FUTUREVOLC verkefnið árangursríkt
Staðan tekin á Hótel Örk – ársfundur og kynningarfundur með hagsmunaaðilum
Í næstu viku verða haldnir hérlendis tveir viðamiklir fundir í FUTUREVOLC en Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofa Íslands hafa leitt þetta samevrópska verkefni um eldfjallavá. Haldinn verður þriðji ársfundur verkefnisins, sem jafnframt er sá síðasti því verkefninu lýkur í mars 2016.
FUTUREVOLC verkefnið hófst haustið 2012 og meginmarkmið þess voru: Að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, að þróa nýjar aðferðir til að meta hættuna af einstökum viðburðum, að efla skilning vísindasamfélagsins á kvikuferlum í jarðskorpunni og að bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda.
Segja má að allt hafi lagst á eitt til þess að þetta næði fram að ganga, ekki bara samhent átak þeirra sem unnu verkin og fjármögnuðu þau heldur líka náttúran sjálf. Á Íslandi urðu ný mælitæki til þess að nýliðnir náttúruatburðir eru svo vel skráðir að þess eru fá ef nokkur dæmi annarsstaðar í heiminum. Og enginn gat séð það fyrir að hér brysti á með óvenjustórum náttúruváratburðum meðan á FUTUREVOLC verkefninu stæði.
Exploiting the outcome of FUTUREVOLC
Að ársfundi loknum verður haldinn kynningarfundur með ýmsum hagsmunaaðilum undir yfirskriftinni Exploiting the outcome of FUTUREVOLC og fjallað um hagnýtingu á árangrinum en til hagsmunaaðila má t.d. telja almannavarnir, lögreglu, flugrekstraraðila og stofnanir er sinna mengunarvöktun.
Þar verður dregið fram hvernig verkefnið hefur stuðlað að framþróun í vöktun og rannsóknum á eldfjöllum; þar verða einnig lagðar fram margvíslegar upplýsingar um eldgos og eldfjallavá.
Upptökur af erindum verða birt á netinu síðar. Eftir fræðsluerindi og umræður verður skipt í minni hópa með ólíkum áherslum þar sem fundarmenn geta skipst á hugmyndum og rætt hver eftirfylgnin verður.
Lofthjúpurinn
Tveir hópar innan FUTUREVOLC hafa skoðað gosmekki og öskuský frá eldstöðvum, sem og gasmengun. Annar hópurinn skoðar það sem gerist næst eldfjöllum, m.a. með það markmið að geta metið í rauntíma styrk eldgoss, makkarhæð og magn gosefna í lofti. Ýmsum mælitækjum er beitt, svo sem rafsviðsmælum, öskufallsmælum, innhljóði (infra-sound), ratsjám og hita- og ljósnæmum vefmyndavélum, auk hefðbundnari mælitækja svo sem gasmæla, veðurstöðva og háloftabelgja.
Hinn hópurinn hefur einbeitt sér að því sem gerist fjær eldstöðinni. Fjarkönnunargögn eru notuð til þess að leggja mat á magn gosefna í lofthjúpnum (ösku og gastegundir), dreifingu þeirra og hvert þau stefni. Þessar upplýsingar má síðan setja í spálíkön sem eru notuð til að vara hagsmunaaðila við.
Í eldgosinu í Holuhrauni voru settir upp gasmælar sem mældu gasmengun frá eldstöðinni og einnig var mengunin mæld þar sem gasmökkurinn lá yfir þjóðveg 1. Þessar upplýsingar voru svo notaðar til þess að sannreyna gaslíkan sem Veðurstofa Íslands keyrði og birti á vef sínum.
Gliðnun og sig
Tvær GPS stöðvar voru settar upp við Bárðarbungu sumarið 2013 vegna vísbendinga um vaxandi virkni í eldstöðinni. Þessar stöðvar gegndu lykilhlutverki í að nema aðdraganda og framvindu gliðnunarhrinunnar í Bárðarbungu sem hófst í ágúst 2014. Að gosi loknu gegna þær vöktunarhlutverki og veita efnivið til merkra rannsókna um langa hríð.
Jarðskjálftar
Vegna aukinnar skjálftavirkni í Bárðarbungu og öðrum eldstöðvum í vestanverðum Vatnajökli voru tveir nýir jarðskjálftamælar settir upp á skerjum í jöklinum sumarið 2013 og undirbúningur hafinn að uppsetningu tveggja viðbótarstöðva í jökulísnum sjálfum en það krafðist umtalsverðrar tæknilegrar þróunarvinnu.
Jöklastöðvar voru tilbúnar vorið 2014 en sérhönnuðu jarðskjálftamælarnir sjálfir komu haustið eftir. Allar stöðvarnar hafa verið reknar sem rauntíma-eftirlitsstöðvar og hafa þær stórlega aukið næmni SIL kerfisins fyrir skjálftavirkni í eldstöðvum. Jarðskjálftamælafylki sem sett voru upp á vegum FUTUREVOLC juku enn frekar vöktunargetu með virkni í eldstöðvum Vatnajökuls og í Bárðarbunguumbrotunum gerðu þau kleift að stefnumiða á óróahviður sem urðu á fyrstu vikum umbrotanna.
Við upphaf Bárðarbunguumbrotanna vantaði ennþá mælana í jöklastöðvarnar tvær en þá voru fengnir lánsmælar sem voru reknir í tvo mánuði. Nýju stöðvarnar fjórar gerðu það kleift að fylgjast náið með virkni í eldstöðinni meðan á umbrotunum stóð og einnig að kortleggja feril kvikugangsins frá Bárðarbungu út í Holuhraun í meiri smáatriðum en annars hefði verið mögulegt.
Skaftárhlaup
Árið 2013 var þremur GPS stöðvum komið fyrir á yfirborði Vatnajökuls til að safna gögnum frá væntanlegu jökulhlaupi úr Eystri Skaftárkatli; ein var sett í miðjan Eystri Skaftárketil til að fylgjast með hæðarbreytingum í katlinum en tvær stöðvar voru settar á jökulsporðinn yfir hlaupfarvegi Skaftárhlaupa. Svo fór, að rauntímaúrvinnsla á gögnum úr þessari GPS stöð varð fyrsta viðvörun um að hlaup væri að hefjast, nú í lok september 2015. Segja má, að íshellan hafi sigið í beinni útsendingu.
Tvö jarðskjálftamælafylki voru einnig sett upp við vestanverðan jaðar Vatnajökuls sumarið 2013, til að mæla og stefnumiða á óróahviður tengdar væntanlegu Skaftárhlaupi, og við upphaf hlaupsins var efnamælum einnig komið fyrir víðs vegar í Skaftá.
GPS sporðastöðvarnar tvær söfnuðu mikilvægum upplýsingum um framrás og hegðun hlaupsins undir jöklinum. Ásamt gögnum frá skjálftafylkjunum og úr vatna- og efnamælunum verður þetta einstakur efniviður til rannsókna en slík samþætting ólíkra greina er aðalsmerki FUTUREVOLC.