Vatns- og aurflóð á Siglufirði
Viðbrögð Veðurstofu Íslands í ágúst 2015
Vatnavársérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast með veðurspám og afrennslisspám og hafa samráð við veðurfræðinga og sérfræðinga í skriðuföllum um ritun athugasemda, sem birtast á vatnafarsvef stofnunarinnar. Sérstakar viðvaranir eru settar í viðvörunarborða á forsíðu vefsins þegar ástæða þykir til.
Siglufjörður
Mikið tjón varð á Siglufirði nýverið af vatnsflóði og þeim árframburði sem fylgdi en myndin hér að ofan (stækkanleg) sýnir bæinn og helstu örnefni. Af þessu tilefni vill Veðurstofan reifa það hvernig brugðist er við þegar spáð er miklu vatnsveðri, líkt og var dagana 24.-28. ágúst 2015, en í lokin er fjallað um um endurkomutíma slíkra viðburða og tenglar gefnir á frekari upplýsingar og myndir.
Atburðarásin á vatna- og ofanflóðavakt
Mánudagur 24.8.
Vatnavaktin fylgist með veðurspám og afrennslis-spákortum úr Harmonie líkaninu.
Þriðjudagur 25.8.
Tölvupóstar fara á milli starfsmanna innanhúss varðandi afrennsliskortin. Rætt um hvort senda beri út sérstaka viðvörun en ákveðið að bíða til næsta dags.
Miðvikudagur 26.8.
Samráð veðurfræðinga, vatnavaktar og skriðufallasérfræðinga allan morguninn og eftir hádegi. Eftirfarandi athugasemd sett á vatnafarssíðu íslenska og enska vefsins kl. 15:
- Úrkoma gengur yfir landið frá miðvikudegi til föstudags og rignir mest austan- og norðanlands. Sérstaklega er varað við úrkomu á norðanverðum Ströndum og nágrenni. Búast má við verulegu afrennsli á norðanverðu landinu og frá jöklum miðhálendisins. Ferðafólk er hvatt til að gæta varúðar.
- Rainfall is forecast for Eastern- and Northern Iceland from Wednesday to Friday this week. Increased runoff is expected to lead to rising water levels in rivers. Travellers in the northern part of the Vestfirðir (Westfjords) peninsula, as well as in the central highlands, are advised to be cautious.
Klukkan 16:42 er eftirfarandi viðvörun sett í viðvörunarborða á forsíðu Veðurstofuvefsins og birtist þar samhliða viðvörun sem veðurfræðingar höfðu sett inn:
- Viðvörun: Spáð er mikilli rigningu víða á norðanverðu landinu fram á föstudag. Aukin hætta er á skriðuföllum og gæta ber varúðar við vatnsföll.
- Warning: Heavy rainfall is forecast for the northern part of Iceland until Friday. Beware of possible river flooding, mudflows and rockfall.
Skriðufallasérfræðingur á Ísafirði var í símasambandi við Almannavarnir þennan dag.
Fimmtudagur 27.8.
Stöðugt samráð veðurfræðinga, vatnavaktar og skriðufallasérfræðinga. Á vefnum eru athugasemdir sérfræðings uppfærðar, svo og viðvörunartextinn.
Föstudagur 28.8.
Athugasemd sérfræðings og texti á viðvörunarborða uppfært tvívegis.
Varðandi endurkomutíma
Endurkomutími sólarhringsúrkomu hefur verið metinn fyrir nokkrar veðurstöðvar á mið-Norðurlandi.
Miðað við mælingar á Kálfsárkoti í Ólafsfirði er 24 stunda úrkoma yfir 100 mm með 10-20 ára endurkomutíma en slík úrkoma er sjaldgæfari á öðrum stöðvum í grennd við Siglufjörð. Þegar slík úrkoma fellur á ákveðnu svæði má gera ráð fyrir að hún sé misáköf milli staða innan svæðisins þannig að staðbundnar hvolfur geta verið miklu ákafari á ákveðnum stöðum en annars staðar.
Samkvæmt upplýsingum frá heimamönnum kann úrkoma í Hvanneyrarskál fyrir ofan bæinn að hafa verið ákafari en við veðurstöðina á Siglufirði þann 28. ágúst 2015 en úrkomuákefðin var mjög mismunandi eftir stöðum í firðinum þennan dag.
Þegar gerir aftakaúrkomu, sem svarar til tíu ára endurkomutíma eða nokkurra áratuga endurkomutíma, verða stórvandræði í mörgum bæjum sem standa undir bröttum hlíðum hér á landi, t.d. í fyrra á Ísafirði, 1988 á Ólafsfirði (samfara skriðuföllum), og 1940 og 1946 á Eskifirði svo nefnd séu fjögur dæmi en miklu fleiri má nefna. Í þessum tilvikum varð stórtjón á húsum og öðrum mannvirkjum.
Tjónið á Siglufirði nú stafaði að talsverðu leyti af því að Hvanneyraráin braust upp úr farvegi sínum og rann stjórnlaust um þéttbýlið. Þetta stafaði líklega af stíflum sem mynduðust við götur bæjarins þar sem ræsi báru ekki rennsli árinnar. Svipaðar stíflur geta myndast við fjölmörg ræsi í bæjum landsins við aðstæður sem þessar.
Niðurstaða þessara hugleiðinga er að úrkoma sem féll á Siglufirði þann 28. ágúst 2015 kunni að hafa endurkomutíma upp á einn eða nokkra áratugi en getur hafa verið staðbundið ákafari í Hvanneyrarskálinni sjálfri. Tjón í byggðinni varð meira en dæmi eru um og stafar það annars vegar af því að Hvanneyraráin braust upp úr farvegi sínum, sem kann að hafa verið tilviljun, og hins vegar af því að flóð af þessum toga valda miklu meira tjóni nú en fyrir nokkrum áratugum vegna þess að verðmæti á flóðasvæðinu eru miklu meiri og fleiri nú.
Frekari upplýsingar um viðbrögð við þessum atburði
Sérstök grein geymir fleiri myndir tengdar þessum viðburði.
Þar er mynd sem sýnir leið árinnar í ræsum undir byggðina og skema sem sýnir ástæður skyndiflóða (flash floods). Einnig afrennslisspákort, listi yfir fyrstu vatnavárathugasemdir og flóða- og skriðuviðvörun, allt frá 26. ágúst, ásamt staðfestingu á umfjöllun í sjónvarpsfréttum það kvöld.
Því næst koma kort sem sýna sólarhringsúrkomu 27. ágúst og 28. ágúst (úrkomuákefð á Sauðanesvita) og línurit sem sýnir stökk í uppsafnaðri úrkomu þessa daga á Siglufirði og í Ólafsvík. Að lokum er staðfesting á umfjöllun í sjónvarpsfréttum og á fimmtudags- og föstudagskvöldið.
Neðst koma nokkrar samanburðarmyndir sem sýna Hvanneyrará, annars vegar við venjulegar aðstæður 2013 og hins vegar í þessum miklu vatnavöxtum síðla í ágúst 2015.