Tíðarfar í júlí 2019
Stutt yfirlit
Tíð var sérlega hlý um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá upphafi mælinga, og á fáeinum stöðvum öðrum meðal þeirra 3 til 4 hlýjustu. Svalara var og tíð mun daufari um landið norðan- og austanvert en þó var hiti ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum.
Úrkoma var ekki fjarri meðallagi á Suður- og Vesturlandi, en yfir því norðaustanlands. Úrkoma var langmest á litlu svæði norðantil á Austfjörðum. Vindhraði var ívið minni en í meðalári.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 13,4 stig og er það 2,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,1 stig, 1,6 stig yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,8 stig og 11,4 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalh.°C | vik 61-90 °C | röð | af | vik 09-18 °C |
Reykjavík | 13,4 | 2,9 | 1 | 149 | 1,4 |
Stykkishólmur | 11,8 | 1,9 | 11 | 174 | 0,8 |
Bolungarvík | 10,6 | 1,6 | 28 | 122 | 0,5 |
Grímsey | 9,0 | 1,5 | 30 | 146 | 0,2 |
Akureyri | 12,1 | 1,6 | 25 | 139 | 0,9 |
Egilsstaðir | 10,6 | 0,3 | 33 | 65 | -0,1 |
Dalatangi | 9,0 | 1,0 | 21 | 81 | 0,1 |
Teigarhorn | 9,9 | 1,1 | 15 | 147 | 0,3 |
Höfn í Hornaf. | 11,4 | 0,9 | 0,5 | ||
Stórhöfði | 10,9 | 1,3 | 22 | 143 | 0,3 |
Hveravellir | 9,8 | 2,8 | 3 | 55 | 1,5 |
Árnes | 13,5 | 2,6 | 3 til 4 | 140 | 1,5 |
Meðalhiti og vik (°C) í júní 2019
Eins og kom fram í inngangi var hlýtt að tiltölu á sunnanverðu landinu á meðan kaldara var norðan og austanlands. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Jákvætt hitavik var mest 1,8 stig í Bláfjallaskála en neikvætt hitavik var mest á Seyðisfirði, -1,0 stig neðan meðallags síðustu 10 ára.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 13,5 stig á Þingvöllum, í Hjarðarlandi og í Árnesi. Lægstur var meðalhitinn 5,2 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 7,6 stig á Fonti.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 26,9 stig í Hjarðarlandi þ.29. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist líka í Hjarðarlandi sama dag, 26,5 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -3,3 stig á Gagnheiði þ. 1. Mest frost í byggð mældist -2,4 stig í Möðrudal þann 3.
Eitt landsdægurhitamet var sett í mánuðinum þegar hiti mældist 25,9 stig í Ásbyrgi þann 28. Eldra met var 25,2 stig, sett á Húsavík 2008.
Úrkoma
Úrkoma var víðast hvar í ríflegu meðallagi. Einna þurrast sums staðar á norðanverðu Vesturlandi og vestan til á Norðurlandi. Mikið rigndi í nokkra daga allra austast á landinu og var mánaðarúrkoma á Dalatanga sú næstmesta sem vitað er um í júlímánuði. Úrkoma á öðrum stöðum var langt frá metum.
Úrkoma í Reykjavík mældist 56,4 mm sem er um 9% umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 62,4 mm sem er 90% umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 40,0 mm sem er í tæpu meðallagi. Á Höfn mældist úrkoman 205 mm - tala sem bíður staðfestingar (frumgögn hafa ekki borist enn).
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, einum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 15 daga sem er sjö fleiri í meðalári og hafa aðeins einu sinni verið fleiri í júlí, það var í fyrra. Í Stykkishólmi voru úrkomudagarnir 8 og á Höfn í Hornafirði voru þeir 19.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundafjöldi var ekki fjarri meðallagi um landið suðvestanvert, en færri en í meðalári norðanlands.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 194,6 sem er 23,3 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og meir en 100 stundum fleiri en í júlí í fyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 132,9, sem er 25,4 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,3 m/s undir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi flesta daga mánaðarins.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1011,2 hPa og er það 1,1 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1026,1 hPa á Dalatanga þann 31. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 998,7 hPa á Höfn í Hornafirði þ.18.
Fyrstu sjö mánuðir ársins
Meðalhiti fyrstu sjö mánaða ársins var 5,8 stig í Reykjavík sem er 1,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 6. hlýjasta sæti á lista 149 ára, ofar eru sömu mánuðir 1964, 1929, 2003, 2014 og 2010. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,6 stig. Það er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 15. sæti á lista 139 ára. Úrkoman hefur verið tæp 10% umfram meðallag í Reykjavík og á Akureyri.
Skjöl fyrir júlí
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2019 (textaskjal) .
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.