Fréttir
Grímsvötn (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Grímsvatnahlaup hafið

Hægt vaxandi hlaupórói hefur mælst á Grímsfjalli síðustu daga

13.1.2025

  • Ef atburðarás verður svipuð og í síðustu hlaupum mun hámarksrennsli líklega verða seinni hluta vikunnar
  • Hlaupið ætti ekki að hafa nein áhrif á mannvirki, s.s. vegi og brýr
  • Grímsvatnahlaup hafa orðið nærri árlega síðan í nóvember 2021 en þar áður 2018
  • Dæmi eru um að eldgos verði vegna þrýstiléttis í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Þó hafa jökulhlaup orðið mun oftar án þess að til eldgoss komi

Undanfarna daga hefur mælst hægt vaxandi hlaupórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli. Það bendir til þess að jökulhlaup sé hafið úr Grímsvötnum. Jökulhlaup úr Grímsvötnum koma fram undan Skeiðarárjökli og renna í Gígjukvísl. Hlaupin eru vanalega hægt vaxandi og geta liðið nokkrir dagar þangað til fyrstu merki um hlaupvatn mælast á vatnamælingastöðinni í Gígjukvísl og aftur nokkrir dagar til viðbótar þangað til hlaupið nær hámarksrennsli. Nokkur úrkoma hefur verið á SA-landi og gert er ráð fyrir enn frekari úrkomu í dag og næstu daga. Úrkoman getur gert það erfiðara að greina fyrstu merki um hlaupið í Gígjukvísl.

Oroagraf_gif

Óróagraf frá jarðskjálftamælingum á Grímsfjalli. Grafið sýnir gögn á þremur mismunandi tíðnibilum, hvert í sínum lit. Þetta graf hjálpar vísindamönnum við að greina hver uppruni órans er. Bláa línan, sem sýnir óróa á tíðnibilinu 2 til 4 Hz, sýnir hvernig hlaupórói hefur vaxið jafnt og þétt síðustu daga.

Síðast varð jökulhlaup úr Grímsvötnum fyrir nær nákvæmlega ári síðan og hefur hlaupið þaðan með um það bil árs millibili síðan í nóvember 2021. Þar áður var heldur lengra á milli hlaupa og seinasta hlaup fyrir 2021 var hlaupið árið 2018. Skv. mælingum Jarðvísindastofnunar er vatnsmagn í Grímsvötnum nú talið vera um 0,25 km3, sem er sambærilegt eða tæplega það sem var í vötnunum fyrir síðasta hlaup. Þetta vatnsmagn er tæpur þriðjungur þess sem var í vötnunum fyrir hlaup í lok árs 2021.

Ekki næst samband við GPS-tæki Jarðvísindastofnunar á íshellunni í Grímsvötnum og því er erfiðara að leggja mat á það hversu ört vatnið rennur úr vötnunum og niður farveginn undir Skeiðarárjökli en óróamælingar á Grímsfjalli gefa vísbendingar um þróun hlaupsins. Ef miðað er við að atburðarás í þessu hlaupi verði svipuð og í síðustu hlaupum má gera ráð fyrir að hámarksrennsli úr Grímsvötnum verði líklega í lok þessarar viku. Hámarksrennsli í Gígjukvísl við Þjóðveg 1 næst svo um 1-2 sólarhringum seinna. Miðað við það vatnsmagn sem safnast hefur í Grímsvötnum er líklegt að hámarksrennsli verði ekki umfram 1.000 m3/s. Búast má við að hámarksrennsli í Gígjukvísl við Þjóðveg 1 verði svipað og hámarksrennsli úr Grímsvötnum. Hlaupið ætti því ekki að hafa nein áhrif á mannvirki, s.s. vegi og brýr.

Grimsvatnahlaup_kort

Kort af áætlaðri hlaupleið úr Grímsvötnum niður í Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Vatnamælingastöð VÍ í Gígjukvísl (V159) er merkt á kortinu.  

Í síðustu hlaupum hafa myndast nýir sigkatlar á yfirborði jökulsins yfir hlaupfarveginum SA við Grímsfjall. Því ætti ferðafólk á Vatnajökli að gæta ítrustu varúðar ef það er á ferðinni nærri Grímsfjalli. Einnig er hætta á því að gasmengunar gæti orðið vart við jökulsporð Skeiðarárjökuls þar sem hlaupvatnið kemur undan jöklinum.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs geti hleypt af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Mun oftar hefur þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss kæmi og hafa 13 hlaup komið frá Grímsvötnum eftir 2004 án þess að eldgos hafi fylgt í kjölfarið. Síðast varð eldgos í Grímsvötnum árið 2011 en það var ekki í tengslum við jökulhlaup þaðan.

Jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum undanfarna mánuði hefur verið innan eðlilegrar virkni. Á meðan jökulhlaupinu stendur er þó líklegt að skjálftavirkni muni aukast í tengslum við það. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar ásamt sérfræðingum Jarðvísindastofnunar munu fylgjast náið með virkni í Grímsvötnum næstu daga og verður fréttin uppfærð aftur í síðari hluta vikunnar en athugasemd jarðvársérfræðings uppfærð daglega.

Vegna óvissu um þróun atburðarins og samband jökulhlaupa og eldgosa í Grímsvötnum mun Veðurstofan endurmeta fluglitakóða fyrir Grímsvötn í kringum hámark hlaupsins eða ef aðstæður breytast.

Nánar um eldstöðina Grímsvötn og jökulhlaup þaðan

Grímsvötn eru ein virkasta megineldstöð landsins og eru nærri miðjum Vatnajökli. Í öskju megineldstöðvarinnar er stöðuvatn undir yfirborði jökulsins. Það myndast vegna jarðhita undir jöklinum og aðrennslis bræðsluvatns af yfirborði jökulsins. Þegar vatnsmagn og þrýstingur er orðinn nægilega mikill getur vatnið brotið sér leið úr Grímsvötnum til austurs og vatn hleypur fram við jökulbotninn og kemur undan sporði Skeiðarárjökuls og rennur í Gígjukvísl.

Um 20 gos hafa orðið í Grímsvötnum og nágrenni á síðustu 200 árum. Síðasta gos í Grímsvötnum var árið 2011 og var það nokkuð stórt og kröftugt. Síðustu gos hafa annars verið fremur lítil og staðið yfir í nokkra daga. Meiri upplýsingar um eldstöðina er að finna í vefsjá íslenskra eldfjalla.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica