Fréttir
Bárðarbunga. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson/Veðurstofa Íslands

Öflug jarðskjálftahrina í Bárðarbungu hófst í morgun. Stærsti skjálftinn M5.1

Um 130 skjálftar hafa mælst frá því í morgun. Kröftugasta skjálftahrinan síðan 2014, þegar eldgos hófst í Holuhrauni

14.1.2025

Uppfært 14. janúar kl. 16:30

  • Eftir klukkan 9 í morgun dró verulega úr ákafa skjálftanna

  • Óljóst hvort að hrinan sé að fjara út eða muni taka sig upp aftur

  • Fluglitakóði fyrir Bárðarbungu er áfram gulur

  • Eldstöðin er óvenju stór og margar sviðsmyndir um mögulega þróun

  • Náið verður fylgst með þróun skjálftavirkninnar

Eftir kl. 9 í morgun dró verulega úr ákafa jarðskjálftahrinunnar í Bárðarbungu og hafa fáir jarðskjálftar mælst síðan þá.  Töluverður ákafi var í skjálftahrinunni. Þrátt fyrir minni virkni mælast enn skjálftar, og náið verður fylgst með áframhaldandi þróun.

Jarðskjálftahrinan hófst rétt upp úr klukkan 6 í morgun og náði hámarki klukkan 8:05 þegar stærsti skjálftinn, að stærð M5,1 mældist. Að auki hafa 17 skjálftar yfir M3 að stærð verið skráðir, þar af tveir um eða yfir M4 að stærð.

Jarðskjálftar verða yfirfarnir og gætu breytingar orðið á skráðum skjálftum og stærð þeirra. Fluglitakóði er áfram gulur, sem gefur til kynna aukna virkni miðað við venjulegt ástand og óvissu um þróunina.

Framvinda óljós

Þrátt fyrir minni virkni er ekki hægt að segja til um hvort hrinan sé að fjara út. Margar sviðsmyndir koma til greina um þróun jarðhræringa á svæðinu. Náið verður fylgst með þróun skjálftavirkninnar í Bárðarbungu og mögulegum eldsumbrotum. Frekari upplýsingar verða birtar eftir því sem ný gögn berast. 


Frétt 14. janúar kl. 11:50

  • Stærsti skjálftinn var M5.1 að stærð kl. 8:05 og 17 skjálftar yfir M3 að stærð
  • Skjálftavirkni hefur aukist í Bárðarbungu síðustu mánuði
  • Mikill ákafi til kl. 9 í morgun, síðan byrjaði að draga úr
  • Fluglitakóði fyrir Bárðarbungu hefur verið færður á gulan
  • Eldstöðin er óvenju stór og margar sviðsmyndir um mögulega þróun

Öflug jarðskjálftahrina hófst rétt upp úr kl. 6 í morgun í norðvestanverðri Bárðarbunguöskjunni. Um 130 jarðskjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst og mældist stærsti skjálftinn M5.1 að stærð kl. 8:05. 

Um 17 aðrir skjálftar yfir M3 að stærð hafa einnig mælst og a.m.k. tveir þeirra voru um eða yfir M4 að stærð.

Unnið verður að nánari yfirferð á jarðskjálftunum og gætu þessar tölur átt eftir að breytast.

Töluverður ákafi var í hrinunni þangað til um kl. 9 í morgun en þá byrjaði að draga úr ákefðinni, en áfram mælast skjálftar á svæðinu og of snemmt að segja til um hvort hrinan sé að fjara út.

Kort_14012025

Samsett mynd úr jarðskjálftavefsjá VÍ. Kortið uppi vinstra megin sýnir staðsetningu jarðskjálftanna. Svarti hringurinn sýnir útlínur öskjunnar í Bárðarbungu. Uppi hægra megin er graf sem sýnir stærðir jarðskjálftanna. Dökk fjólubláar súlur eru yfirfarnir skjálftar en ljósari súlur eru óyfirfarnir skjálftar. Grafið niðri vinstra megin sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta og niðri hægra megin má sjá fjölda skjálfta á klukkustund.

Aukning í þenslu og kvikusöfnun frá 2015

Jarðskjálftahrinan er sú kröftugasta síðan að síðustu eldsumbrot urðu  í Bárðarbungu frá 2014 til 2015 og eldgos varð í Holuhrauni.  Hreyfingar í jarðskjálftunum samræmast aukinni þenslu vegna kvikusöfnunar sem hefur staðið yfir frá síðustu eldsumbrotum 2015.

Jarðskjálftavirkni hefur farið vaxandi í Bárðarbungu síðustu mánuði og mældust m.a. fjórir skjálftar um eða yfir M5 að stærð á árinu 2024. Samhliða því hefur mælst aukin hraði í aflögun vegna kvikuinnstreymis á dýpi undir Bárðarbungu.

Margar sviðsmyndir koma til greina

Náið verður fylgst með virkninni en erfitt er að segja til um hver þróunin verður á þessum tímapunkti. Bárðarbunga er sérstök að því leiti að hún er óvenju stór eldstöð, að hluta hulin jökli og margar sviðsmyndir koma til greina.

Miklar rannsóknir ásamt gerð hættumats og viðbragðsáætlana fóru fram í kringum eldsumbrotin 2014-2015, sem munu nýtast komi til frekari umbrota.

Dæmi eru um að kvikugangar myndist út frá öskjunni og eldgos verði utan hennar eins og í Holuhrauni 2014-2015 og í eldgosinu í Gjálp 1996. Ekki er þó hægt að útiloka að eldgos komi upp innan öskjunnar. Verði eldgos undir jökli er hætta á öskugosi og jökulhlaupum undan Vatnajökli, en ef gýs utan jökulsins yrði það hraungos.

Fluglitakóði fyrir Bárðarbungu hefur verið færðu á gulan en það er gert þegar eldstöðvar sýna merki um virkni sem er metin umfram venjulegt ástand.

Nánari upplýsingar um eldstöðvarkerfi Bárðarbungu má finna í íslensku Eldfjallavefsjánni.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica