Fréttir

Dagur hafsins

Alþjóðlegur dagur hafsins 8. júní

6.6.2014

Í tilefni af alþjóðlegum degi hafsins hinn 8. júní ár hvert vekur Veðurstofan athygli á þeirri þjónustu við sjófarendur sem birt er á veðurvefnum. Nefna má hafístilkynningar, spár fyrir landið og miðin, spár fyrir mið og djúp, spákort fyrir Atlantshaf og greiningu á sjávarhita.

Um hafístilkynningar á vefnum

Hafístilkynningar berast í gegnum sjálfvirkt tilkynningakerfi og starfsmenn á sólarhringsvakt Veðurstofunnar birta þær jafnóðum á vefnum. Vakthafandi veðurfræðingur gerir kort af aðstæðum eftir þörfum, byggt á gervitunglamyndum, og gerir spá um hvert hafísinn mun reka.

Tilkynningar um hafís berast frá skipum í gegnum Vaktstöð siglinga, frá Landhelgisgæslunni, úr flugvélum og frá athugunarmönnum og öðrum sem verða varir við hafís við land.

Miðlun hafístilkynninga gagnast öllum sjófarendum og Landhelgisgæslunni. Auknar strandveiðar og tíðari komur skemmtiferðaskipa gera þessa þjónustu brýnni. Einnig nýtist hún margskonar siglingaáhugamönnum.

Hafístilkynningar eru líka sendar út  á ensku á NAVTEX, þjónustu sem allir sjófarendur þekkja, auk þess að vera lesnar með næstu sjóveðurspá í útvarpi. Á hafíssíðum vefsins má einnig skoða ískort  sem uppfærast reglulega, frá norsku og dönsku veðurstofunum; svo og ýmsan fróðleik um hafís.

Önnur vefþjónusta við sjófarendur

Sjóveðurspá hefur sérstakan sess og er birt sem textaspá, spákort fyrir land og mið og spákort fyrir mið og djúp. Með spákorti fyrir Atlantshaf, sem sýnir vind og loftþrýsting 5 daga fram í tímann, er bæði birt hitaspá (hiti í 850hPa) og úrkomuspá.

Veðurtunglamyndir, fyrir Atlantshaf og Ísland og hafíssvæðin norðvestur af landinu, sýna hvernig þróunin hefur verið undanfarna daga; hafísþéttleikakort sömuleiðis. Sjávarhitaspá frá ECMWF gildir nokkra daga fram í tímann en sjávarhitagreining frá OSTIA sýnir breytingar undanfarinna daga.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica