Fréttir
Þátttakendur tylltu sér á upptakastoðvirki neðan Gróuskarðshnjúks.

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hafin í ár

Snjóflóðavakt hófst með samráðsfundi í Fjallabyggð

16.10.2014

Snjóflóðavakt Veðurstofu hefst 15. október ár hvert og fyrir þann tíma hittast snjóathugunarmenn og snjóflóðavakt á árlegum samráðsfundi. Á Veðurstofunni starfa 6 manns á snjóflóðavakt og 20 snjóathugunarmenn víða um land.

Á þessum fundum er m.a. farið yfir veturinn á undan, snjóflóðaaðstæður og ákvarðanatöku. Tilgangurinn er að halda stöðugt áfram að þróa og bæta snjóflóðavöktunina. Einnig er farið yfir öryggismál starfsmanna, uppbyggingu varnarvirkja, snjófræði og helstu nýjungar í starfinu framundan.

Samráðsfundurinn var að þessu sinni haldinn í Fjallabyggð. Lögð var áhersla á að kenna á og prófa nýtt smáforrit (app) í síma þar sem hægt er bæði að mæla og teikna inn útlínur snjóflóða. Tækifærið var einnig notað og gengið um varnarvirki á Ólafsfirði og Siglufirði.

Í tengslum við samráðsfundinn var haldinn opinn fundur fyrir íbúa þar sem fjallað var um störf snjóathugunarmanna, snjóflóðaspá fyrir Ólafsfjarðarveg og uppbyggingu varnarvirkja.

Einnig voru haldnir fundir með fagaðilum á svæðinu, þ.e. aðilum sem þurfa að leggja mat á snjóflóðahættu í sínu starfi eða rekstri. Á þá fundi mættu fulltrúar frá Vegagerð, Rarik, skíðasvæðum, ferðaþjónustufyrirtækjum í fjallaskíðamennsku o.fl.

Veðurstofan minnir landsmenn nú í byrjun vetrar á snjóflóðaspá og snjóflóðatilkynningar ásamt fréttum ofanflóðavaktar á vefnum, þó vonandi bresti ekki á með slíkum viðburðum enn um sinn.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica