snjókóf í fjallshlíð, tveir menn í forgrunni
Snjóflóðasprenging í mars 2009 í nágrenni Bolungarvíkur.

Fleiri snjóflóðasprengingar

Harpa Grímsdóttir 19.3.2009

Mánudaginn 16. mars 2009 var tveimur stórum snjóflóðum komið af stað í tilraunaskyni með sprengiefni í óbyggðum í nágrenni Bolungarvíkur. Atburðurinn var festur á filmu og myndatökumaður var Jóhannes Jónsson hjá DIGI-film. Myndbandið (wmv) er tvær og hálf mínúta að lengd.

Snjóaðstæður voru þannig að mjög þéttur og þykkur fleki var ofan á hjarni, og skammt ofan í hjarninu var veikt lag. Brotstálið sem myndaðist var 10 metra þykkt þar sem það var þykkast. Einni gínu var komið fyrir í upptakasvæði fyrra flóðsins og sést hún á myndbandinu. Flóðin eru þurr flekaflóð og þeim fylgir töluvert kóf.

Snjóflóðasprenging í mars 2009
fjallshlíð, snjókóf í gili
Kófið sem fylgir flóðinu sést vel á miðri mynd.

Enn var sprengt föstudaginn 17. apríl 2009 og blautu snjóflóði komið af stað á svipuðum slóðum. Myndbandið (wmv) er fjórar mínútur að lengd. Tilraunir sem þessar auka skilning á hegðun snjóflóða af mismunandi gerðum.

Forsenda þess að geta horft á upptökurnar sem fylgja þessari grein er að hafa Windows Media Player eða sambærilegt forrit til að spila myndbönd í tölvu. Almennum notanda hefur reynst auðveldast að ræsa myndböndin úr vafranum Internet Explorer.

Fyrr sama vetur hófust tilraunir með snjóflóðasprengingar á Íslandi og um grundvöll þeirra má lesa í eldri fróðleiksgrein.

Til baka




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica