Fréttir
Snjóflóð í Skeggjabrekkudal vorið 2013.

Opinn fundur um snjóflóðamál á Ólafsfirði

Hluti af samráðsfundi snjóathugunarmanna og snjóflóðavaktar

7.10.2014

Árlegur samráðsfundur snjóathugunarmanna og snjóflóðavaktar Veðurstofunnar fer fram dagana 8.-10. október 2014 og að þessu sinni í Fjallabyggð en á vegum Veðurstofunnar og sveitarfélaga eru starfandi tuttugu snjóathugunarmenn víða um land.

Við upphaf snjóflóðavaktar, ár hvert, hittast þeir ásamt öðru ofanflóðastarfsfólki Veðurstofunnar og ræða um mál sem tengjast vöktun á snjóflóðum og skriðuföllum. Þar fá athugunarmenn einnig þjálfun og fræðslu.

Af þessu tilefni er boðið til opins fundar um snjóflóðamál í félagsheimilinu Tjarnarborg á Ólafsfirði miðvikudaginn 8. október kl. 17:30. Flutt verða þrjú erindi og auk þess er gert ráð fyrir spurningum og umræðum. Erindin og efni þeirra er á þessa lund:

  • Störf snjóathugunarmanna. Gestur Hansson
    • Á vegum Veðurstofunnar og Fjallabyggðar starfa snjóathugunarmenn á Siglufirði og Ólafsfirði. Gestur Hansson hefur annast snjóathuganir á Siglufirði frá árinu 2007. Hann hefur á þeim tíma öðlast víðtæka reynslu á viðfangsefninu, sem hann segir frá í máli og myndum.
  • Ólafsfjarðarvegur og snjóflóðaspá Veðurstofu. Sveinn Brynjólfsson
    • Þótt Múlagöng séu mikil öryggisbót fyrir vegfarendur á leið milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur þá liggur vegurinn enn um nokkra snjóflóðafarvegi. Síðastliðinn vetur hóf Veðurstofan að vakta snjóflóðahættu á leiðinni og skila daglega stöðumati og spá til Vegagerðarinnar. Sagt verður frá snjóflóðaaðstæðum á Ólafsfjarðarvegi og þessu nýtilkomna samstarfi Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar.
  • Varnarvirki gegn ofanflóðum. Tómas Jóhannesson, Eiríkur Gíslason og Sigurður Hlöðversson
    • Á undanförnum árum hefur verið ráðist í viðamiklar varnaraðgerðir gegn snjóflóðum bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði. Þessar aðgerðir eru hluti af umfangsmiklum framkvæmdum í byggðarlögum víða um land þar sem hætta er á ofanflóðum. Veðurstofan hefur fjölþættu hlutverki að gegna við undirbúning slíkra verkefna en Framkvæmdasýsla Ríkisins hefur umsjón með verklegum framkvæmdum sem eru á forræði viðkomandi sveitarfélaga. Á Siglufirði er unnið eftir áætlun um snjóflóðavarnir fyrir byggðina sem sett var fram árið 2001. Fjallað verður um ástæður þess að nauðsynlegt þykir að ráðst í þessar framkvæmdir, stöðuna nú og áætlanir næstu ára. Einnig verða sýnd dæmi um ofanflóðavarnir frá öðrum stöðum á landinu og frá öðrum löndum.

Áætlað er að dagskráin taki um klukkutíma og eru allir velkomnir.

Margvíslegan fróðleik um ofanflóðamál má finna á vef Veðurstofunnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica