Fréttir
Skaftárhlaup, eystri ketill. Samanburður flóða.

Skaftárhlaupið eitt hið stærsta

Tilkynning skrifuð kl. 15:00

1.10.2015

Skaftárhlaupið, sem verið hefur yfirvofandi, kom fram á mælinum við Sveinstind kl. 03:30 í nótt, nú 1. október. Rennslisaukningin við Sveinstind er hin örasta sem mælst hefur síðan stöðinni var komið á fót árið 1971, sjá samanburðarmyndina. Fyrstu athuganir benda til að hlaupið verði eitt hið stærsta, sem komið hefur úr Skaftárkötlum.

Rennslið var orðið tæplega 1300 m³/s við Sveinstind kl. 15:00 og fer enn ört vaxandi. Kl. 10:00 var hlaupvatn komið niður að mælinum við bæinn Skaftárdal og rennsli þar mældist tæplega 400 m³/s kl. 15:00. Neðan Skaftárdals skiptist Skaftá í þrjá farvegi og liggur einn um Eldvatn framhjá Ásum og gegnum Flögulón niður í Kúðafljót, annar út á Eldhraun í Árkvíslum og sá þriðji rennur framhjá Kirkjubæjarklaustri.

Ennþá er samband við GPS-stöðina í Eystri Skaftárkatli og hefur hún sigið meira en 66 metra. Síðustu 1-2 klst hefur heldur dregið úr sighraðanum sem bendir til að hámarksrennsli út úr katlinum hafi verið náð.

Helstu tímasetningar eru áætlaðar sem hér segir:

  • Um miðjan dag verður hlaupið komið að mælinum í Eldvatni við Ása og síðar í dag að mælinum við þjóðveg 1 yfir brúna á Skaftá við Kirkjubæjarklaustur. Þaðan í frá fer vatnsmagnið stöðugt vaxandi við þessa mælistaði.
  • Um svipað leyti má búast við að hlaupvatn nái upp að vegi við Hólaskjól.
  • Útrennsli við jökuljaðar nær væntanlega hámarki aðfaranótt föstudags.
  • Líklegt er að rennslið nái hámarki við Ása og Kirkjubæjarklaustur aðfaranótt laugardagsins 3. okt.
  • Hugsanlegt er að hlaupvatn flæði upp á þjóðveg 1 í Eldhrauni, 5 - 10 km vestan við Kirkjubæjarklaustur. Einnig er hugsanlegt að ágangs hlaupvatns gæti við Stóra-Brest, 5 - 6 km austan við Ása.

Kortið hér að ofan sýnir líklega farvegi hlaupvatnsins. Sjá ljósmyndir úr Búlandi í sérstakri grein.


Vegna mikillar úrkomu er grunnrennsli hátt í vatnsföllum á svæðinu, t.d. var rennsli Skaftár um 120 m³/s við Sveinstind þegar hlaupið hófst. Meiri úrkomu er spáð næstu daga og leiðir hún til einhverrar aukningar í þeim rennslistölum sem mælast í hlaupinu.

Þegar rennslistölur frá vatnshæðarmælum eru skoðaðar ber að hafa í huga að óleiðrétt gögn frá mælinum við Sveinstind (birt á vef Veðurstofunnar) gefa rétta mynd upp undir 1300 m³/s en eftir það er áin byrjuð að flæmast úr farvegi sínum út í Skaftáreldahraun og þá er heildarrennslið meira en mælirinn gefur til kynna. Af sömu ástæðu mælist minna vatnsmagn í mælunum neðar í ánni, auk þess sem flóðtoppurinn nær að fletjast nokkuð út á leið hlaupsins niður eftir farvegi Skaftár.

Áfram er fylgst með stöðu og þróun mála.

Heildarsig íshellunnar yfir Eystri Skaftárkatli
Yfirlitskort sem sýnir líklegan farveg hlaupvatns undir Vatnajökli
Kort sem sýnir rennslisstöðvar og staði (rauðir punktar) þar sem líklegast er að flóð hafi áhrif á byggð

f.h. Vatnavárhóps Veðurstofu Íslands
Matthew J. Roberts
Þorsteinn Þorsteinsson
Óðinn Þórarinsson
Oddur Sigurðsson
Snorri Zóphóníasson
Benedikt G. Ófeigsson





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica