Fréttir

Hitabylgjan 13. til 22. maí 2025

Tíu daga samfelldur hlýindakafli, með björtu og hlýju veðri um allt land

23.5.2025


  • Mesta hitabylgja sem vitað er um í maímánuði hér á landi
  • Hiti mældist 20 stig eða meiri einhvers staðar á landinu 10 daga í röð
  • Fjöldi maíhitameta settur á veðurstöðvum um land allt
  • Hæstur fór hitinn í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli sem er nýtt maíhitamet fyrir landið.

Dagana 13. til 22. maí 2025 var óvenjuleg hitabylgja á landinu sem orsakaðist af langvarandi hæð við Færeyjar sem færðist síðan smám saman yfir Ísland. Hæðin beindi hlýju lofti úr suðri til landsins dögum saman. Þrátt fyrir að dæmi séu til um svipuð veðurskilyrði, er hitabylgjan þessa daga óvenjuleg og það er merkilegt hversu snemma árs hún átti sér stað, hversu lengi hún stóð og hversu útbreidd hún varð.

Mjög hlýtt og bjart var á landinu öllu þessa daga og hiti langt yfir því sem vanalegt er á þessum árstíma. Að tiltölu var hlýjast á hálendinu norðaustan- og austanlands þar sem meðalhiti þessara tíu daga maímánaðar var um 10 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára (sjá mynd 1). Ekki varð jafn hlýtt við suður- og suðausturströndina, en þar var hitinn samt um þremur stigum yfir meðallagi sömu ára.


Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva dagana 13. til 22. maí 2025 miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Hiti mældist 20 stig eða meiri einhvers staðar á landinu 10 daga í röð (13. til 22. maí),  en slíkir dagar hafa verið 2 til 3 að meðaltali í maí síðastliðin ár, og í raun er ekkert algilt að slíkir dagar komi í maí. Hitinn fór einnig í 20 stig þ. 7.maí svo að heildarfjöldi slíkra daga er 11 það sem af er maímánuði 2025.

Hlýindin náðu hámarki helgina 17. til 18. maí. Þá daga fór hitinn upp í 20 stig eða meira á um helmingi allra veðurstöðva landsins (sjá mynd 2). Meðalhiti á landsvísu var einnig hæstur þessa tvo daga (sjá mynd  3). Maímánuður hefur í raun allur verið einstaklega hlýr hingað til. Þegar landsmeðalhiti hvers sólarhrings er borinn saman við meðaltal síðustu 10 ára sést að hitavikið var lítillega neikvætt tvo daga mánaðarins, en jákvætt aðra daga (sjá mynd 3).

Á mörgum veðurstöðvum víðsvegar um landið hefur meðalhiti fyrstu 22 daga maímánaðar aldrei verið eins hár, t.d. á mönnuðu stöðvunum í Stykkishólmi, Reykjavík, Dalatanga og Vatnsskarðshólum. Það hefur verið sérstaklega hlýtt á Norðausturlandi.  Á Akureyri sem á yfir 100 ára mælisögu, var meðalhiti þessara fyrstu 22 daga, 10,9 stig sem er langtum hlýrra en þessir dagar hafa nokkurn tímann verið. Það sama á við á mönnuðu veðurstöðinni á  Grímsstöðum á Fjöllum þar sem meðalhitinn var tæp 10 stig og sá langhæsti þar, yfir þetta tímabil, frá upphafi mælinga.


Mynd 2. Stöplaritið sýnir hversu hátt hlutfall veðurstöðva mældi 20 stiga hita eða meira dagana 1. til 22. maí 2025. Dagana 17. og 18. maí var það um 50% allra stöðva. Rauðir punktar og lína sýna hámarkshita landsins þessa sömu daga. Hæstur fór hitinn í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 15.maí og er það nýtt maíhitamet fyrir landið.


Mynd 3: Landsmeðalhiti hvers dags á tímabilinu 1. til 22.maí  2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024). Maí hefur allur verið einstaklega hlýr, fyrir utan dagana 9. og 10. maí þegar hiti var lítillega undir meðallagi.

Fjöldi maíhitameta settur

Maíhitamet voru slegin á miklum fjölda veðurstöðva um land allt í hitabylgjunni. Hæstur fór hitinn í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 15.maí og er það nýtt maíhitamet fyrir landið. Fyrir þann tíma var hámarkshiti maímánaðar 25,6 stig á Vopnafirði þ. 26. maí 1992. Þetta eldra met var slegið þrisvar sinnum til viðbótar næstu daga í ólíkum landshornum; aftur á Egilsstaðaflugvelli (26,4 stig, þ. 17.), á Végeirsstöðum í Fnjóskadal (26,0 stig, þ. 17.) og í Húsafelli (25,7 stig, þ. 18.). 

Á mynd 4 má sjá allar sjálfvirkar stöðvar þar sem nýtt hámarkshitamet fyrir maímánuð var sett. Þetta eru eingöngu stöðvar sem hafa mælt í 20 ár eða lengur. Af þeim stöðvum var nýtt maíhitamet sett á 83 stöðvum af 88 veðurstöðvum. Langflest metin voru sett dagana 17. og 18. maí, en það var þó aðeins ólíkt eftir landsvæðum hvaða daga hlýindin náðu hámarki.

Mönnuðu veðurstöðvarnar hafa flestar mun lengri mælisögu heldur en sjálfvirku stöðvarnar, en mjög fáar þeirra eru enn starfandi. Af þeim stöðvum mældist hæsti hiti í maí frá upphafi mælinga í Stykkishólmi (20,5 stig), Grímsstöðum á Fjöllum (24,0 stig), Litlu-Ávík (23,3 stig), en sá næsthæsti í Reykjavík og á Akureyri.


Mynd 4: Sjálfvirkar veðurstöðvar þar sem ný maíhámarkshitamet voru sett í hitabylgjunni í maí 2025. Þetta eru eingöngu veðurstöðvar sem hafa að minnsta kosti 20 ára mælisögu. Nýtt maímet var sett á 83 stöðvum af 88. Mismunandi litir punktanna sýna hvaða dag nýtt met var sett.

Hitabylgjur fyrri ára

Hitabylgjur koma af og til á Íslandi, þegar hiti mælist markvert hærri en venjulega, nokkra daga í röð. Hitabylgjan nú (13. til 22. maí 2025) er sú mesta sem vitað er um hér á landi í maímánuði. Sú maí hitabylgja sem kemst næst þessari, er hitabylgjan í maí 1987, sem átti sér stað í mjög svipuðum veðurskilyrðum og nú.

Mestu hitabylgjur síðustu ára, þegar litið er á lengd og útbreiðslu hlýinda, voru um mánaðamótin júlí/ágúst 2008 og í ágúst 2004. Þá var eins og nú, slegin fjöldi hitameta víðsvegar um landið og hiti fór yfir 20 stigin nokkra daga í röð. Hitinn fór þó töluvert hærra í þessum hitabylgjum en núna, enda áttu þær sér stað síðsumars en ekki á vordögum. Mikil hlýindi voru líka sumarið 2021, en þau hlýindi voru að mestu bundin við Norðaustur- og Austurland.

Aðrar þekktar hitabylgjur á Íslandi voru í júlí 1991 og í júlí 1976.

Einnig hafði ríkt mikil hitabylgja á landinu í nokkra daga í júní 1939,  þegar hitinn á Teigarhorni mældist 30,5 stig þ. 22. júní. En það er hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica