Fréttir
Námskeið í gerð snjógryfja.

Tíu ára starfsafmæli Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði

21.11.2014

Tíu ár eru síðan Snjóflóðasetur, starfsstöð Veðurstofu Íslands á Ísafirði, var vígt. Það var í kjölfar mannskæðra snjóflóða á Vestfjörðum árið 1995 að heimamenn óskuðu eftir því að starfrækt væri miðstöð á svæðinu fyrir rannsóknir og vöktun á snjóflóðum. Ljóst var Veðurstofa Íslands mundi gegna þar mikilvægu hlutverki enda yrði að endurmeta þágildandi hættumat en samkvæmt því höfðu flóðasvæðin 1995 verið talin vera utan hættusvæðis. Til mikils var að vinna því á 30 ára tímabili 1974–2004 fórust 53 í snjóflóðum á Íslandi. Ekki hefur orðið manntjón í snjóflóðum undanfarinn áratug.

Snjóflóðasetrið var vígt í nóvember 2004 og var Harpa Grímsdóttir landfræðingur ráðin útibússtjóri og eini starfsmaður þess. Snjóathugunarmenn höfðu þá þegar gegnt störfum um nokkurt skeið fyrir Veðurstofuna, á Ísafirði og í nærliggjandi bæjum, lengst af þeir Oddur Pétursson, Örn Ingólfsson og Jóhann Hannibalsson. Starfsemin hefur frá upphafi haft aðsetur í svonefndu Vestrahúsi nálægt höfninni á Ísafirði, ásamt Háskólasetri Vestfjarða og öðrum rannsókna- og stjórnsýslustofnunum.

Stærra hlutverk og vaxandi verkefni

Verkefni Snjóflóðasetursins og útibús Veðurstofunnar á Ísafirði hafa aukist og orðið margbreytilegri á þessum 10 árum. Sumarstarfsmaður þar árið 2005, Sveinn Brynjólfsson, stýrir í dag snjóflóðaeftirliti Veðurstofunnar á Norðurlandi.

Á árunum 2007–2009 bættust fimm starfsmenn í hópinn og rannsókna- og verkefnasviðið víkkaði. Auk verkefna Snjóflóðasetursins vinna starfsmenn útibúsins nú að vatnamælingum á Vestfjörðum, rannsóknum á sjávarflóðum og eftirliti og rannsóknum vegna hruns, jarðskriðs og aurflóða.

Miðstöð snjóflóðavaktar fyrir allt landið færðist til Ísafjarðar 2012. Óvissustig og hættustig eru algengust á norðanverðum Vestfjörðum. Það er kostur fyrir snjóflóðavakt VÍ að það starfsfólk sem leiðir verkefnin búi á svæðinu, bæði vegna mats á veðri og snjóalögum og vegna skilnings á aðstæðum þeirra sem  verða fyrir óþægindum, svo sem ef rýma þarf svæði vegna hættu.

Stofnunin hefur á að skipa miklum mannauði, þar á meðal starfsfólki sem hefur sérhæft sig í að takast á við verkefni útibúsins, allt frá eftirliti og vettvangsathugunum til rannsókna og miðlunar, bæði í nærsamfélaginu og á alþjóðlegan mælikvarða.

Höfðinglegt heimboð
""
Árshátíð Veðurstofu Íslands árið 2011 var haldin hinn 19. mars á Ísafirði. Móttaka var í háskólasetrinu þar sem Snjóflóðasetur Veðurstofunnar er til húsa og hér er Harpa Grímsdóttir forstöðumaður að segja frá starfsemi setursins. Vel var mætt á árshátíðina, um 127 þátttakendur sem dvöldu flestir yfir helgi, enda dagskráratriði mörg og fjölbreytt: Fjallaskíðaferð, skíðakennsla, skútusigling, útsýnisflug og menningarganga um bæinn. Ljósmynd: Snorri Zóphóníasson. 

Samstarf við aðrar stofnanir

Starfsemi ýmissa stofnanna á Ísafirði má tengja verkefnum Veðurstofunnar. Í litlu samfélagi eru boðleiðirnar stuttar og samstarf stofnana auðveldara en á stærri stöðum. Vaxandi samstarf hefur til dæmis verið við Vegagerðina en Snjóflóðasetrið og Vegagerðin unnu saman að alþjóðlegu verkefni, SNAPS (Snow, Ice and Avalance Applications), og leiddi það til samnings milli Veðurstofu ogVegagerðar um snjóflóðaspá fyrir vegi. Náið samstarf hefur einnig verið við lögregluna á Ísafirði.

Veðurstofan hefur átt samstarf við Háskólasetur Vestfjarða, bæði um fyrirlestra fyrir nemendur og vettvangsferðir. Nemar við Háskólasetrið hafa komið að verkefnum fyrir Veðurstofuna í sjálfboðavinnu. Miklir möguleikar felast í frekara samstarfi, svo sem um sérhæfð námskeið í snjóflóðamálum, sameiginlegum, styrkhæfum rannsóknarverkefnum og öðru sem tengist því hlutverki sem Veðurstofan sinnir.

Gott samstarf hefur verið við Orkubú Vestfjarða varðandi vatnamælingar.

Samstarf við fyrirtæki og einstaklinga

Veðurstofan hefur komið að þróunarverkefni með nýsköpunarfyrirtækinu POLS Engineering, sem hlaut vorið 2014 styrk til þriggja ára úr Tækniþróunarsjóði fyrir rannsóknarverkefnið Fjallasnjó til þess að þróa sjálfvirkan snjómæli. Framtíðarmarkmið þess er að á Ísafirði starfi nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð mælitækja fyrir erfiðar aðstæður. Snjóflóðasetur Veðurstofunnar er kjörinn aðili til að vinna með fyrirtækinu að þróun og prófun mælitækja, til gagns fyrir báða aðila.

Snjóflóðasetur hefur einnig átt samvinnu við einstaklinga á svæðinu. Þannig hafa tilraunir í snjóflóðasprengingum verið gerðar í samstarfi við Helga Mar Friðriksson og Arnþór Kristjánsson sprengjusérfræðinga, en verkefnið hefur fengið styrki úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og Ofanflóðasjóði.

Allir sem einn
""
Úr skíðagöngu starfsmanna Veðurstofunnar á árshátíð 2011; leiðsögn í boði Snjóflóðaseturs. Ljósmynd: Rúnar Óli Karlsson.

Nálægð við notendur þjónustunnar

Á norðanverðum Vestfjörðum býr fólk í mikilli nálægð við náttúruöflin. Veðurstofan leggur mikla áherslu á góða þjónustu og nálægð við notendur. Almenn ánægja er með starfstöð Veðurstofunnar á Ísafirði.

Tilvísanir og ítarefni

SNAPS

Snjóflóðasprengingar

Fróðleikur og fréttir um ofanflóðamál

Störf snjóathugunarmanna

Saga snjóathugana

Starfsmenn Snjóflóðaseturs

Ýmis verkefni Snjóflóðaseturs


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica